fimmtudagur, mars 16, 2006

Ég er orðin svo morgunhress, held ég sé að breytast úr þeirri miklu B-manneskju sem ég alltaf hef verið, yfir í amk. A, ef ekki AA-manneskju! Auðvitað ekki AA-bindindismanneskju, en þessa sem vaknar svona svakalega snemma! En ég held reyndar að það sé undirmeðvitundin sem vejkur mig svo ég missi ekki af sólarupprásinni sem er engu lík hér um slóðir. Ég elska að vera komin út með nýpressað djúsið mitt áður en sólin kemur upp. Fyrst er algjörlega hljótt, einn og einn fugl sveimar hálfsofandi um, en annars er engin hreyfing. Svo læðist sólin yfir fjallstoppinn og þá er eins og við manninn mælt, allt fer í gang, fuglarnir syngja og hedast um loftin blá, skordýrin láta frá sér heyra og hundarnir byrja að gelta einshverstaðar í fjarska. Þetta er eins og að verða vitni að fæðingu heimsins, aftur og aftur. Getur maður óskað sér betri byrjun á nýjum degi?
En þessi morgunhressleiki minn gerir að verkum að ég fer fremur snemma að sofa!
Ég labbaði áðan út í búð sem er hér rétt hjá, tekur tæpar 10 mín. að ganga. Sigfús er á bílnum "norður í landi". En ég skildi fljótlega af hverju svona fáir hvítir menn eru á gangi, það er svo svakalega heitt að labba svona! Bílarnir eru með loftkælingu og það er loftkæling heima svo maður áttar sig ekki almennilega á hvað er í rauninni heitt! Ég mætti nokkrum innfæddum, sem allir heilsuð mér brosandi. Ísinn sem ég keypti var farinn að bráðna þegar ég kom heim, en annars gekk þetta auðvitað vel! Lue er búin að puða svo mikið síðustu daga svo ég ákvað að finna eitthvað þægilegt handa okkur í hádegismat og keypti litlar pizzur til að setja í örbylgjuofninn. Hún fylgdist spennt með, hafði aldrei smakkað svona áður. Þegar við vorum sestar með pizzu og salat, horfði hún alvarlega á mig og sagði: "ég ætla að læra að borða með hníf og gafli". Ég hafði ekki tekið eftir þessu fyrr, en aðfarir hennar með hnífapörin voru þannig að Bjarki sonarsonur minn hefði getað kennt henni mikið þrátt fyrir að hann sé bara 3 ára!
En hún sagðist eiga hníf heima, notar hann bara ekki!
Úrvalið í verslununum er að mörgu leyti skrítið, það eru hillur upp og hillur niður af alskyns bandarískum niðursuðuvörum, kornum og ávaxtasöfum, en svo er margt sem er hreinlega ekki til nema endrum og sinnum, og það eru oft nauðsynjavörur. Td. fórum við um allan bæjinn áður en við fundum skúringarmopp!Lue fannst skrítið að ég vildi hafa 2 skúringarmoppa, einn til að skúra með inni og hinn til að skúra með verandana! En hún lætur sig hafa það!
Hafið góðan dag/KNUS
Comments:
Skrifa ummæli