.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

miðvikudagur, maí 30, 2007


Það er alltaf sama blíðan hérna - fyrripart dagsins. En upp út hádegi fer að þykkna upp og endar á hverjum degi með rigningu og látum. En góðu stundirnar eru vel nýttar eins og sjá má.
Við fórum inn á Half Moon hótelið eldsnemma í morgun og nutum alls lúxusins þar.
Meiningin var að vera þar á ströndinni, en sundlaugin er svo skemmtileg að við vorum bara þar. Enda er innbyggður bar í lauginni og rompunchið voða gott!
Bjarki er mikill sundmaður

og Brynjar tók sér rétt augnabliks pásu frá köfuninni til að pósa fyrir ömmu sína.






En það var líka gott að liggja bara og slappa af. Hálfur í sól og hálfur í skugga!
Nú er bara einn dagur þangað til þau fara heim þessar elskur. Tíminn hefur sko liðið hratt, enda alltaf allt á fullu!

mánudagur, maí 28, 2007


Einn af uppáhaldsstöðunum mínum er fuglareervatið sem er upp í fjöllunum skammt frá Mobay. Þangað fórum við í dag.












Það mátti ekki á milli sjá hver af þeim feðgunum var einbeittastur, Bjarki sem sat rótkyrr á meðan mangófuglinn drakk sykurvatnið úr flöskunni,














Brynjar sem lokkaði doctorbird á margvíslegan máta,













eða Ari sem nánast stanslaust hafði einn eða fleiri fugla á puttanum!
Þetta er svo frábær staður, bæði fallegt og svo er svo svakalega friðsælt þarna.
Tíminn æðir áfram og nú eiga þau bara eftir að vera hérna í 3 daga. Því miður hefur veðrið ekki verið sem skyldi, það rignir eitthvað á hverjum einasta degi. verulega fúlt! En svo er voða gott á milli og þau eru öll komin með þennan fína lit!

sunnudagur, maí 27, 2007










Guðbjörg kvaddi mig og MoBay klukkan 7 í morgun. Hún verður komin til Köben í fyrramálið að dönskum tíma eftir millilendingu í USA. Við hin förum svo sömu rútu á föstudaginn.
Mér finnst voða gott að það er stutt í að ég hitti hana aftur!
Veðrið er búið að vera fremur óstabílt síðustu vikuna; fínt veður fyrripartana en svo hefur hann dregið upp á sig þegar líður á daginn og oftast skvett úr sér á kvöldin og stundum verulegar dembur. Hálfleiðinlegt, en ekkert við að gera og við tökum líka daginn snemma hér. Allt komið á ferð og flug uppúr 6 á morgnana










Dr. Cave Beach er gífurlega vinsæll staður, Bjarki er búin að ná góðum tökum á snorklinu og þarf að beita miklum fortölum til að fá hann upp úr sjónum. Frugtpunch dugar oftast sem beita! En það er líka voða gaman að skoða allavega fiska, röndóttir, bláir og rauðir fiskar synda örstutt úti.









Katherine situr á vaktinni; maður sér í Bjarka í sjáfarmálinu, hann þekkist af appelsínugulu armkútunum og litla rassinum sem stingst upp úr sjónum!











Frugtpuncinn hjá ömmu er líka voða vinsæll, blenderinn er í stanslausri notkun á Taylor Road!


Við fórum í "Poolparty" í gærkvöldi, það átti nú við drengina mína; veislan var á sundlaugarbarminum hjá Merete og Lars og allir krakkarnir busluðu í lauginni og komu rétt upp til að borða. En rétt í því sem maturinn kom á borðin fór rafmagnið og þá var Bjarki orðinn voða lúinn, og hafði enga matarlyst svo amma fór bara með hann heim. (gott að hafa tvo bíla!)



Eftir góðan skamt af jógúrt var hetjan ekki lengi að falla! Hann sefur á milli okkar Sigfúsar og kann því vel! Sefur vel og lengi, oftast amk. 12 tíma. Enda er þessi litli kroppur í stanslausri aksjón frá morgni til kvölds.
Pabbi hans er svosum aktívur líka, fór á golfvöllinn klukkan átta í morgun!

Það er svo gaman að hafa þau hérna, tíminn líður með ógnarhraða og eftir nokkar daga erum við öll í Kaupmannahöfn. KNUS í öll hús

föstudagur, maí 25, 2007




Her eru eilífir sunnudagar og margar ástæður til veisluhalda. Í gær varð Brynjar 10 ára og var því að sjálfsögðu fagnað með viðeigandi hætti.














Feðgarnir greiddu sér allir í "pigsving" eins og Bjarki kallar það og voru náttúrulega rosalega flottir!

















Við morruðum á ströndinni;

















og í tilefni dagsins fékk Brynjar að prófa að keyra jetsky. Hann tætti fram og aftur og ömmu fannst hann spýta ansi duglega í stundum!












En hann er orðinn stór strákur hann Brynjar og stórmyndarlegur eins og sjá má!























Við skruppum á Mósaíkbarinn þar sem Bjarki hjálpaði til við að gróðursetja pálmatré,











tante Guðbjörg slappaði af á meðan!












Það er náttúrulega meiriháttar að fá að hafa þau öll hérna hjá mér; við njótum hverrrar mínútu!
Guðbjörg fer á sunnudaginn, en þau hin verða fram á fmmtudag. Ég slæst í hópinn og verð þeim samferða til Kaupmannahafnar. Fer svo áfram til Íslands þann 4. júní. Ég ætla sko að verða komin þegar bókin kemur úr prentun!! Hlakka mikið til.
KNUS frá okkur öllum.













miðvikudagur, maí 23, 2007

Búið að vera mikið að gera, verð þó að skella nokkrum myndum inn!

Fórum öll til Ocho Rios og gistum tvær nætur á íbúðahóteli skammt frá fossum og höfrungum!













það var farið í siglingu;















heilsað upp á afkomenda kapteins Morgans;















synt í sjónum;




fyrðudýr skoðuð;













og svo að sjálfsögðu klifrað í fossunum! Bjarka var hálfkalt, skalf og titraði, en ég held það hafai ekki síður verið af spenningi!
og svo er 10 ára afmæli á morgun!
meira seinna, KNUS

sunnudagur, maí 20, 2007





Enn er þungbúinn himinn yfir MoBay, afar óvenjulegt svona marga daga í einu og afar leiðinlegt þegr við erum með svona góða gesti sem vilja gjarna njóta sólar og blíðu.





En auðvitað er heitt, en líka rakt. Fórum í gær að skoða golfvellina, á meðan þau hin nutu útsýnisins lummaðist ég til að kaupa dagstúr á White Witch golfvellinum handa Ara, en það átti að vera surprice afmælisgjöfin hans. Þetta er víst rosaflottur völlur, hef sjálf ekkert vit á þessu!



Afmælisbarnið var vakið fyrir allar aldir í morgunmeð söng og smákökum. Hér er allt komið á fulla ferð upp úr sex! Brynjar vknar ennþá fyrr, nær ekki ennþá að stilla sig inn á jamaicatímann svo hann er vaknaður um þrjúleitið þessi elska!
Það er langt síðan ég hef verið með honum Ara mínum á afmælisdaginn hans!






margir pakkar biðu á borðinu;
















og eina gjöfina á að nota "men det samme"; Ari tilbúinn til að spreyta sig á golfvelli Hvítu Nornarinnar!

laugardagur, maí 19, 2007

Það er búið að vera mikið fjör og mikið gaman á Taylor Road síðustu sólarhringana!









Þau eru loksins komin þessar elskur alla leið frá Lofoten! Smá þreytt, en allt gekk vel.





















Daginn eftir, þe. í gær mætti svo Guðbjörg, galvösk!













Veðrið er ansi óstabílt (eins og internetið!) þessa dagana, en dagurinn í dag heilsaði með sól og jamaicanskri blíðu og laugin er óskaplega vinsæl









eins og sjá má!
















Morgundjúsinn er á sínum stað;

við njótum samverunnar og












slöppum af














hvert á sinn hátt
















og eftir þörfum!

fimmtudagur, maí 17, 2007

Ég sé á almanakinu að í dag er Uppstigningardagur, frídagur samkvæmt okkar venju. Rauðu dagarnir hjá jamaicabúum er ekki í neinu samræmi við okkar, það eru ósköpin öll af frídögum; hetju þetta og hitt, freslis hitt og þetta, en svona dagur eins og í dag skiptir þá engu. Sama var um Skírdag, á eftir að finna út úr þessu með Hvítasunnuna! En svo hafa þeir nokkurs konar 1. maí í næstu viku, "Labour Day". Vivet sagði að þá ættu allir að vinna eitthvað sjálfboðastarf, ég bauð henni að koma bara og vinna hjá mér í sjálfboðavinnu! Henni fannst ég ekkert fyndin!


Það hefur mígrignt hérna síðustu dagana og einn daginn var eins og allar gáttir himinsins hefðu opnast ofan við húsið okkar. Á augabragði var garðurinn á floti, lækir runnu út um allt og þessi væna tjörn myndaðist rétt fyrir utan hjá mér. Allt á floti í andyrinu, en þakið þar er hriplegt og rignir þar inni löngu eftir að hætt er að rigna úti. Við þurfum þá að nota regnhlíf til að komast út!


Innfæddir eru farnir að hafa áhyggjur, segja að ef hann rigni svona á þessum tíma, þýði það marga og stóra fellibyli í sumar. Sjáum nú hvað setur og "spyrjum að leikslokum" eins og íslensku pólitíkusarnir segja, en það væri nú ferlegt ef rigndi allan tímann sem krakkarnir verða hér. Ari og co eru á leiðinni, eiga að lenda í New York eftir ca. 4 tíma og svo verða þau hérna seinnipartinn í dag. Rigning eða ekki; mikið svakalega verður gaman að fá þau. Og svo kemur Guðbjörg á morgun! Jibbý!

Ég var rétt komin upp í gærkvöldi , stóð gleraugnalaus og allsber við að græja mig fyrir nóttina þegar þessi svakalegi hávaði upphófst - þjófavarnarkerfið fór í gang! Og það mætti sko vera taugasterkur innbrotsþjófur sem ekki tæki til fótanna þegar það fer í gang! Það lá við að ég gleypti tannburstann, mér brá svo rosalega. Sigfús tvístraðist upp úr rúminu og augnablik stóðum við í forundran og góndum hvert á annað, en á næsta augnabliki var ég hlaupin af stað, komin í sloppinn og með gleraugun á nefinu. Ætlaði sko ekki að mæta óboðnum gesti alsber og staurblind! Hugsaði náttúrulega ekkert út í að kannski ætti ég að fara varlega niður - vildi bara stoppa þessi agalegu læti. En allt var með kyrrum kjörum, þ.e. þegar ég var búin að slökkva á lúðrinum, ekkert að sjá eða heyra óvenjulegt. Líklega hefur bara fugl eða eitthvað skordýr flogið nálægt skynjaranum á veröndinni.
Eftir 5 mínútur voru mættir tveir vopnaðir verðir, annar með hjálm og í skotheldu vesti (sá hinn sami hljóp út þegar ég mundaði myndavélina!) hinn meira afslappaður en tók þetta samt voða alvarlega og skoðaði allt í krók og kring og fannst bara gaman að stilla sér upp fyrir mig! En það vantar sko ekkert upp á þjónustuna verð ég nú að segja, nú vitum við þó að þetta virkar allt hjá þeim. Og það er nú gott að vita!

þriðjudagur, maí 15, 2007

Ég hentist upp frá tölvunni þegar bankað var á dyrnar klukkan 6.30 í morgun. "Er þetta Hafrún Lilja" kallaði ég hikandi en þó himinlifandi, datt snögglega í hug að etv. var þetta rétt hjá henni Sigrúnu að þetta hefði verið Hafrún sem var að synda í höfninni! Hafrún er líka marg búin að segjast vera á leiðnni til MoBay og þetta er sanngögull og ákveðinn kvenmaður - eins og hún á kyn til! En nei, ónei, hér var kominn André gas til að skoða gaskútinn okkar sem allt í einu hætti að gefa gas, þrátt fyrir að nýverið hefði honum verið skipt út. þetta gasleysi þýddi auðvitað að ég var "óköffuð" fyrstu klukkustundir dagsins og það er ekki gott!
Það var því gott að vera búin að fá þetta dundurtæki, hann Mr. Oster sem við Sigfús slengdum okkur á í síðustu apóteksferð okkar. Nú hvíli ég mig á frískpressaða morgundjúsinu og tæti saman klaka, tiltæka ávexti og slettu af td. tilbúnum gulrótar/mangó safa! Og þvílíkt nammi! Ég er rosalega veik fyrir svona tækjum, má segja að ég sé "smátækjaóð", er svo hugfangin af öllum þessum litlu rafmagnstækjum sem hægt er að láta gera ótrúlegustu hluti. Prófaði um helgina að gera rompunch og það var svona líka svakalega gott hjá mér. Ekki þó eins og í Húsbátagrillinu, en þeir eru líka fagmenn!
En það var líka voða gott að fá kaffið þegar André var búin að losa gasstífluna. Við höfum mest notað instantkaffi hérna enda er það alveg ágætt. En nú hef ég ekki fengið uppáhaldskaffið mitt lengi og keypti því venjulegt uppáhellingarkaffi um daginn. Tók með mér trekt og poka frá Danmörku og fann loksins kaffibrúsa hérna í verslun. Vivet horfði stórum augum á þessa viðbót á eldhúsbekknum og vildi fá að vita hvað þetta væri eiginlega. Þá fann ég út úr að hún hefur aldrei séð uppáhellingargræjur og þar af leiðandi aldrei snakkað þannig kaffi. Já, ég get enn orðið hissa yfir menningarlegum mun okkar!
Svona í restina; svakalega er gaman að þessum kommentum frá ykkur stelpur! Og Svansa frænka klikkar ekki frekar en fyrri daginn, já Svansa mín: 16 ár og "still going strong"!! Kannski verður Kristján Júl bara heilbrigðisráðherra?

mánudagur, maí 14, 2007









Ekki náðum við nú að fylgjast með Júróvisjón á laugardaginn, Ísraelska stöðin sem ég setti allt mitt traust á sendi gamla kúrekamynd út í stað söngvakeppni. þeim hefur örugglega ekki fundist ástæða til að sýna þetta, þeir voru ekkert með, var það nokkuð? Varð smáspæld, búin að poppa og allt!

En aftur á móti náðum við kosningaútvarpinu og það var fjör! Voða gaman að fylgjast með þessu öllu, þetta var/er ekkert smá spennandi! Sáum meira að segja smá af útsendingu sjónvarpsins, þegar allir formennirnir voru þar saman komnir, syngjandi, kveðandi og svona líka glaðir og góðir við hvern annan! Og stjórnin lafir er mér sagt og litlir hattar eru mikið í tísku ef marka má myndir af Margaretu og Mary stórhattaeigendum í Danmörku!

En er þá nokkur ástæða til að vera fýldur? Þetta er að vísu ansi tæpt, en þeir eru nú með svo marga góða og heiðarlega náunga þarna með sér, svo þetta ætti allt að fara vel fram?
En ég er allavega spennt að vita hver verður heilbrigðisráðrerra!
Hér rignir og rignir; mér er nú alveg hætt að lítast á, allir krakkarnir að koma eftir nokkra daga og eiga auðvitða von á eilífu sumri og sól. Það er svosum nógu heitt, fer ekki undir 25 stigin þótt rigni eldi og brennisteini, en er rosalega rakt.sól.
Á sunnudaginn var þetta fína veður, algjör stilla og

Við skruppum niður í klúbbinn, það er svo indælt að sitja bara þarna og horfa á bátana koma og fara.

En svo kemur stundum eitthvað óvænt, eins og þessi sundmaður sem kom á slíka flugsundinu
einhverstaðar utan af hafi! Náði nú ekki að spyrja um ferðir hans, en skyldi hann hafa verið að koma frá Kúbu?

Stefnan væri allavega rétt! Kannski var þetta bara Fidel him self!


laugardagur, maí 12, 2007

Ég var að kíkka á fréttasíðurnar (íslensku og dönsku) eins og geri flesta daga; og "mikið gengur á og meira stendur þó til" eins og kellingin sagði þarna um árið! Á einni viku er nýi flokkurinn hans Naser Khader búinn að sópa til sín yfir 17 þúsund meðlimum og geri aðrir betur! Flokkurinn segir áhrifum Dansk Folkeparti á danska pólitík stríð á hendur og eins og allir nýstofnaðir flokkar fyrr og síðar, vilja stofnendur flokksins að gera betur en nú er gert.
En þessi flokkur, "Ny Allience" setur líka fram þá von að hægt verði að sameina grunngildi okkar sem manneskja í vestrænu þjóðfélagi, áhrifaríkri og dugandi samfélagsþróun án þess að þurfa að beita öfgafullum hægri eða vinstri öflum. Naser Khader, sem er múslimi, er gífurlega vinsæll pólitíkus í Danmörku en mætir mikilli mótstöðu heittrúaðra múslíma. Hann er of "líberal" að þeirra mati. Ef ég hefði kosningarétt til alþingis í Danmörku myndi ég örugglega ganga í flokkinn, ég held að það komi eitthvað gott út úr þessu.
En ég kýs til Alþingis á Íslandi! Og nú verður spennandi að sjá hvað gerist í dag. Áður en ég kaus (gerði það utankjörstaðar í Kaupmannahöfn daginn áður en ég fór þaðan í lok mars) skrifaði ég efstu mönnum allra lista í Norðurlandskjördæmi eystra (en þar verð ég að greiða atkvæði sbr. síðasta lögheimili) og bað þá að gefa mér upplýsingar um stefnu þeirra flokks í málefnum fólks með heilabilun og hvað þeir hyggðust gera ef þeir kæmust í ríkisstjórn. Ari sonur minn hló mikið að mér, sagðist vera viss um að þetta fólk héldi að ég væri sjálf með heilabilun! En hvað um það, flestir svöruðu mér. Sumir með stöðluðum pólítískum svörum, aðrir af vanþekkingu en frá einum aðila fékk ég stórgóð svör sem lýstu allavega ákveðnum vilja til að gera eitthvað.
Ég kaus þann flokk. Og nú verður spennandi að fylgjast með niðurstöðum kosninganna í dag.


Það verður brjálað að gera; bæði kosningar og Júróvisjón! Við sáum hluta af undankeppninni í fyrradag á einhverri ísraelskri stöð, reyni að finna hana aftur á eftir. þetta byrjar nefnilega kl. 14.00 að mínum tíma. Það verður ekkert júrópartý hjá okkur, þó keypti ég poppkorn í gær til hátíðarbrigða!

Og aldrei að veit nema eitthvað svona verði gert líka!



Kjósið nú rétt elskurnar, hver ætlar að gera best í heilabilunarmálunum?!

Og hvernig eigum við að reyna að koma einhverri vestrænni þjóð að í júróinu?
Skyldi ég geta SMS-að héðan?

Já þetta verður þrælerfiður eftirmiddagur! KNUS í öll hús

föstudagur, maí 11, 2007


Daginn er verulega farið að lengja í MoBay. Þessa dagana kemur sólin upp ca. korter fyrir sex, já þetta er rétt skilið ca. kl. 5.45!
Og ég B-manneskjan er gjarna komin á ról þá! Tók þessa mynd í morgun kl. 5.41, sólarupprásin var með endemum falleg, enn var hálf dimmt þegar sólin skreið yfir fjallið, himininn eldrauður og algjör þögn ríkti. Nokkrum mínútum seinna var allt komið á fulla ferð; fuglarnir sungu, litrík fiðrildi flugu fram og tilbaka, rámir nývaknaðir hundar geltu í fjarska og sólin komin hátt á loft. Meiri hraðinn á henni upp á morgnana. Ég er alltaf jafnhugfangin af þessum morgunstundum.
Seinna í dag gerði ég uppgötvun; nú þarf ég ekki lengur að velta fyrir mér hvurs kúkur var í skápnum, sökudólgurinn sýndi sig og þetta var eins og mig grunaði; stór og ógeðslegur kakkalakki var búinn að hreiðra um sig inn í horni. Honum var snarlega drekkt í gusu úr eiturbauknum ógurlega, allt rifið út úr skápnum og þvegið (eða hent!), skáparnir spreyjaðir með eitri, síðan sápuskrúbbaðir, pússaðir og loftaðir og að síðustu spreyjaði ég vellyktandi inn í öll horn! Eflaust verður barrnálabragð af öllu sem eldað verður hér á næstunni, en allt er betra en ...! En hér eftir þekki ég kakkalakkakúk hvar sem ég sé hann!

miðvikudagur, maí 09, 2007


Mér dauðbrá þegar ég opnaði fyrir Vivet í gærmorgun, ætlaði ekki að þekkja hana hún var komin með splunkunýtt hár og svona ljómandi fín. Hafði hreinlega yngst um 10 ár!
Við nánari athugun kom í ljós að þetta var nú ekki hennar hár, heldur hárkolla sem vinan hafði slengt á kollinn. "En hvað með þitt eigið hár, ertu búin að klippa það allt af" spurði ég í forundran, því kollan var svo lítil og rennislétt, það gat varla rúmast mikið undir henni og Vivet var mér vitanlega með heilmikið hár, allavega var hún með flettinga niður á bak daginn áður. Vivet ætlaði að kafna úr hlátri, sagðist ekkert hafa klippt af heldur væri hennar hár vel geymt þarna undir. "Ja, hérna - hvernig kemst það fyrir" vildi ég vita. Eftir smástund var Vivet komin með sitt velþekkta look, hjólabuxur og einhverja blússuómynd og búin að taka niður kolluna. Og þá fyrst varð ég hissa. Hárið hennar Vivet er ekki neitt neitt. Nokkrar lufsur stóðu upp úr höfðinu á henni, ein og ein lítil flétta á stangli hér og þar, annars var hún næstum ekki með neitt hár! Ég hef örugglega verið óskaplega skrítin á svipin, því Vivet hló og hló, en gat þó á endanum stunið upp að allar fínu löngu flétturnar sem hún hefur skartað með í alls kyns mynstrum hingað til voru allar gervi - bara eitthvað aukahár sem var fléttað inn í hennar eigin lufsur. En þessi nýja hárgreiðsla fer henni voða vel og ég hrósaði henni í hástert henni til mikillar gleði. En það er greinilegt að Vitet er farin að gera meira fyrir sig upp á síðkastið, hún mætti meira að segja í hálfsíðum gallabuxum um daginn, annars er hún alltaf fremur konulega klædd, í hallærslegur pilsum og blússum. Kannski er hún farin að finna fyrir sjálfstæði sem gefur henni meira öryggi með sjálfa sig. Hún er nefnilega að þéna peninga í fyrsta skiptið á æfinni núna með vinnunni hjá okkur. Og við borgum henni ágætlega, ég held hún hafi hærri laun hjá okkur en maðurinn hennar sem er öryggisvörður á hóteli fær fyrir sína vinnu. Þetta er hið ágætasta mál, gott að sjá hana svona góða með sig og roggna!
Talandi um sjálfstæðar konur;
Við Sigfús vorum boðin út að borða í gærkvöldi, á Half Moon hótelinu sem hefur einn af betri veitingastöðum bæjarins. Tilefnið var að ein af Kaupmannahafnarstjörnunum (frá aðalskrifstofu fyrirtækisins) var í heimsókn. Reyndar var það einn af undirverktökunum sem bauð, allir farnir að biðja um gott veður! En hvað um það, ég hafði stjörnuna sem borðherra, ágætis kall virtist vera, skrafhreifinn og óskaplega ánægður með börnin sín (tvíburar!) svo ekki sé nú talað um uppeldið á þeim. Hann vissi nú ekkert hvað ég var að fást við, hefur eflaust haldið að ég væri hér bara til að sinna Sigfúsi og sóla mig. En ég leiddi hann (að því að ég hélt) í allan sannleikann og sló ekkert af! Hann fékk að heyra um Nordic Lights, námskeið, fyrirlestra, ráðgjöf og bókarþýðingu, og ég gaf honum meira að segja örlítið og ókeypis fræðsluerindi um heilabilun (sem hann var voða áhugasamur um).En hvað haldið þið að maðurinn hafi svo sagt? Jú, eftir að ég er búin að telja þetta allt upp fyrir honum segir hann: "Arbejder du noget ved siden af"????
"Ved siden af HVAD" varð mér nú að orði!
Hvað ætli margir karlkyns direktörar fái svona spurningu? En hann fattaði ekkert, hélt bara áfram að útlista fyrir mér hvað hann væri góður uppalandi og hvað öllum væri ljóst hver réði á hans heimili.
Ég held að ég verði að fara að hrista rykið af gömlu kvenréttindabaráttunni minni. Hvurslag er þetta eiginlega? Hefur ekki gerst meira en þetta? Ég spyr nú bara eins og Jónas spurði forðum: "Höfum við gengið til góðs..."?

mánudagur, maí 07, 2007


Það hefur verið mikil traffík á heimkeyrslunni síðustu dagana, Orain nágranni minn var að eignast bíl! Þetta er rafdrifinn kostagripur sem nær örugglega hátt í 5 km. hraða á klukkustund. Alvarlegur á svip keyrir Orain fram og tilbaka og sjaldnast einn. Sharon litla systir fær oftast að vera með honum, enda held ég ekki að hann neiti henni um nokkurn hlut! Hún situr teinrétt og horfir hamingjusöm á allt sem fyrir augu ber og þegar þau keyra fram hjá dyrunum hhjá mér, vinkar hún prinsessuvinki! Þau eru svo fyndin!

Óli íslendingur, eins og við köllum hann til aðgreiningar frá Óla danska, var í heimsókn í gærkvöldi. Því miður er Óli búinn með samninginn sinn hérna og er að fara heim. Við komum til með að sakna hans, það hefur verið gott að hafa þriðja íslendinginn hérna í MoBay. Þar sem Sigfús er ennþá einhentur, tók Óli að sér þrælaverkefnið húsbóndans sem er að hræra í rúgbrauðið. Hann er svo sterkur hann Óli að hann fann ekki fyrir þessu, en trésleifin var hætt komin á tímabili!
Sem betur fer var alþjóðlegi megrunarlausi dagurinn í gær og því fögnuðum við með þessu fína lambalæri (heimahagi óþekktur), flødekartofler og allers. Síðasta ORA grænu var meira að segja opnuð í tilefni dagsins. Óli kom færandi hendi, ekki færri en 5 bækur dróg hann upp úr svörtum plastpoka! Og ég er bara búin að lesa eina af þeim. Mikill léttir, er á síðustu ólesnu bókinni núna!
Og nú eru bara 10 dagar þangað til Lofotfjölskyldan kemur - 11 dagar þangað til Guðbjörg mín kemur! Gaman, gaman!

laugardagur, maí 05, 2007



Ég verð nú bara að setja þessa mynd inn; þegar við vorum að fara heim í dag var sólarlagið svo fallegt að við urðum bara að stoppa og njóta. Sátum niður á Dr.Cave beach á meðan sólin hvarf út við sjóndeildahringinn. Hvar skyldi hún svo hafa komið upp?

Fallegt? Já, heldur betur!


This page is powered by Blogger. Isn't yours?