.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

þriðjudagur, júlí 31, 2007

Bjarki Örn Arason varð 5 ára á dögunum. Meðal þess sem hann fékk í afmælisgjöf var golfsett. Pabbi hans fer gjarna og spilar golf og nú er Brynjar stóribróðir farinn að fara með á völlinn. Að sjálfsögðu verður Bjarki að vera með og ef að líkum lætur verður hann ekki lengi að ná réttu sveiflunni, allavega er hver einasti vöðvi í hans litla kroppi í super þjálfun! Til að verða viðræðuhæf þegar sonarsynir mínir fra að segja hetjusögur af golfvellinum ákvað ég að ég yrði að kynna mér þetta spil sem hingað til hefur ekki verið ofarlega á lista mínum yfir skemmtiefni.
Svo að ég pantaði mér tíma hjá golfkennara á Half Moon golfvellinum og mætti þar galvösk snemma í morgun.
Og ég verð að segja að ég varð hissa á ýmsu. Fyrir það fyrsta var þetta alls ekki leiðinlegt. (Hafði aldrei skilið hvað fólk sá við þetta!) Í öðru lagi þá var þetta heilmikið puð. (Og ég sem hélt að þetta væri svona einskonar "gerviþjálfun"!) Í þriðja lagi þá er þetta flóknara en ég átti von á. (Þetta lítur út fyrir að vera svo einfalt og auðvelt - bara að lemja kúluna út í loftið og rölta svo á eftir henni)
Kennarinn minn hann mister Baron sýndi mér mikla þolinmæði og endurtók í sífellu sömu hlutina; rétta gripið, réttu sveifluna, réttu fótsporin, réttu hnéstellinguna, rétta augnamiðið, réttu handarstellinguna. Eftir klukkutíma var ég að niðurlotum komin, svitinn lak niður í augu og sem betur fer sá ég ekki hvað ég var rauð í andlitinu fyrr en ég kom heim! Mr. Baron blés náttúrulega ekki úr nös frekar en "alvöru" golfspilarnir sem voru að æfa sveiflur þarna við hliðina á mér.


Ég ætlaði nú að setja inn mynd af baróninum en það gengur bara ekki að setja inn myndir á bloggið þessa kviðuna. Fer ekki lítið í taugarnar á mér!!

En baróninn var voða "pedagógískur" og hrósaði mér í hástert þá sjaldan sem ég gerði eitthvað rétt! En ég verð að segja að þetta vakti forvitni mína og ég ætla að fara og hitta baróninn aftur á fimmtudaginn og vita hvort ég hitti kúluna!

mánudagur, júlí 30, 2007

Nýi vegurinn liggur að hluta til á öðrum stað en sá gamli. Þetta þýðir að maður sér aðra hluti núna, sumstaðar kemur í ljós umhverfi og náttúra sem er afar fallegt að horfa á, en annar staðar sér maður allt í einu þætti úr lífi fólksins hérna sem ekki vekur sömu góðu tilfinninguna. Eins og td. húsin í Flankers sem núna blasa við þegar keyrt verður eftir fínu hraðbrautinni þegar hún verður tilbúin. Flankers er bæjarhluti í Montego Bay, næsta hverfi við Ironshore þar sem við búum. Þetta er hverfi sem maður fer nú ekki inn í einn á ferð, og alls ekki þegar farið er að dimma. Að hluta til er þetta verkamannahverfi, en líka fátækrarhverfi og mér er sagt að þarna búi fólk sem maður myndi ekki bjóða heim í kaffi. Ég eit það svosum ekki, ég þekki engan frá Flankers.


En húsakosturinn er ekki merkilegur, mestmegnis eru þetta bárujárnsskúrar og einhverjar spýtur sem barðar hafa verið saman í veggi og þakómynd. Svakalegt að hugsa sér hvernig margir hafa það hérna, lífið er ekki bara sól og sunnanvindur fyrir það fólk sem býr í Flankers.

Svo er maður að óskapast yfir ýmsum smámunum eins og bilaðri loftkælingu og tauþurrkara sem ekki virkar nema annað slagið.

En það verður nú samt að viðurkennast að það verður ansi heitt hérna inni þegar kælingin virkar ekki! En André vatns-gas- og airconmeistari lofar að búið verði að gera við mótorinn á morgun. Ég tek það nú ekki alveg sem heilagan sannleika þegar innfæddir eru að slá um sig með tímasetningum, tímaskyn er fyrir þeim "bær í Rússlandi" eins og maður segir! En hvað er ég að kvarta? Það er aircon í góðu lagi í svefnherberginu okkar og ekki hafa þau í Flankers mikið til að slá á þann brennandi hita sem hlýtur að vera inn í bárujárninu þegar sólin hefur skinið á það allan daginn.
Svo að ég segi bara eins og hún amma mín sagði þegar henni fannst nóg um bullið í mér: "þegiðu munnur á henni Svövu"!

sunnudagur, júlí 29, 2007

Nú smullu allt í einu inn myndir;

Hún er nú voða sæt hún Crissy!














Og miklu betra að skríða þegar hún er komin í buxurnar sem ég keypti handa henni í Köben. Það er svo kalt að skríða á berum hnjám á flísunum!

Mér finnst svolítið fyndið að sjá að Crissy skríður alveg eins og íslensk börn! Greinilega eitthvað eðlislægt og sama hvar maður er fæddur og hvernig maður er á litinn!

Ég verð að viðurkenna að ég tek svolítið mark á stjörnuspám, oftar en ekki passar þetta ótrúlega vel! Í dag las ég: "Þú ert þreytt á sál og líkama og átt skilið góða hvíld. Í dag skaltu bara gera það sem þig langar til að gera"! Ég ákvað að taka þetta bókstaflega og gera þessi orð að boðskap dagsins. Þrátt fyrir 10 tíma svefn vaknaði ég hálftussuleg (ekki lygi þetta með þreytuna!) en dreif mig samt af stað í fittnescentrið í Half Moon. Þar hitti ég fyrir hana Sibyl, jamaikanskt "beuty" sem ég er orðin málkunnug. Ég hef stundum laumast til að horfa á hana þegar hún er að æfa, hún er svo rosalega flott og á meðan ég rembist eldrauð og sveitt í tækjunum virðist þetta ekki vera nokkurt mál fyrir hana. Þarna lyftir hún fleiri tugum kílóa og gerir ótaljandi rassaæfingar án þess að blása úr nös og sviti er fyrir hana "bær í Rússlandi" - hún bara brosir og syngur! Reyndar er hún 25 árum yngri en ég - en mér er sama! En Sibyl er hin viðkunnanlegasta manneskja og voða gaman að spjalla við hana. Hún er tónlistarkennari, einstæð tveggja barna móðir og æfir a.m.k. tvo klukkutíma hvern einasta dag. Í morgun þegar við hittumst var hún að koma úr fjallgöngu og þegar ég skjögraði út úr centrinu eftir 1,5 klukkutíma var hún enn að og enn syngjandi! Ótrúlegt alveg. En Sibyl gerir mann glaðan og það er svo gott að vera með glöðu fólki.
Rétt fyrir hádegið kom svo Crissy litla í heimsókn. Það er langt síðan ég hef séð hana þessa elsku svo að það var nú gaman. Hún hefur stækkað mikið og farið mikið fram á allan hátt. Er farin að skríða um allt og standa hjálparlaust upp. Það verður ekki langt þangað til hún fer að labba. En það eru ennþá engar tennur komnar upp (eða niður!) en það er mikið slefað og nagað! Hún er ennþá svona róleg og kelin, algjör rúsína!

Því miður tekst ekki að setja inn myndir núna - þetta er svona stundum. Reyni seinna því þið verðið bara að fá að sjá brosið hennar Crissy!

En ég ætla að halda áfram að gera bara það sem mig langar til, mig langar ekkert til að elda mat í dag, við Sigfús ætlum að skreppa í kúbbinn, horfa á fólk og báta og snarla eitthvað gott.

En á morgun kveður við annað hljóð, sumarfríi direktörs Nordic Lights er lokið og við tekur vinna, vinna, vinna! Heyrumst seinna, KNUS

fimmtudagur, júlí 26, 2007




Easy going Rastaman á ströndinni í Negril. Hann býr upp í fjöllunum ofan við bæinn, tekur lífinu með ró, fær sér göngutúr á ströndinni annað slagið og hefur ekki klippt sig í 22 ár. Ekki mikill klipparakostnaður þar!


Ég fór í tveggja daga ferð til Negril með gestina sem eru hjá okkur núna; Palli frændi minn og fjölskylda frá Roskilde.





Við Silja drifum okkur á fætur fyrir allar aldir til að geta upplifað sólarupprásina. Og ekki frekar en fyrri daginn var maður svikin af því. Það er bara svo ótrúlega fallegt þarna, sérstaklega þegar sólin er að koma upp og setjast. Það er svo stórkostlegt að fylgjast með litabreytingunum á sjónum; fyrst er hann dökkur og dimmur, síðan verður hann ljósrauður smástund áður en þessi þessi magnaði fjólublái litur nær yfirhöndinni. Þetta gerist allt á ca. 10 mínútum og svo er sólin komin upp og hafið fær sína alþekktu bláu og grænu áferð. Mér finnst alltaf þegar ég fylgist með þessu að hafið sé að vakna, nudda stírurnar og teygja sig áður en traffíkin ofan í því byrjar! Og að vera fyrsta manneskjan útí - það er engu líkt!



Það er búið að vera stíft prógram þessa rúmu viku síðan þau komu, auðvitað búið að fara í Dunns River Falls, klifra og leika sér þar við mikla ánægju Viktors sem sagði að þetta væri það skemmtilegasta sem hann hefði gert "á ævinni"!!



Það er búið að skoða Great House og mata fuglana upp í fjöllunum, fara í Columbus garðinn (því miður var Donald ekki viðlátinn!), smakka mat á lokalstað, fara í klúbbinn og á lokalkrá, heilsa upp á Angelique keramíkkonu, fara með mér í fitnesscentrið og þar á eftir á beutysalong og fá lagaðar neglur (það voru þó bara stelpurnar sem gerðu það!), fara á markað og auðvitað á ströndina þar sem litríku fiskarnir voru skoðaðir í krók og kring í gegnum snorkel-grímurnar.

Í dag fékk ég svo Richard til að keyra með þau í pílagrímsferð til Nine Mile sem er fæðingar- og greftrunarstaður Bob Marley. Silja er mikill aðdáandi hans.






Nýji blendarinn er búinn að vera í stanslausri notkun og eftir því sem Silja og Viktor segja, fer mér stöðugt fram í punch gerðinni!


Þarna er Silja í rétta "átfittinu" fyrir frugtpunch og karabísku veðráttuna, glöð og indæl eins og hún nú er.




Æi, mig fer nú bara að langa í punch þegar ég skrifa þetta og þá á ég ekki við frugtpunch!!






Hafið góðan dag elskurnar, KNUS í öll hús.

mánudagur, júlí 16, 2007

Við lentum í Montego Bay í gærkvöldi kl. 23.30 að staðartíma eftir rúmlega sólarhrings ferðalag. Það var eins og að ganga inn í bakaraofn þegar við komum út, 29 stiga hiti og logn! Ferðinni seinkaði um fleiri tíma vegna bilunar í einhverri flugtölvu í New York, frekar ömurlegt að hanga á vellinum þar eftir langa flugferð frá Köben. Það tók nú tímann sinn að tékka inn á Kastrup, þvílíka kontrollið þegar maður er að fara til Bandaríkjanna. Sléttir og stroknir ungir Ameríkanar stóðu við inntékkunina, grandskoðuðu passana okkar og spurðu okkur í þaula um allt og ekkert. Hvað við værum að gera, hvað við hefðum verið að gera og hvað við hefðum hugsað okkur að gera. Hvar við hefðum búið á Íslandi og í Danmörku og hvar við ætluðum að búa á Jamaica. Þegar við svöruðum alltaf "í okkar eigin íbúð" horfðu þeir rannsakandi á okkur, þetta fannst þeim sko skrítið! Svo þarf maður tvisvar að fara í gegnum öryggishlið og skönnun af handfarangri áður en komið er út að sjálfu hliðinu. Passinn skoðaður aftur og aftur og alltaf verið að spyrja mann. Það á sko ekki að taka neina sjensa! Þeir voru ögn afslappaðri í Newark, en samt mikið kontrol.

Það munað svo hársbreidd að við misstum af vélinni til MoBayþegar hún svo loksins fór af stað! Við vorum komin út í vél (eftir heilmikla seinkun) en vorum rekin inn aftur og sagt að það tæki allavega tvo tíma að laga þetta og að við þyrftum að skipta um hlið þegar þar að kæmi. Jafnvel var ekkert víst að við kæmumst áfram fyrr en daginn etir. Fengum matarmiða og hvað eina svo við fórum framfyrir til að fá okkur eitthvað að borða )og reykja!)







En maður missti nú matarlystina þegar samlokan kom, ég er viss um að það var hálft kíló af skinku milli sneiðanna. Bara hálfógeðslegt! Það er svo mikill óhemjugangurinn í þeim þarna í henni Ameríku.



Eftir tæpan klukkutíma fórum við svo aftur inn og ætluðum að reyna að fá einhverjar fréttir og hvað sjáum við þá! Búið að loka vélinn (sem enn stóða við sama hliðið!) og draga inn landgönguranann! Þeir ætluðu "fan mig" að fara af stað án okkar! Þá hafði tölvubilunin ekki verið svo alvarleg og þeir bara drifu sig af stað! Og við sátum á barnum rétt framan við hliðið og töskurnar okkar auðvitað í vélinni. Eins og allir ferðalangar vita má ekki fara af stað með farangur fólks sem ekki mætir í flugið, þetta er víst ein af grundvallar öryggisreglunum og eftir allt tékkið sem við vorum búin að fara í gegnum var þetta það síðasta sem við áttum von á. Það var uppi fótur og fit, vélin stoppuð og okkur "siglt" með rananum út að vélinni sem var opnuð aftur og við gengum inn eins og einhverjar VIP persónur! Það voru smá augnagotur frá meðfarþegum okkar en starfsfólkið var voða fegið að sjá okkur. Þau hefðu eflaust fengið bágt fyrir ef við hefðum orðið eftir en farangurinn okkar með!







En ég náði allavega að fara tvisvar út og get því sagt að ég hafi komið til New York! það var flott að fljúga yfir, sjá skýjakljúfana á Manhattan og frelsisstyttuna sem eins og Hafmeyjan í Kaupmannahöf er miklu minni en maður hafði ímyndað sér. verð að fara einhverntímann almennilega til New York og skoða borgina.

En sumsé; allt gekk vel á endanum og það var gott að koma "heim" á Taylor Road. Allt var í fínu lagi og bara örfáir maurar höfðu gert sig heimakomna. Engir kakkalakkar sjánlegir! Varla hægt að komast inn í andyrið fyrir blómunum sem hafa vaxið "helt vildt" og allar kryddjurtirnar steindauðar. Er hætt að reyna þetta! Barry voða glaður að sjá mig og Vivet er mætt með sópinn!
Á morgun koma svo Palli, Signe, Silja og Viktor Svavar og verða hjá okkur í 10 daga. það verður gaman. Hafið það gott elskurnar, KNUS í öll hús og takk fyrir samveruna að þessu sinni.

laugardagur, júlí 14, 2007

Það er ósköp grátt og þungt yfir síðasta daginn okkar á Kajanum að þessu sinni. En alltaf er nú samt fallegt að horfa út um gluggann!


Við leggjum af stað til MoBay snemma í fyrramálið, verðum komin "heim" upp úr hádegi að jamaikönskum tíma.
Þessar 5 vikur hafa verið fljótar að líða, enda verið "drøn på" allan tímann. En við erum búin að ná rosalega miklu, eins og fyrri daginn!


Við fórum og heimsóttum vini okkar í Svíþjóð..




fórum í grill til Jónu...
(í verstu regnskúrunum var Jóna komin með grillið hálfa leið inn í stofu!!)

og svo var það náttúrulega Jazzfestivalen. Það er orðið langt síðan ég var í Kaupmannahöfn á jazzfestivaltíma. Við Silja frænka mín sigldum um kanala Kaupmannahafnar undir dynjandi jassmúsík. Og aldrei þessu vant var sól! Eins og sést á myndunum hefur verið ansi djúpt á sumri og sól í Danmörku og Svíþjóð, reyndar fengum við besta sumarveðrið á Íslandi! En við erum svosum ekki að kvarta, fáum nóg af sól þegar við komum til Jamaica.
Palli frændi minn og fjölskylda koma svo í heimsókn til okkar til Montego Bay eftir nokkra daga, það verður gaman að fá að vera með þeim og tilhlökkunin er mikil hjá okkur öllum. Sérstaklega hlakkar hann nafni minn til að fá að klifra í fossunum! Þið fáið að heyra meira fráþví seinna.
En þangað til; hafið það gott og passið vel upp á hvert annað. KNUS í öll hús.

sunnudagur, júlí 08, 2007

Halló elskurnar mínar allar!
Það er sko orðið langt síðan síðast; tíminn hefur liðið hratt og allt í einu eru bara nokkrir dagar þangað til ég verð aftur komin til Mobay. En það er líka mikið búið að gerast, þegar bókin var komin vel og lukkulega á markaðinn var hægt að fara að snúa sér að næsta stórviðburði sem var afmælið hans Sigfúsar.



Hann varð nefnilega 70 ára þessi elska þann 25. júní sl.

Og slíkum tímamótum á að sjálfsögðu að fagna og halda vel upp á. Það gerðum við fyrst með því að hafa "kom sammen" á Frakkastígnum þar sem fólk droppaði við í grill og rauðvín.











Nonni mágur snaraði sér í gervi franska kokksins og vék ekki frá grillinu allan daginn, honum munaði ekkert um að grilla handa 50 manns og redda í leiðinni ýmsum málum gegnum símann! Það er sko ekki ónýtt að eiga svona mág!












Veðrið lék við okkur og það var mikið gaman. Þeim leiddist nú ekki frændunum þeim Ella og Ara; það voru sko sagðar margar sögurnar á svölunum þarna um kvöldið!


Litli borðhitarinn sem við Sigfús vorum nýbúin að kaupa kom að góðum notum, við sátum þarna í andlegum og líkamlegum yl, langt fram á nótt.






Gamlir vinir og vinnufélagar komu, fjölskylda og vinir, Ari, Katherine, Brynjar og Bjarki komu frá Lofoten og Guðbjörg og Katja frá Kaupmannahöfn. Mikið var spjallað og mikið hlegið! Þakka ykkur öllum fyrir komuna og fyrir að gera daginn svona skemmtilegan.











Bjarki er svo óskaplega hrifinn af Kötju og var alltaf einhversstaðar í námunda við hana. Bjarmi var þarna með allar stelpurnar sínar sem eru hver annarri indælli.




Á sjálfan afmælisdaginn fórum við svo í ferðalag. Við Sigfús vorum búin að bjóða börnunum okkar og fjölskyldum þeirra í óvissuferð, þau vissu auðvitað ekkert hvert ferðinni var heitið; annars hefði það ekki verið óvissuferðVið lögðum af stað snemma morguns og keyrðum í rútu austur fyrir fjall. Sigfús er svo svakalega fróður um land og sögu og sagði okkur sögur af öllu sem fyrir augu bar. Þarna erum við upp á Hellisheiði þar sem bæði var skoðaður vegurinn sem Sigfús byggði og gamli troðningurinn sem fætur hesta og kinda hefur markað í hraunið.




Eftir morgunmat "ud i det grønne" við Hveragerði var farið í fótbolta;




við skoðuðum Búrfellsvirkjun og þar voru flugurnar alveg að gera út af við okkur! Brugðið var á ýmis ráð til að verja sig!






Við Hjálparfoss var farið í göngutúr og fótabað, og þrátt fyrir mikið flugnager tókst að ná hópnum saman til myndatöku.


Eftir ekta danskan frokost var farið í sund með allan hópinn í Árnesi og sumir hefðu gjarna viljað vera þar það sem eftir var dagsins!



















Krökkunum fannst ótrúlegt að heyra að fólk hefði búið í hellunum við Laugarvatnsvöllum, enda er það meðólíkindum að þarna hafi fólk búið langt fram á tuttugustu öldina.
Bjarki fannst ekki leiðinlegt að príla þarna í kring!



Þingvellir heilsuðu okkur með slíkri blíðunni, þvílíkt sem það er fallegt þarna.
Við tékkuðum okkur inn á hótelið og fólk fékk smátíma til að slappa af og græja sig áður en boðið var til afmælismiddags sem að sjálfsögðu samanstóða af óvissumatseðli kokksins! Við vorum ekki svikin af honum skal ég segja ykkur, þessi líka indælis maturinn!




Skálað fyrir afmælisbarninu!












Systa með tvíburana sína þau Friðnýju og Ísólf










Katherine í kjólnum sem Guðbjörg hannaði - og saumaði.




















Friðnýju fannst gott að kúrra milli Ara og Rúnars stóra bróðurs












Ég voða ánægð með tengdadæturnar mínar!
















Morgunin eftir fór Sigfús með hluta hópsins að veiða í Þingvallavatni, því miður urðu þau ekki vör, krökkunum til sárra vonbrigða.




Ég fór á meðan með Ara og Katherine í göngu um Almannagjá og nágrenni.



Við hefðum getað hugsað okkur að stoppa lengur á Þingvöllum, en nú var farið að líða að lokum ferðarinnar. Rútan okkar var komin og þegar búið var að kasta smápeningum í Peningagjána var haldið af stað áleiðis til Reykjavíkur. Síðasta stoppið var í nýju sundlauginni í Mosfellsbæ þar sem allir fengu eitthvað við sitt hæfi; afslöppun í misheitum pottum, salíbunu í rennibrautum eða góðan sundsprett. Allir voru sammála um að ferðin hefði heppnast afskaplega vel, það var gaman og fróðlegt, en líka var svo skemmtilegt að vera saman. Alveg gæti ég hugsað mér að fara aftur í svona óvissuferð!
Og nú er ég í Kaupmannahöfn, við förum áfram til Mobay á sunnudaginn kemur og allir hinir komnir til síns heima. KNUS í öll hús

This page is powered by Blogger. Isn't yours?