.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

þriðjudagur, apríl 18, 2006



Þetta er nýja "Lue-in" , konan sem ætlar að sjá um hann Sigfús minn eftir að ég er farin til Evrópu! Nágrannakona mín hún Miss Monika (hér erum við kallaðar "Miss", svo að ég er "Miss Svava"!!) lánaði okkur Vinnifred 2 daga í viku á meðan Sigfús er einn. Þær skilja vel að "auðvitað getur maðurinn ekki verið einn að sjá um húsið, hann er jú vinnandi maður"!! Vinnifred ætlað að koma og þrífa, þvo og strauja og vonadi gengur það allt vel. Hún er voða róleg og ljúf, heyrist ekki í henni, g hefur ekki frekar en Lue séð ryksugu áður!! Vinnifred er 71 árs, ekki að sjá á henni, slett eins og barnsrass. En það er voða erfitt að giska á aldur á fólki hérna, það sést varla á þeim hrukka! Og ekki hefur þetta fólk verið innpakkað í bómull alla æfina. Vinnifred segist vera svona undleg vegna þess að hún fer í kirkju þrisvar í viku, þá hafið þið það!! Mikill er máttur trúarinnar! Ég fer frá MoBay í fyrramálið og lendi, ef allt fer samkvæmt áætlun í Köben tæpum sólarhring seinna. Veit ekki hvort ég blogga mikið á næstunni, það væri þá helst til að ég muni sjálf hvar ég hef verið! Hafið það sem best, KNUS til ykkar allra.


mánudagur, apríl 17, 2006

Eftir vellukkaða páskaferð komum við heim til Mo-Bay í gærkvöldi. Þrátt fyrir að Jamaica sé lítil eyja og ekki hægt að keyra marga km. í hverja átt, tekur þetta langan tíma þar sem eyjan er svo hálend og vegirnir svo slæmir. Ferðinni var heitið til Port Antonio sem er á norð-austur horni eyjarinnar, upp undir hlíðum Blue Mountain þar sem þeir rækta þetta heimsfræga kaffi. Hæsti tindur fjallsins er rúmir 2250 m. og það rignir mikið og oft í, og undir þessu fjalli. Þess vegna var í upphafi byggðar hérna erfitt að fá fólk til að setjast þar að. En umhverfið er óskaplega frjósamt fyrir vikið, allt grær þarna á leiftur hraða og það er afskaplega fallegt á þessu svæði.
Þessi mynd er tekin af svölum hótelsins sem við bjuggum á, hátt upp í fjallinu ofan við bæinn. Hótelið rekur þýskur bóhem, Helmuth Steiner að nafni, þetta er bara 8 herbergja hótel, voða notalegt og persónulegt. En vá, að komast þarna upp! Gott við vorum á jeppa segi ég nú bara, því vegurinn var beint upp í loftið! Ég sárkveið fyrir að fara niður aftur, en það er nú ekki hálkan eða skaflarnir þarna, svo það gekk vel! Þetta er nú svolítið niðurnýtt hjá honum Helmuth, enda er hann bara með einn starfsmann, hann Willy sem gerir allt, tekur á móti fólki, eldar og virðist sjá um staðinn meira eða minna. Helmuth er í reddingunum og þessu sóciala! Voða skemmtilegur náungi. Eyjan sem liggur úti fyrir höfninni var í eigu Errol Flynn sem var víst mikill nautnaseggur, hann hélt villtar orgíur þarna á eyjunni og gekk víst oft mikið á! Jamaicabúar gera mikið úr þeim samskiptum sem frægir og ríkir útlendingar hafa haft við Jamaica, þeir gera því miður minna úr sínu eigin fólki sem margt hvert eru miklir listamenn.
M.a. þessi útskurðarmaður sem við stoppuðum hjá, hann er algjörlega sjálflærður, varla skrifandi, en sker út í mahoní þessar svaka mublur. Ég lofaði að reyna að senda honum myndirnar sem ég tók af honum og hlutunum hans, hann var bara ekki vissum hvaða adressu hann hefði! En ég ætla að reyna, kannske getur hann notað myndirnar sem auglýsingu fyrir sig.

Við heimsóttum líka heimili Noel Coward sem er upp í fjöllunum ofan við Port Antonio. Hann skrifaði marga af sínum frægustu söngvum hérna, ma. "A Room with a View" og það skilur maður eftir að hafa séð panaorama útsýnið sem kallinn hefur haft! Við komum rétt á hælana á Bill Clinton og Hillari sem höfðu líka verið í heimsókn! Þau hjónakornin voru í páskafríi og bjuggu í húsi niður við ströndina sem hafði verið í eigu James Bond höfundarins hans Jan Flemming. Þar geta víst allir sem vilja búið, er nokkurs konar hótel núna. Maður getur vel ímyndað sér að það er inspirerandi fyrir listamenn að búa þarna, það er svo fallegt og svo fjölbreytt náttúra. Við vorum búin að heyra mikið talað um stað sem er við Long Bay, ströndina austur frá Port Antonio. Þetta var að sögn frábær staður sem rekinn er af sænskum manni. Við keyrðum í hálftíma til að sjá herlegheitin, og verð ég að segja að þetta er yfirdrifinn áhugi sem staðnum er sýndir. Kannske er þetta skandinavískur áhugi sem ræður. En staðurinn heitir "Chill out" liggur alveg niður á ströndinni, voða fallegt, en þetta skilti sem hangir upp í rjáfrinu, er greinilega ekki tekið alvarlega, því þessar fáu hræður sem þarna voru (nokkrir svíar og 2-3 innfæddir) svifu allir í eigin heimi og "chilluðu út"!!! Þá fannst mér nú meira áhugavert að sjá líf og fólk í bænum, ma. þennan gamla mann sem sat og horfði á umferðina og mannlífið. Páskarnir eru teknir mjög alvarlega hérna (Skírdagurinn undantekinn!) og mikil kirkjusókn. Það eru aðallega konurnar og börnin sem fara í kirkju, mennirnir taka sér annað fyrir hendur, ma. eru allar krár troðfullar af karlmönnum á kirkjudögum! Konurnar klæðast sínum fínustu fötum, sumar hverjar í síðkjólum og flestar með hatta. Litlu stelpurnar eru í prinsessukjólum og með skraut í hárinu. (Auði frænku minni hefði einhverntíma þótt þetta flott!!) Við keyrðum fram hjá fjöldanum öllum af kirkjum og allsstaðar var troðfullt. Þessi hnáta stóð með fjölskyldu sinni fyrir utan kirkjuna, það komust ekki allir að sem vildu. En það gerði kannske ekkert til, maður heyrði vel þrumandi ræðu prestsins út á götu!
Öllum finnst svo gaman að láta taka af sér myndir, og ekki skemmir að geta séð myndina á eftir. Þessar digitalmyndavélar eru náttúrulega frábær uppfinning! En mikið væri líka skemmtilegt að geta prentað út mynd handa þeim. Konurnar leggja mikið á sig til að komast til kirkju, allir vegir voru fullir af prúðbúnum konum sem greinilega gengu langar leiðir til að komast til kirkju. Varasöm ganga á þessum krókóttu og þröngu vegum.
Jamaicabúar eru afskaplega hreinlegir með sjálfa sig, hvítu fötin eru sko hvít, þrátt fyrir að ekki séu þvottavélarnar á hverju heimili. Allstaðar blaktir þvottur á snúru, og maður sér víða konurnar utan við kofana sína að þvo þvottinn upp úr bala.
Þetta land er svo áhugavert, það er svo margt að sjá, upplifa og læra. Hlakka til að kynnast því enn frekar. En nú fer ég bráðum að yfirgefa Jamaica um tíma, á miðvikudaginn fer ég af stað til Danmerkur og svo sé ég ykkur á Íslandi um mánaðarmótin apríl/maí. Það verður nú gaman að sjá ykkur öll! KNUS

fimmtudagur, apríl 13, 2006

Aumingja Lue fór grátandi í páskafríið. Morgundagurinn er rosalega heilagur hérna og enginn vinnur, ekki heldur Lue. Allir fara í kirkju, líka Lue. Sömuleiðis er mánudagurinn, annar Páskadagur bráðheilagur, en Skírdagur aftur á móti venjulegur vinnudagur, þessi skírn þarna um árið hefur alveg farið fram hjá jamaicabúum! En Lue grét vegna þess að ég er að fara til Evrópu í næstu viku og þá verður ekki vinna fyrir hana hjá mér. Sigfús hefur hvorki tíma eða þolinmæði til að segja henni hvað hún á að gera, en hún getur hreinlega ekki unnið sjálfstætt. Sigfús yrði líka brjálaður að hafa hana í kringum sig, það eru svolítið mikil læti í henni! Þegar Sigfús hefur verið að vinna hérna heima og verið að tala í símann, og annar af tveim símum Lue hefur hringt, þá hefur hún engan sans fyrir að Sigfús sé að tala, hún hækkar sig bara í sinn síma og svo kalla þau bæði, hvort í kapp við annað!! Ferlega fyndið, en ekki auðvelt að vinna við þetta!!
Lue er rosalega góð á sópnum og svo straujar hún vel. Hún hefur alveg gefist upp á ryksugunni! Hennar uppáhladsiðja er því að sópa, strauja og búa til kaffi. Og það eru afskaplega margir hérna sem eru góðir í þessu, svo líklegast verður ekki létt fyrir hana að fá aðra vinnu. Svona kvalifikationer telja ekki hátt í nútíma samfélagi, ekki heldur á Jamaica. Mér finnst mér ekki hafa lukkast voða vel með hana Lue, mér hefur veitst ómögulegt að kenna henni að vinna fyrir mig, þrátt fyrir að ég hafi lagt mig alla fram. Ég þarf að segja henni og sýna henni allt í smáatriðum. Ég er ekki vissum að ég vilji fá hana aftur þegar ég kem heim til MoBay í júní. En á sama tíma vorkenni ég henni alveg svakalega, nú segist eiginmaðurinn vera með prostatacanser og geti því ekki farið frá Kingston og að sjálfsögðu heldur ekki unnið. Kannske er það satt, en Lue hefur engin plön um að fara til hans, eða hann að koma til hennar. En hvað sem örðu líður, þá er ég nú án húshjálpar, haldiði að ég meiki það!!!?? Á morgun förum við í páskafrí og þegar við komum heim frá Port Antonio þarf ég að fara að pakka, eina ferðina enn! En það verður gaman að koma til Kaupmannahafnar og svo fer ég til Álasunds í maí. Ég sakna mikið elskunnar hennar Guðbjargar og strákanna minna (og Katherine!) í Noregi, ef ég gæti haft þau öll hérna hjá mér, þá væri ég bara hér!!
En svona rétt í lokin; ég hef verið að velta þessu bloggi mikið fyrir mér, hverjir lesa þetta eiginlega? Sá að það er búið að fara inn á síðuna mína 1440 sinnum!! Hverjir? Ég var svo gáttuð, því ég fæ nánast aldrei comment á það sem ég skirifa, bara Sigrún Björg frænka mín og Guðbjörg sem hafa einhverja skoðun á þessu rugli mínu. En svona í alvöru, hverjir lesa bloggið mitt? Varla einhverjir utan fjölskyldu og vinahóps? þetta er svo persónulegt að varla nenna einhverjir sem ekkert þekkja mig að lesa þetta? Getur einhver frætt mig um leyndardóma bloggsins? Vona þið hafið það gott og njótið pásafrísins, farið varlega í umferðinni elskurnar. KNUS

miðvikudagur, apríl 12, 2006


Ég verð bara að sýna ykkur hvernig bjútýsalongen á Half Moon lítur út! Þegar ég kom í morgun var mér vísað inn í þannan sal, það sem átti að "realaxsa" smástund. Eftir smástund var ég sótt af pínulítilli snyrtistúlku sem fór með mig inn í "handaherbergið", lítið en rosalega snytirlegt og flott. Þar var róandi músík og stúlkan hófst handa, í orðsins fyllstu merkingu! Skrítið að sjá mínar hendur í höndunum á henni. Hennar svona litlar og svartar, mínar þessar risastóru hendur, og þrátt fyrir að ég sé orðin sólbrún á
höndunum, þá virkuðu þær snjóhvítar við hliðina á hennar!

Handsnyrtingin var ágæt hjá henni, og svo var mér vísað aftur inn í "realaxið" fært te og þarna beið ég á meðan lakkið var að þorna. Ég hef ekki áður verið inn á Half Moon Resorts, en þetta er eitt af þeim hótelum sem allt er innifalið í dvölinni. Þetta er risastórt svæði, liggur niður að ströndinni, ég sá nokkrar sundlaugar, tennisvelli, SPA, íþróttacenter, nuddstofu, hjúkrunarklínik, m.m. Fólk var þarna á hjólum til að komast á milli staðanna. Og svo var þarna hellingur af verslunum, veitingahúsum og börum. Skil svosum vel að fólk sé bara þarna inni, það hefur allt sem það þarf, nema auðvitað að sjá hvernig fólk í Montego Bay lifir! Þetta er alveg heimur út af fyrir sig. Þegar ég kom að hliðinu hringdi vörðurinn til að fullvissa sig um að ég ætti alvöru erindi inn á svæðið! En þetta var fínt og gaman að sjá, kannske ég fari bara í tásusnyrtingu líka áður en ég kem til Evrópu!!


Þessi litla hnáta býr hérna á móti okkur, algjört "bjútý" eins og flest af börnunum sem ég hef séð. En það er eitthvað að henni litla skinninu, hún er svona 3-4 ára, en talar ekkert, skríkir bara og brosir mikið. Göngulagið hennar er eins og að hún sé nýfarin að labba, er rosalega hjólbeinótt og dettur oft. Hún kemur stundum inn í garðinn með barnfóstrunni sinni og finnst við Sigfús voða áhugaverð! Stundum er stóri bróðir með, hann passar vel upp á litlu systur! Ég er ekki búin að ná nafninu hennar, en hún er farin að þekkja mig og kemur gjarna til mín þegar hún sér mig, og ég hef meira að segja fengið að halda á henni! Þrátt fyrir að hún sé greinilega ekki alveg heilbrigð, er hún svo óskaplega glöð og falleg, og það er augljóslega hugsað mjög vel um hana. Það eru fleiri börn hérna í húsunum í kring, en þau koma aldrei út. Einn lítill gutti er í næsta húsi, hann er ekki eins lukkulegur og þessi stúlka, hann hangir vælandi klukkutímunum saman við gluggarimlana og ég hef aldrei séð hann úti. Mundi maður ekki fara með krakkana í laugina og leika við þau þar? Þeim er auðvitað líka heitt, og svo þurfa þau að hreyfa sig. Ég sæi hann Bjarka Örn Arason í anda ef ætti að loka hann inni í íbúð allan daginn! Og reyndar hvaða barn sem er, þetta er náttúrulega ekki sniðugt. En þau eru svo hrædd um börnin sín, fékk ég að vita um daginn. Kannse þora mömmurnar ekki út með þau?

Uppgötvaði í gær að ég er búin að missa neglurnar á mér í þvílíka lengd, er orðin eins og norn til handanna! Þegar svona er komið ræð ég ekkert við þetta sjálf og ætla að prófa að fara í handsnyrtingu hérna. Veit ekkert hvort þær kunna á neglur ein og mínar, konurnar hérna sem á annað borð eru með einhverjar neglur, eru með þessar svaka gerfineglur í öllum regnbogans litum. Kannske get ég fengið eitthvað skraut á mínar!! Verður spennandi að prófa!

þriðjudagur, apríl 11, 2006



Það munaði ekki miklu að ég ættleiddi þennan í gær, hann dagaði svo að segja uppi hjá mér. Drengurinn er rafvirki, sem kom með verkstjóranum sínum kl. 9 í gærmorgun til að gera við 2 innstungur sem virkuðu ekki. Verkstjórinn þurfti að "skreppa" og ætlaði að sækja drenginn eftir ca. klukkutíma. Hann var snöggur að laga innstungurnar og settist niður til að bíða eftir meistara sínum. Það leið og beið og ekki kom verkstjórinn. Ég gaf honum að drekka, og seinna brauðsneið og meira að drekka, drengurinn beið og beið, en ekki lét meistarinn sjá sig. Þegar liðnir voru rúmir 2 tímar hringdi ég og spurði hvort hann væri nokkuð búinn að gleyma rafvirkjanum, "nei, nei, ég er á leiðinni" var svarið og drenurinn brosti bara og sagði að meistarinn væri afar mikilvægur maður sem hefði mikið að gera. Og svo sat hann og beið og hlustaði á músíkina sem hann var voða hrifinn af, sérstaklega var hann uppnuminn af Guitar Islancio, spurði mikið út í þá, hverjir þetta væri, hvenær þeir kæmu til Jamiaca og hvort hægt væri að fá CD með þeim hérna! Svo strákar í Guitar Islancio; ykkur er óhætt að koma til Jamaica, þeir fíla ykkur líka hérna! En verkstjórinn kom kl.tæplega 4 og þá var drengurinn búinn að sitja á stólnum í 5 tíma, alltaf jafnrólegur! Ótrúlegt geðslag á þessu fólki, sjáið þið ekki íslenskan eða danskan iðnaðarmann sitja svona og bíða eftir meistara sínum allan þennan tíma! Mamma mín sagði stundum ef henni fannst lítið um heimsóknir til sín; "ég hef ekki séð hvítan mann"! Mér datt hún í hug í gær þegar rafvirkinn sat í eldhúsinu, Lue andskotaðist með sópinn út um alla íbúð og Barry var að troða kítti í göt á gólfinu við verandann. Öll svona kolsvört. Þegar Sigfús kom heim var þetta ekki mikið öðruvísi, hann er orðinn svo sólbrúnn að hann er að verða eins og einn af þeim innfæddu! Svo það má segja að ég hafi ekki "séð hvítan mann" í gær!

Meiri litadýrð var þaðá himninum þegar líða fór á daginn, skýin voru svo óskaplega falleg, dönsuðu á himninum og skiptu litum við hvert augnablik sem leið. Það er sama hvað Sigfús reynir að skýra út fyrir mér stöðu tungls og sólar á þessari breiddargráðu, mér er bara ómögulegt að skilja hvernig þetta snýr hérna. Mér finnst svo skrítið hvernig tunglið snýr, og ekki varð undrun mín minni í gær þegar bæði sól og máni voru jafnhátt á lofti, að vísu annað í vestri og hitt í austri, en samt; þetta er svo mikið öðruvísi en ég er vön!Verð að gera mér ferð á Planetaríumið í Kaupmannahöfn þegar ég kem þangað til að skoða líkanið sem er þar, þá kannske næ ég að skilja hvernig þetta snýr allt saman! KNUS


mánudagur, apríl 10, 2006

Lue hringdi með miklum látum kl. 7.45 í morgun. Ég ætlaði aldrei að geta skilið hvað var í gangi, hún var með grátstafinn í kverkunum og talaði hreina jamaicönsku, sem er ekki alveg auðskilin! "Shit" husaði ég nú er eitthvað meiriháttar að, kannski er eiginmaðurinn endanlega farinn, eða þá eitthvað enn verra. Mér tókst að róa hana og fá hana til að tala ensku, og hvað haldið þið! Hún stóð fyrir utan dyrnar hjá mér, sá engan bíl og hélt að við værum farin eitthvað eða að eitthvað hefði komið fyrir okkur! Sigfús var farinn á fund á sínum bíl, og ég hafði lánað bílskrjóðinn sem ég hef til umráða. Greyið Lue, hún var algjörlega miður sín, tók ekkert eftir að það var opið út á veranda og músik með Sort Sol glumdi úr hátölurunum. Hún var lengi að ná sér eftir þetta, hún hefur ekkert voða stórt hjarta hún Lue, en það er ekki spurning að henni er umhugað um okkur.

Við Sigfús erum búin að fá fósturbarn. Það er hann Pálmi Thorarensen, þetta litla, en bráð myndarlega pálmabarn sem stendur hérna fyrir utan hjá okkur. Blöðin á Pálma eru öll að brenna vegna skorts á vökva og mikillar sólar, líka nýja blaðið sem ox fram um daginn. Þrátt fyrir veðurfréttir um rigningu í Mo-Bay, hefur ekki komið dropi úr lofti vikunum saman. Barry segir mér að hitinn í jörðinni sé orðinn svo mikill, að pálmar og annar gróður sjúgi hitann upp í gegnum ræturnar og þar sem ekkert vatn er að sjúga, þá fá blöð og greinar bara brennandi hitann upp. Það eru sjáanlegir brunablettir á Pálma litla, og þessu ætlum við Sigfús að reyna að bjarga og Pálmi litli Thorarensen er í gjörgæslu þessa dagana! Hann getur nefnilega ekki farið í laugina eins og ég til að kæla sig niður!

sunnudagur, apríl 09, 2006



Í gær fórum við í með Chris í fiskitúr á "Brjáluðu Bínu". Frændi Chris, Peter er kapteinn á bátnum og mér skilst að auk þess að fiska svona af og til, fari hann með turista í siglingu á Montego Bay. Með honum eru tveir innfæddir hásetar, sem sáu um allar veiðistangirnar sem eru festar utan á bátinn. Auk okkar Sigfúsar var sænski Peter með, og hann hafði með sér blindfullann amerískan nágranna sinn. Til að fyrirbyggja að sá fulli dytti fyrir borð, var honum komið fyrir uppi á dekki, þar sem hann var skorðaður út í horni með bjórflösku í hendi. Hann bærði lítið á sér eftir það! Peter kapteinn er ferlega fyndin typa, hann er þvottaekta jamaicabúi og talar sem slíkur, en er mjög ljós yfirlitum, hann á breska forfeður og hefur greinilega fengið öll sín litargen þaðan. Eitthvað hafa önnur gen brenglast í honum, því vaxtarlagið og hlutföllin í skrokknum eru voða skrítin. Fæturnir afar stuttir og ég hef aldrei séð svona litlar tær (og táneglur!) á fullorðnum manni. Þetta er eins og á litlu barni, mjög sérkennilegt! Eitthvað á hann líka í vandræðum með það sem hangir á milli fóta hans, því hann hélt vinstri hendinni þéttu taki á þeim stað, og sleppti aðeins takinu þegar hann var að kveikja sér í nýrri "jónu"!! Ég er nú svoddan kjáni þegar kemur að þekkingu á svona efnum, en spurði hvort þetta væri marijuana sem hann væri með. "Yah, man" svaraði kapteinninn, þetta er svo gott fyrir fiskeríið!! En annað hvort hefur hann reykt of lítið eða of mikið, allavega urðum við ekki vör! Ekki undarlegt fannst mér, það var keyrt á brjáluðu stími allan tímann, og taumurinn með þessum óhræsis önglum á, voru dregnir á eftir bátnum. Hvaða fiskur getur synt í kapp við þetta?!! Það var skrítið að sjá hvernig þeir beittu. Annar hásetinn saumaði (með nál og þræði!) heilan fisk sem líktist síld, inn í skrautlegan gerfikolkrabba og svo var þetta fest á þennan svaka öngul! En þrátt fyrir að "Kingfiskurinn" léti ekki sjá sig, var þetta hin besta ferð. Það var farið að hvessa og braut vel á bátnum, á tímabili var mikill óróleiki sem Sigfús minn fann vel fyrir! Á efra þilfarinu ar farið að draga af mönnum, en ég sat aftur á hjá berfættu hásetunum, nagaði kjúklingabita og fílaði þetta í botn!Þegar við komum í land bauð Chris okkur í afmæli dóttur sinnar, en við ákváðum bara að fara heim og slappa af. Sænski Peter og fulli ameríkaninn fóru og mér skilst að það hafi verið svaka fjör þar! Í dag tökum við rólega dag, kl. 7 í morgun var ég komin í laugina og svo ætla ég að kikka á ritgerðina sem ég er komin í gang með. Vona þið hafið líka góðan og rólegan sunnudag. KNUS


laugardagur, apríl 08, 2006


Í dag náði ég nýjum áfanga í jamaicönsku lífi mínu; ég gat rakað á mér fótleggina í fyrsta skiptið síðan ég kom!!! Ykkur finnst þetta kannske ekki í frásögu færandi, en þetta er sko merkileg frétt, það er ekki eitt einasta opið bitsár á mér núna! Eftir einn antibiotika töflukúr, heila túbu af anatibiotikakremi, auk hellings af hinum ýmsu spreyjum, kremum og ofnæmistöflum, virðist sem ég sé að vinna stríðið við moskítóflugurnar. Og hið ultimatíva vopn sjáið þið hér. Flugnanet yfir "Kingarann" okkar Sigfúsar, það var málið! Við skríðum inn í þetta hreiður okkar og vei þeirri flugu sem reynir að nálgast mig þarna inni! Þetta er eins og að vera í stanslausri tjaldútilegu, bara þægilegra undirlag! Reyndar hef ég líka fundið sprey sem ég nota óspart, það má meira að segja spreyja fötin sín með því. Ég hef í gegnum árin prófað öll antibitsprey sem á markaðium hafa verið, en þetta er það besta. Auðvitað ammerískt og heitir bara "OFF" Kem með nokkra brúsa með mér til Danmerkur, þekki nokkra sem þyrftu á svona "OFF-i" að halda!
Reyndar hef ég auk þessa lært ýmis trix til að halda frá sér flugunni;m.a. ekki vera í dökkum fötum ef fluga er nálægt (þær dragast meira að dökkum litum) og ekki hafa blóm í pottum td. á svölum eða veröndum, og alls ekki inni hjá sér, og spreyja fötin sín ef maður er úti á kvöldin.
Og svo náttúrulega að sofa undir neti! Kannske er ég líka farin að mynda eitthvað ónæmi, hver veit.
Við erum að fara út að sigla á eftir, mér skilst að það sé fiskitúr þó mér þyki fremur ólíklegt að við fiskum eitthvað! Við leggjum allavega í´ann með nesti, nýrakaða fótleggi og notaða skó,
og ætlum að hafa gaman af! Kannske get ég sett mynd af veiðinni á bloggið á morgun!
Hafið góðan dag, KNUS

föstudagur, apríl 07, 2006

Barry og Lue mættu bæði kvefuð og rauðeygð í dag, bæði sögðust hafa sofið í trekki. Líklega búa þau ekki í sérstaklega góðu húsnæði, allavega var ekkert sérlega hvasst í nótt. Það væri nú fróðlegt að sjá hvernig þau búa.Lue er búin að bjóða mér í heimsókn, kannske geri ég það við tækifæri. En Barry er farið að jafna sig eftir að Jóna fór, þegar ég skilaði kveðju til hans frá Jónu spurði hann hvort ég ætti ekki fleiri vinkonur sem ætluðu að koma í heimsókn. Jú, jú sagði ég, ég á margar vinkonur sem ætla að koma og þær eru allar svona fallegar eins og Jóna! Hann ljómaði allur og sagðist hlakka mikið til! Svo nú er bara að drífa sig stelpur, það bíður aðdáandi eftir ykkur! Ég er byrjuð á ritgerðinni, ælta að reyna að þráast við og klára þennan módúl í "projektstyring". Það er svolítið heitt að sitja við inn á kontórnum, eina herbergið í húsinu sem ekki er loftkæling eða vifta í loftinu. Get auðvitað tekið færanlegu viftuna hingað inn, en þá fúka allir pappírarnir mínir! Svo ég stend bara oft upp, fer út og vökva smá, fæ mér kaffi og set í þvottavélina sem er svakalegt fyrirbæri! Eins og aðrar "hvidvarer" hérna er hún amerísk, svaka hlussa, 75x75 cm og níðþung. Hún er svolítið eins og ameríkanarnir sjálfir; stór, einföld, hraðvirk og ekkert sérstalega falleg!
Það eru tveir takkar á henni, á öðrum getur maður valið um "small, "medium" og "large", þa. eftir magni af þvotti, og á hinum takkanum er hægt að velja um hitastig; "hot", "warm" eða "cold"!! En hún virkar vel, er svakalega fljót að þvo og gerir það bara ágætlega. Eftir að Lue tókst að skrúfa báða takkana af, ákvað ég að setja sjálf í vélina. Hún er ekki vön þvottavél frekar en örðum ramagnstækjum blessunin, en finnst rosalega gaman að setja í vél. Einu sinni var hún búin að setja eitt viskastykki í, þvo á "large" prógrammi, en þó á "hot" hitastillingu! En þurrkarann setur hún í, það er líka bara einn hnappur að velja um þar, og hann er pikkfastur!
Í kvöld fer ég út að borða með einhverjum stjörnum sem eru hérna frá Pihl í Kaupmannahöfn, það verður eflaust huggulegt. Og svo er að koma helgi, enn og aftur, tíminn flýgur á ekki minni hraða en hjá litlu fuglunum sem eru að þeytast fram hjá glugganum mínum. Farið vel með ykkur elskurnar, KNUS

fimmtudagur, apríl 06, 2006



Þetta er nú nýjasti ábúandinn á Taylor Road 1080! Ekki veit ég hvað Palla sér við þetta kríli, en allavega lætur hún sér vel líka að þessi míní-froskur ( eða á ég að kalla þetta frosk-líki?) búi hjá henni í forstofunni. Litli Mr. Frog er búinn að hanga þarna við handfangið síðustu 2 daga og það er svona rétt að hann hörfi nokkra cm. þegar ég er að opna hurðina, annars situr hann bara þarna og gónir. Þvílíkt líf! Velti fyrir mér hvort Palla færi honum matinn?

Lue var í hálfgerðri fýlu í gær. Hún mætti plástruð á 4 fingrun hægri handar, hundsbitið var rétt gróið þegar hún skar sig á gamalli niðursuðudós! Aftur datt mér í hug hvort ekkert sé rætt um stífkrampa á þessum slóðum? Hún er ekki mikið fyrir að nota hanska, eftir mikla leit fann ég hanska í small-stærð handa henni, en allt kemur fyrir ekki, hún vasast í öllu hanskalaus með öll sín sár! Hún er nú yfirleitt glöð og hress, en í gær lak af henni fýlan frá því hún kom inn úr dyrunum. Kannske er eiginmaðurinn sem enn er í Kingston, eitthvað að plága hana? Allavega hefur hann ekki komið í heimsókn til hennar vikunum saman og upp á síðkastið hefur hann ekki svarað í síma. Ekki varð hún hressari þegar ég bað hana að þvo líka út í hornin, uppgötvaði nefnilega að í öllu sóperíinu, sleppir hún hornunum! Hún sópar og sópar en fer greinilega aldrei út í horn eða undir neitt! Þetta minnir mig á par sem ég þekkti einu sinni, heima hjá þeim var allt pússað, slétt og fellt..... á yfirborðinu. En svo flaut drasl og skítur í skúffum og skápum og annarstaðar sem ekki sást svona í fljótu bragði. En þannig var reyndar lífið þeirra líka, fellt og slétt á yfirborðinu, en undir niðri leyndist svona sitt af hverju! Kannske er Lue svona líka?

Er að byrja að skipuleggja ferðir mínar á næstu vikum, þetta verður ansi tætt en ætti að nást. Er þó ekki enn búin að ákveða hvenær ég fer frá Jamaica, er að bíða eftir ákvörðum um námskeiðsdagsetningu frá einum námskeiðskaupanda á Íslandi. En það stefnir í að ég komi í tvígang til Íslands áður en ég fer aftur "heim" til Jamaica í byrjun júní. Svo er ég með námskeið í Noregi, það er ráðstefna í Finnlandi, demensdagar í Kaupmannahöfn, stúdentsafmæli hjá Sigfúsi og svo það sem ég er voða glöð yfir að geta verið með í; formleg opnun á búðinni hjá Guðbjörgu og félögum í Kaupmannahöfn! Verkstæðið (vinnustofan) hefur verið í gangi núna í nokkrar vikur og búið að framleiða nægjanlegt svo hægt sé að opna verslunina. Verður spennandi að sjá hvað hefur gerst hjá þeim! Jæja, sundlaugin er farin að draga, fer og fæ mér sundsprett áður en alvöru vinnudagurinn minn byrjar. Hafið góðan dag elskurnar!


miðvikudagur, apríl 05, 2006


Ferðin til Kingston Town var árangursrík, það vildi svo bráðskemmtilega til, að einmitt sama morguninn og ég kom til Kingston tókst að ná í rétta manninn í immigration og viðkomandi skyldi vel problematíkina með passann hennar Svövu! Heppilegt, nú þegar ég var stödd í bænum! Í gærmorgun mættum við hjá immigration og eftir að hafa fyllt út réttu pappírana, rætt við miss Thomsen og beðið þolinmóð í 2 tíma, var ég ekki aðeins komin með löglegan innkomustimpil í passann minn, ég fékk líka dvalarleyfi í Jamaica til 15. janúar 2008! Bónusinn var svo að Sigfús fékk endanlegt atvinnuleyfi, sem hann reyndar hélt að hann hefði. Það getur borgað sig að bregða sér til Kingston!

Ég var að sjá Kingston í fyrsta skiptið í björtu (myndin er tekin af svölum 16 hæðarinnar á hótelinu sem við gistum á) ég keyrði forðum bara í gegnum bæinn að nóttu til. Kingston er ólík Mo Bay, miklu stærri, miklu háværari, miklu skítugri og miklu meiri sjánleg eymd hjá fólki. Gott að ég lenti í Mo-Bay! Við gistum á ágætis hóteli og auðvitað notfærði ég mér sundlaugina þar sem er 10 sinnum stærri en okkar herna heima. Ég sat og sólaði mig eftir sundtúrinn þegar virðulegur svartur maður kom og heilsaði mér og spurði hvort ég væri kristin. Enn var það krossinn minn sem dróg að sér athyglina. Hann varð afar glaður þegar ég svaraði játandi og vildi fá að vita meira; hvaða kirkju ég tilheyrði, fer ég oft í kirkju, hvað ég héti og svo hvaðan ég væri. Þegar ég nefndi Ísland tók hann bakföll af æsingi (mátti engu muna að hann dytti í laugina!) fórnaði höndum og hrópaði: "Reykjavík for Jesus, Iceland for Jesus, Svava for Jesus, you make my day, you make my day"!!! Mér leist nú svona mátulega á lætin í manninum, en hann hélt áfram: "þessum degi gleymi ég aldrei, þann 3. apríl 2006 hitti ég Svövu frá Íslandi, mikill er máttur Jesús"!!! 'Eg hugsaði með mér að kannske væri þetta fyrirboði um hvernig mér ætti eftir að ganga með immigration daginn eftir, og sjá! Það kom líka fram!! Maðurinn róaðist og stakk sér í laugina og synti eins og hvalur fram og aftur, mest í kafi og afskaplega hægt. Til að þessi trúaði maður sæi ekki hvað ég hló mikið af þessari uppákomu varð ég að fara á barinn og fá mér rompúns!!
Í kjallara hótelsins er gallerí sem selur mikið að Jamaicanskri list. Þegar ég fór að tala við galleríeigandann, kom í ljós að hún þekkti íslenska konu sem býr í Kingston. Við vorum reyndar búin að frétta af henni, hún er frænka vinar Sigfúsar og er búin að búa hér lengi, var gift Jamaicönskum lögfræðingi sem nú er dáinn. En hugsið ykkur tilviljunina, eini hérbúandi Íslendingurinn og þessi kona þekkti hana! Við vorum varla komin upp á herbergið þegar Rósa hringdi, galleríkonan hafði látið hana vita af okkur. Því miður náðum við ekki að hitta hana núna, en það gerum við næst þegar við komum til Kingston.

Búið var að ákveða að við ferjuðum bíl sem Pihl hafði keypt fyrir starfsmann hérna, heim til Montego Bay. Þetta var pickup bíll, óttalegur trukkur og ég þakka mínum sæla fyrir að halda nýrunum á sínum stað eftir ferðalagið! Þrátt fyrir að það séu aðeins rúmir 180 km. á milli staðanna, tekur allavega 4 tíma að keyra, vegirnir eru svo svakalegir. þegar við vorum að leggja af stað frá Kingston fór að rigna og það var sko ekkert smáræði. Fyrst kom einn dropi, svo kom annar miklu stærri, og svo opnuðust gáttir himinsins og á augabraði breyttust götur bæjarins í ólgandi stórfljót! Ég var að upplifa mína fyrstu trobísku rigningu og ég lofa ykkur að það er rigning sem segir eitthvað!!

Krakkarnir voru að koma heim úr skólanum og það er sko ekki verið að sækja þau á bíl þott rigni!! Ég smellti þessri mynd af hóp af krökkum sem höfðu leytað skjóls fyrir rigningunni, og það var sko ekki fýlan í þeim! Því miður er myndin ekki nógu skýr, ég var að keyra fram hjá þeim og ekki séns að stoppa. Allir eru í skólauniformi, strákarnir flestir í þessum ljósbrúnu fötum, en stelpurnar í mismunandi litum kjólum, eða blússum og pilsum, þá eftir hvaða skóla þau eru í.

Það dróg úr rigningunni því norðar sem við komum og þegar við vorum komin yfir fjöllin og sáum norður og vesturströndina var heiður himin og sól. Líklega rignir meira á suðurströndinni, alveg eins og á Íslandi! Náttúrufeguð er mikil á Jamaica og gaman að keyra um landið.
Hlakka til að sjá meira af landinu, við ætlum að keyra á austurströndina um páskana, það ku vera mjög fallegt þar. Hérna er smásýnishorn frá einum af dölunum sem maður keyrir í gegnum á leiðinni frá Kingston. Bara svo þið sjáið hvað er grænt og gróðursælt hérna. En það er voða erfitt að keyra á vegunum hérna ef maður þekkir ekki veginn og aksturslagið á þeim innfæddu. Ég mundi ekki mæla með að ferðamenn sem eru vanir að keyra á evrópskum þjóðvegum fari að spreyta sig á því, allavega ekki svona fyrstu dagana!
Eitt af því sem ég gerði í Kingston var að hitta bílasala sem kennske er með bíl sem hentar mér í innanbæjarkeyslu í Montego Bay. Ég skoðaði lítinn "konubíl" Nissan-eitthvað, voða þægilegur virðist vera. Líklega skelli ég mér á hann!
Ekki meira í bili, KNUS til ykkar allra.



















This page is powered by Blogger. Isn't yours?