.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

þriðjudagur, mars 06, 2007


Það er að falla ró yfir Kaupmannahöfn, borgin er farin að líkjast sjálfri sér. Ég fór í hjólatúr í dag og mér til mikillar ánægju virtist allt og allir vera eins og það á að vera, meira að segja var pínu vor í loft - þe. áður en fór að rigna! Á miðju Kóngsins Nýjatorgi skautaði þessi eldri herra hring eftir hring, örlítið óstöðugur á fótunum, en hafði greinilega engu að síður gaman af. Utan við gluggana á Kæjanum sungu fuglar og eitt og eitt blóm er farið að singa upp kollinum.
Sumsé; allt eins og það "á að vera" - allavega á yfirborðinu. En undir niðri kraumar eitthvað sem ekki er eins "idylliskt" og sú mynd sem maður að öllu jöfnu hefur af Kaupmannahöfn og dönsku mentaliteti. Í fréttum kemur fram önnur mynd, mynd sem segir sögur af reiðum og hatursfullum ungum manneskjum sem virðast ekki hafa annað þarfara að gera en að upphugsa nýjar leiðir til að eyðileggja umhverfi sitt og hafa í hótunum við fólk. Þau leita uppi iðnaðarfyrirtæki sem unnu við að rífa húsið á Jagtvej 69 og kveikja í bílunum þeirra og hóta þeim öllu illu. Hvað er í gangi? Og svo eru krakkar út um allan heim að andskotast um heima hjá sér, allt í nafni stuðnings við danska óþekktarorma! Það er eitthvað sem heldur betur hefur klikkað! Hver gleymdi að kenna þessum ungmennum almennar umgengnisvenjur? Svoleiðis nokkuð er nefnilega ekki meðfætt! Mér finnst vanta þennan vinkil í umræðuna. Hver tók á sínum tíma að sér að "leggja upplýsingar inn" á framheila þessarra krakka? Spyr sá sem ekki veit!!
Nýjustu fréttir af íslenskum Kitwood eru þær að bókin fer í umbrot í næstu viku svo alltaf nálgast útgáfudagurinn! Spennandi, ekki satt?!!

föstudagur, mars 02, 2007

Bara rétt að láta heyra frá mér - sit á Kæjanum á Christianshavn og velti fyrir mér hvort vogandi sé að hætta sér út úr húsi. Maður getur átt von á að fá gusu af táragasi í andlitið eða stein í hausinn! Brjálæðið í borginni hefur verið algjört síðasta sólarhringinn, Á Christianshavn sem -að öllu jöfnu er hinn friðsælasti staður - var allt vitlaust í gærkvöldi.

Þessa mynd fékk ég "lánaða" af heimasíðu TV2, þarna liggja brennandi bílar á götu hérna rétt hjá mér. Ástandið í Kaupmannahöfn líktist helst því sem maður hingað til þekkir aðeins úr fréttum frá stríðshrjáðum löndum, götumyndum frá Írak eða Beirut. Og þetta er hérna í Kaupmannahöfn, hérna í Danmörku þar sem við búum í svokölluðu siðmenntuðu þjóðfélagi. Yfir 1000 ungmenni (eða hvað? Einn sá fyrsti sem var handtekinn í gær var 38 ára!) gengu berserksgang, köstuðu steinum og bensínsprengjum, veltu og kveiktu í bílum, söfnuðu drasli og kveiktu bál á götunum, eyðilögðu eignir annarra og reyndu að slasa aðrar manneskjur. Og allt vegna þess að þau voru svo "frustreruð" yfir því að borgaryfirvöld vilja ekki gefa þeim hús til safnast saman í. Er þetta ekki með ólíkindum? Það vantaði ekkert upp á orku og dugnað þessarra krakka þegar þau voru að draga húsgögn, gáma og annað til að henda á bálið, ýta bílum og velta þeim á miðri götunni og bera að níðþunga kassa með steinum fram og aftur. Þessi orka ætti að geta nýst í eitthvað uppbyggilegra. Og svo er verið að tala um að það sé hættulegt að vera á Jamaica!!
Nú virðist vera ró yfir, krakkarnir eru sjálfsagt að sofa úr sér baráttu"rúsið" frá í gær og safna orku fyrir næstu atrennu. En eflaust heldur þetta áfram, þau hafa ekkert annað að gera og eru sjálfsagt ennþá voða "frustreruð" yfir að enginn vill gefa þeim hús.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?