.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

mánudagur, febrúar 26, 2007


Ég er að leggja ´ann eftir nokkra klukkurtíma, flyg frá Mobay áleiðis til London seinnipartinn í dag. Kem til Íslands 8. mars. Það er víst mikill vetur í Danmörku, er farin að undirbúa mig andlega fyrir þetta...





og þetta!




Það verður ekki mikið svona á næstu vikum!














Eða svona!





En þá er bara að kveikja á innri sólinni, klæða sig vel, brosa og trúa á þessa speki sem norðurhjarabúar segja svo gjarna: "Það er ekki til vont veður, bara vitlaus klæðnaður"!! Óttalegt rugl, en ágætt að hafa í huga.
Megi innri sólin ykkar skýna skært, hlakka til að sjá ykkur öll, KNUS í öll hús.

sunnudagur, febrúar 25, 2007

Það er búið að skíra hana Crissy litlu, hún heitir Laguanna Renae Mitchell. Renae er fornafn pabba hennar, hans Chris (!) og Mitchell er eftirnafn hans. Hér virðist fólk vera skírt einu nafni en kallað einhverju öðru. Allavega er hún guðdóttir mín kölluð Crissy. Er hún ekki sæt!

Þetta var maraþon athöfn, í þrjá klukkutíma var allt á fullu í kirkjunni, sungið, dansað, hallelljúað, hlegið og grátið. Presturinn (hvítur kvennprestur) hélt þrumuræðu með miklum tilfæringum og fólk sýndi velþóknun sína á ræðunni með klappi, hrópum og köllum.

Auk Crissyar var ca. 6 ára strákur skírður og við Crissy fylgdumst forviða með aðförum prestsins. Það voru svo svakalega læti í henni og þvílíkt sem lún las yfir strákgreyinu.


Okkur var þarna öllum stillt upp framan við söfnuðinn sem klappaði og stappaði á meðans presturinn bað fyrir börnunum og dreypti olíu á enni þeirra.
Ég stend þarna á milli foreldranna; Marciu og Chris.




Atgangurinn og krafturinn í prestinum var slíkur, að fólk hnég niður í stórun stíl, lá bara allt í einu marflatt á gólfinu. Það var greinilega búist við þessu, því tveir menn gengu um og breiddu teppi yfir þá "föllnu". Seinna stóðu nú samt allir upp og gengu til sæta sinna, en þá gjarna útgrátnir. Já, það er sko kraftur í heilaga andanum í þessari kirkju!
En mikið svakalega er undarlegt að fylgjast með svona nokkru!






Crissy tók þessu öllu með mikilli ró, fékk sér bara blund smástund. Það heyrðist ekki í henni allan þennan tíma. Hún er rosalega róleg og undi sér vel hjá mér.












Við vorum nú ekki alltaf að hlusta á það sem presturinn sagði, þurftum líka að leika okkur smá!












Hún var svo fín! Í fyrsta galakjólnum sínum og með spennur
og bönd í hárinu. Og auðvitað með lokka í eyrunum!










Sólin var ansi sterk fyrir augun hennar Crissyar, hún gat ekki litið upp þessi elska þegar við komum út.

Foreldrarnir að vonum stoltir og ánægðir.

Ein vinkona Marciu kom í kirkjuna, en engin úr fjölskyldum þeirra. Ég veit að Chris á ekki marga að, en á eftir að finna út úr hvort það sama gildir um Marciu.




Það var ekki nóg með að ég yrði guðmóðir þeirrar stuttu, Sigfús var guðfaðir!
Svo nú eigum við Sigfús litla guðdóttur saman hérna í Montego Bay!

Hvernig bara þykir ykkur!






laugardagur, febrúar 24, 2007






Við vorum í afmæli í gærkvöldi, Peter samstarfsmaður Sigfúsar varð "21. árs" (x2!) og bauð til veislu heima hjá sér, en hann býr við smábátahöfnina. (Rétt hjá siglingaklúbbnum)






Peter býr með jamaicanskri konu, henni Söru sem er ljósmyndari. "var ég með opin augu" spurði hún um leið og ég smellti af! Aldrei dettur mér í hug að spyrja svona, enda oft með lokuð augu á myndum!


Sara hafði undirbúið afmælið og allt var samkvæmt jamaicönskum venjum. Mikið skreytt með blómum og blöðrum og maturinn auðvitað jamaicanskur. Ég ákvað að láta nú verða af því að snakka geit í karrý, sem er einn helsti þjóðarrétturinn. Hef alltaf haft hálfgerðan ímugust á þessum rétti, sé alltaf fyrir mér hana Heiðu sem bjó hjá afa sínum og hjálpaði Pétri vini sínum að passa geiturnar upp í fjöllunum. (Var þetta ekki einhverstaðar í Austurríki?) Þar voru geiturnar vinir fólksins, bara mjólkaðar einstaka sinnum en alls ekki étnar. Í mínum huga eru geitur því meira eins og gæludýr, ekki étum við hunda eða ketti í okkar hluta heimsins, eða hvað? En hér eru þær étnar og alltaf í karrysósu. það er skemmst frá því að segja að ég smakkaði - og þá er ég búin að því. Þetta fannst mér (eins og mig svosum grunaði) ekki góður matur!


Einn af gestunum var sonur vinafólks Peters, hann varð alveg gáttaður þegar ég sagðist vita hvað hann væri gamall. "Þú ert sex ára" sagði ég. "Hvernig veitu það, ég varð sex ára á sunnudaginn" svaraði sá stutti og fannst ég voða klár.

Þið megið geta afhverju ég sá það! Ein tönn farin!


fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Ég fór í dag og sótti ökuskýrteinið mitt - vissi sem var að það tæki tímann sinn og útbjó mig því með nesti og góða bók. Í tvo klukkutíma og 20 mínútur gekk ég á milli skrifborða, fékk ósköpin öll af stimplum hjá þeim 8 starfsmanneskjum sem ég þurfti að tala við áður en jamaicanskt ökuskýrteini var í höfn. En þetta var ekkert leiðinlegt, margir voru þarna í sömu erindagjörðum og ég og á sama róli milli skrifborða og púlta og við vorum orðin vel kunnug! M.a. voru þarna tveir Kúbanir sem búa hér og voru að taka bílpróf. Ég fékk fullt af upplýsingum um Kúbu sem
munu nýtast okkur Sigfúsi vel þegar við förum þangað í páskafrí. Svo er bara svo áhugavert að fylgjast með þessu þunga jamaicanska skrifstofubákni! Svakalega sem þeir eiga margt ólært.

Þegar ég kom út glumdi lúðrasveitarmúsík frá markaðinum hinu megin við götuna - ég varð bara að sjá hvað var að gerast!

Þarna var á ferðinni ein af mörgum lúðra og trommusveitum bæjarins, börn og fullorðnir blésu, börðu og dönsuðu af miklum dugnaði. Hávaðinn var mikill og úr andlitunum skein alvarleg einbeiting. Augljóst var að sveitin hafði tvo þjálfara, sem jafn augsljóslega unnu ekki saman; þe. músíkþjálfara sem hefur sínar prívat skoðanir á tónum og takti og svo dansþjálfara sem hlýtur að hafa mottóið; "back to the past" því dansinn var undarlegt sambland af regndansi sem maður hefur séð töframenn dansa í bíómyndum og hoppi chimpanse-apa eins og maður hefur séð í Zoologisk Have. En dansinn var æfður, alveg þrælæfður. Allir hoppuðu eins á sama tíma. Öðru máli gegndi með músíkina, þarna börðu trommararnir bumburnar og lúðrablásararnir blésu af öllum kröftum, hver á sinn hátt, það var hreinlega ekki viðlit að heyra neinn samhljóm.


Áhorfendur stóðu hljóðir og engum stökk bros. Mér ekki heldur, en mikið svakalega átti ég erfitt með mig!

Svipurinn á þessum unga tónlistarmanni sagði mér líka að það væri ekki viðeigandi að hlægja að þessu.
Ég stóð og hlustaði á eitt lag (lag?) og mikið létti mér þegar greinilegt var að komið var að lokum tónverksins, bæði vegna þess að nú var þetta búið, en líka að ég áttaði mig á hvaða lag þau voru að reyna að spila; þetta var Bob Marley lag!
Ég flýtti mér í burtu og grét af hlátri! Síðustu tónarnir af "No woman, no cry, no woman no cry" fylgdu mér út á bílastæði.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007




Ég var rétt komin heim úr leikfiminni þegar bakað var á dyrnar og þetta litla bjútý, ásamt pabba sínum var komin í heimsókn. Pabbi hennar, hann Chris, vinnur hjá Sigfúsi og hefur oft keyrt með honum þegar Sigfús hefur þurft að fara til Kingston, eða eitthvað lengra til. Hann hefur líka komið hingað heim til okkar í ýmsum erindagjörðum og ég þekki hann orðið vel. En Chris varð pabbi fyrir 5 mánuðum, eignaðist með kærustunni sinni henni Maseget þessa fallegu stelpu. Er hún ekki sæt?! Sjáið bara þessi augu!


Chris var kominn til að sýna mér hana - og til að biðja mig að vera guðmóðir hennar! Mikill heiður sem ég gat ekki annað en sagt já við. Ég var nærri farin að skæla þegar Chris sagði: "Ég vil að hún verði eins og þú, þú ert svo góð manneskja"!



Chris sem er voða góður strákur, á ekki foreldra á lífi og systkini hans búa einhver staðar víðs fjarri. Veit ekkert um kærustuna eða hennar fólk.

Það á að skíra hana á sunnudaginn, svo að við Sigfús förum auðvitað í kirkju! Sigfús er voða alvarlegur þarna, ekki út af væntanlegri kirkjuferð, heldur var hann svo hræddur um að Chris missti myndavélina! Sú stutta er komin með göt í eyrun, pínulitla féttinga og á gullsandala! Verður einhvern tímann góð!
En þetta gat ekki passað vetur upp á tímasetningar, því allt bendir til að ég fái flug til London á mánudaginn (26.febr.) og þaðan áfram til Kaupmannahafnar. Ég stoppa nokkra daga áður en ég held áfram til Íslands. Svo væntanlega sé ég ykkur fljótlega! KNUS í öll hús.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Vivet tilkynnti mér áðan að á morgun væri helgidagur í Jamaica. helgidagur? hvaða helgidagur? spurði ég, (og hugsaði; enn einn helgidagurinn! þeir eru nefnilega svo svakalega margir hérna rauðu dagarnir) "Ash wednesday" svarar hún. (Semsé öskudagurinn.) "Ja, hérna og hafið þið líka öskudag á Jamaica! " Ég sá náttúrulega fyrir mér syngjandi krakka útbelgda af nammi slá dauðan kött, eða hund úr tunnu. En það er nú eitthvað annað. Hér er "Ash wednesday" bráðheilagur eins og í gamla daga, það er að þetta er dagur iðrunar og yfirbótar, inngangur föstunnar með öllu sem henni tilheyrir. Skrítið hvernig hefðirnar breytast með tímanum, á okkar heimaslóðum eru allir í þessu húllumhæi, hér á maður helst að liggja á bæn, iðrastog lofa góðri breytni framvegis. Þessi mynd heitir " Öskudagurinn - endir kjötkveðjuhátíðarinnar" og sýnir hvenig manni líður eftir ofát sprengidagsins - maðurinn þarna iðrast svakalega!






Það mætti nú halda að þessi mynd væri tekin á öskudeginum - en þarna erum við Guðmunda og Freyja að sýna Rastadans með tilþrifum! Svansa frænka sendi mér þessa mynd og ég bara varð að skella henni inn í tilefni morgundagsisn!

Hafið gott sprengidagskvöld elskurnar, njótið saltkjötsins og iðrist fyrst á morgun! KNUS

mánudagur, febrúar 19, 2007

Madam Jeanne Calment vissi það; hún varð 122 ára, 5 mánaða og 14 daga gömul, Chris Mortensen vissi það; hann varð 115 ára og 8 mánaða gamall, öll þessi ofurgömlu vissu það, við hin erum búin að vita það lengi; súkkulaði er bráðhollt og gerir manni afskaplega gott. En nú er það líka "vísindalega sannað" eins og það heitir. Ný rannsókn bendir til að í kakói sé sérstakt efni sem eykur starfhæfni heilans og seinkar öldrunarferli líkamans. Blóðflæði til heilans eykst og þar með fá "þær gráu" nauðsynlega næringu til að virka vel og vinna gegn óheillavænlegri þróun sem getur fylgt hækkandi aldri. Hvað segið þið svo!! Haldið þið það sé tilviljun að allt þetta ofurgamla fólk var, og er, vitlaust í súkkulaði? Og ekki hvaða súkkulaði sem er, nei, ónei. Það skal vera hátt prósentumagn af kakói í því, ekkert bansett gerfidrasl. En því miður er ekkert sem breytir því að þetta er ein mesta kalóríubomba sem um getur. Þetta er ekki auðvelt, "hvort vill maður verða skotinn eða hengdur" eins og maðurinn sagði þarna um árið! (Eða var það kona sem sagði þetta?!!) En óneitanlega er gott að vita til að maður er ekki bara að japla á vondum kaloríum þegar lúksuskonfektið frá Freyju og Guðmundu bráðnar á tungunni. Þarna er aktívt verið að aðstoða heilafrumurnar við að vinna verkin sín og ekki væri verra að taka eins og eitt glas af góðu rauðvíni með, því eins og "allir" vita, þá er margsannað að efnin í þeim eðaldrykk stuðla að langlífi og aukinni vitsmunalegri færni. Svo ekki sé nú talað um hvað þetta er allt saman ljómandi hreint gott! Drífið ykkur í næstu konfektbúð og vitið til; hugur og sál munu lyftast!
KNUS í öll hús

sunnudagur, febrúar 18, 2007



Ég heyrði voða læti fyrir utan dyrnar hjá mér í gærmorgun, bílhurðum skellt og háværar umræður á pathva mállýsku. Ég varð náttúrulega að athuga málið og sé þá að við hlið Jentunnar minnar stendur þessi bíll, fullur af ávöxtum og grænmeti. Þarna var hún Vera garðyrkjubóndi komin með litla "mobila" markaðinn sinn og systir Miss Evelin að diskutera prísana við sölukonuma. Vera er ein af þessum harðduglegu jamaicönsku konum sem bara bjargar sér. Keyrir um í hálfónýtum sendiferðabíl og selur afurðirnar sínar. Ég get nú illa svikið hana skræku mína og tannlausa tengdasoninn hennar, en keypti nú samt blómkál af henni Veru. Það verður nú að styðja svona framtak!



Líkamsræktin í Half Moon er orðin voða flott, búið að skipta út öllum tækjunum og þekja alla veggi með risastórum speglum. Sama hvert maður snýsr sér núna, allstaðar blasir maður við í fullri líkamsstærð! Pú,he!
En það virkar hvetjandi, því er ekki að neita!







Það vantar ekkert upp á jafnvægið hjá þessum þjóni á Half Moon sem er að hjóla með morgunverðarbakka til einhverra af þeim sem búa í VIP húsunum. Það fólk þarf ekki að troðast áfram í biðröðum, nei, ónei. VIP fólkið hefur sína eigin sundlaug og fær matinn "höfuðborinn" heim til sín.






Gestirnir sem voru hjá okkur í gærkvöldi fengu vissulega veitingar, en þær voru ekki "höfuðbornar" það þurfti að bera sig eftir björginni! Gamlir vinir Sigfúsar sem eru hérna með Heimsferðum og búa á flotta hótelinu á Runnaway Bay (Svönsu hóteli!) komu í heimsókn. þarna er mjög svo hefðbundin uppstilling af gestaboði á Taylor Road! Mætti halda að fólk kæmi aldrei í hús hjá okkur Sigfúsi!!Sigfús sótti þau á hótelið og svo fengum við Richard leigubílstjóra til að keyra þau heim og hvöttum þau til að fá hann til að fara með sig í lokal túr til að sjá eitthvað annað en hefðbundnar ferðir bjóða upp á . Það er góð reynsla af Richard í því, ekki satt rauðvínsstúkusystur! Þau ætla víst að gera það og verða ekki svikin er ég viss um.

föstudagur, febrúar 16, 2007

Góður dagur í kaupfélaginu í dag; það var bæði til sýrður rjómi og fetaostur! Það sem þarf lítið til að gara mann glaðan! Dagurinn var ekki eins góður hjá Vivet; mér dauðbrá þegar hún mætti í morgun, þið hefðuð bara átt að sjá hana. Neðri vörin á henni var stokkbólgin, hún er nú varaþykk fyrir, en þvílíkt. Ég veit ekki hverju hún líktist; vörin var margföld og svo bólgin að hún snéri einvernvegin út og var þar af leiðandi ljósrauð á litin sem var svakalegur kontrast í þessu dökka andliti. Alveg agalegt! Hún er með eitthvað ofnæmi, þetta hefur víst skeð áður, en þá með efri vörina. Hún fór þá til læknis sem sendi hana heim með eina antihistamin töflu sem ekkert hjálpaði. Þetta tók vikuna að sjatna í það skiptið. Þetta er nú ekki hægt, manneskjan getur dáið af þessu. Hún veit náttúrulega ekkert fyrir hverju hún hefur ofnæmi og gerir ekkert í að finna út úr því. Ég var svosum lítið betri en læknirinn, ég sendi hana líka heim með antihistamín - en þó með tvær töflur!
Fólkið hérna lifir stundum lífinu hættulega; Vivet gengur um sem algjör histaminbomba, umferðin er eins og rússnesk rúlletta og strákarnir sem eru að gera við þakið hjá henni Miss Evelin spígspora upp á rjáfinu án nokkurs öryggis af nokkru tæji.
Þeir voru að vinna þarna uppi í gærkvöldi löngu eftir að fór að dimma. Barry hefur miklar áhyggjur af Jentunni; "ef eitthvað dettur niður" sagði hann (lesist einn af strákunum!) "getur bíllinn skemmst"! Engar áhyggjur af mönnunum!
Ég færði auðvitað bílinn, þótt eflaust væri mýkra að detta á hann en á steinsteypt bílastæðið. Ja, hérna, hvernig bara þykir ykkur!
Hafið góða helgi elskurnar og stelpur; takk fyrir hvað þið eruð duglegar að kommentera! Það er svo gaman! KNUS í öll hús.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Ég skutlaði Vivet heim í dag, þurfti að fara í þvottasnúruleiðangur og það var í leiðinni; eins og eitthvað getur verið "í leiðinni" hérna í MoBay.


Þá hitti ég í fyrsta skiptið dóttur hennar Vivet, hana Theresu, rúmlega tuttugu ára voða sæta stelpu.

Það hefur aldrei hist þannig á að hún væri heima þegar ég kem í götuna. Er víst ekkert voða mikið heima - skilst mér á móður hennar!





Meira að segja eiginmaðurinn var heima og kom út á götu til að heilsa mér (og hrósa!) Vivet er mun glaðlegri þarna með manni sínum en á myndinni með Theresu, en hún var líka að komast að því í gær að Theresa á von á barni með rastakærastanum sínum, sem Vivet er ekki par hrifin af!








Þessar litlu stelpur voru að koma heim úr skólanum og sýndi myndatökunni mikin áhuga. Þær ætluðu að springa úr hlátri þegar ég sýndi þeim myndina af sér!


Voða sætar stelpur, en önnur er svo tileygð að augun voru nánast horfin, sérstakelga það hægra. Ætli virkilega sé ekki gert við svona á börnum hérna? Verð að spyrja Vivet á morgun.





Þessir ungu menn komu hlaupandi á tásunum og horfðu á mig stórum augum. Auðvitað var tekin mynd af þeim líka - en þeir skoðuðu hana voða alvarlegir, alveg orðlausir!
Verð að prenta hana út og senda þeim! Finnst ykkur þeir ekki fullorðinslegir? þetta eru ca. tveggja til þriggja ára kríli.
Annars allt gott í MoBay, sólin skýn og í dag er bæði vatn og rafmagn! KNUS



miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Þeirra Freyju og Guðmundu er sárt saknað í MoBay. Himininn grét með hjóðum í gær, þær voru varla komnar í loftið þegar skall á þrumuveður með tilheyrandi trópísku regni. Jarðskjálfti þegar þær komu og þrumur þegar þær fóru. Það munar sko um það þegar þær eru á ferð, enda mikil stólpakvendi báðar tvær! Tannlausi grænmetissalinn spurði í dag hvar þær væru og skildi bara ekki að þær veldu Ísland fram yfir Jamaica!
Ég keypti ávöxt hjá honum sem ég hef ekki smakkað áður; Soursop heitir fyrirbærið sem er ekkert voða fallegt, risastórt (getur orðið 3-4 kíló, þessi er 1,5 kg.) en á að vera bráðhollt. (Þetta er avokado þarna við hliðina, líka stórt!) Ég var að lesa mér til um soursop og þessi ávöxtur er stútfullur af C- og B-vítamínum, auk þess sem í honum er efni sem talið er að dragi úr vexti krabbameinsfruma. Það verður aldeilis dundur í djúsinum á morgun!
Það er búið að vera vatnslaust í allan dag og rafmagnið hefur verið voða óstabílt. Farið og komið, farið og komið. Gott að ég var búin að safna "fellibyljavatni" sem kemur að góðum notum núna til þvotta og niðursturtunar!
Þetta er nú óttalega klént sem ég hef að segja núna, miðað við fréttir síðustu vikna þegar hver stórviðburðurinn rak annan! Þó er eitt sem svo sannarlega er frétt - og hún gleðileg - Brúsi fór í gegnum skoðun! Geri aðrir betur, "drengurinn" rúmlega tuttuguogeinsárs og "still going strong"!! Hann er flottur hann Brúsi, enda var Guðbjörg voða stolt þegar hún sagði mér fréttirnar!! KNUS í öll hús.

þriðjudagur, febrúar 13, 2007




Þá eru þær farnar heim þessar elskur. Þær náðu að tékka inn áður en Heimsferðahópurinn kom, svo að þær hafa nægan tíma til að kikka í búðirnar inni í flughöfninni! Þær verða auðvitað að koma með Rom með sér heim!







Það ver tregi í svipnum, komið að kveðjustundinni - gott þið sjáið ekki svipinn á mér!


Það er búið að vera yndislegt að hafa þær rauðvínssystur mínar í heimsókn, ljúft og skemmtilegt. Takk fyrir komuna elskulegar! Takk fyrir að njóta þessa fallega lands með mér, takk fyrir hið jákvæða og opna viðmót ykkar gagnvart Jamaica.




Dalvíkingarnir komu með síðustu rútunni, ég læddist aftan að Svönsu og sagði: "Ætlaðir þú að missa af vélinni manneskja"!! Þeir sem þekkja Svönsu vita hvernig viðbrögðin voru! Þau voru hress og ánægð með ferðina og tóku biðinni með jamaicanskri ró: "Soon come"!!
Góða ferð heim, mikið var gaman að hitta ykkur.




Jamaicanskir listamenn eru -eins og reyndar þjóðin öll - litaglaðir og óhræddir við að nota liti í verkum sín.

það er mikil upplifun að heimsækja The Gallery of West Indian Art, sem hefur til sýnis og sölu list frá Jamaica og næstu nágrannaeyjum.

Það er nú ekki hægt annað en vera glaður innanum þetta, litirnir sterkir og verkin full af hlátri og lífi.



Ég held svei mér þá að þetta sé eina alvarlega myndin af Guðmundu! Ég veit ekki hvort það var úrvalið í fiskbúðinni, eða peningabunkinn sem hún heldur á - og sem fer minnkandi eftir því sem líður á bæjarferðina - sem þurrkaði eilíft bros af þessari elsku, en alvarleikinn stóð ekki lengi...








á litlu lokalströndinni við Mósaíkbarinn var brosið þarna aftur.














Við stelpurnar fórum á Húsbátagrillið síðasta kvöldið þeirra rauðvínssystra í MoBay.


Dýravinurinn Freyja er þarna að velja sér lifandi humar til átu. Guðmundi þótti nóg um - en Freyja var ekki í vafa hvaða humar hún vildi á sinn disk.






Örlög humarsins trufluðu okkur ekki lengi, rompunchið átti fljótlega alla athygli okkar, enda það besta í bænum!
En nú eru þær að pakka - heimsókninni til mín er að ljúka, eftir nokkra klukkutíma eru þær orðnar hluti af hóp Heimsferða á flugbellinum á Montego Bay. Það verður tómlegt á Taylor Road!




mánudagur, febrúar 12, 2007









Rétt upp úr djúsi í gærmorgun stóðum við framan við Rose Hall Great House, sem er eitt af fáum plantekru-eiganda-húsum sem enn standa. Nú er þetta safn - minning um auð og völd hvíta mannsins, skepnuskap hans og grimmd gagnvart þrælunum. En þetta eru líka minningar sem segja sögu Jamaica, sögu þrælahalds og kúgunar, sögu baráttu fyrir frelsi sem hófst með uppreisn þrælanna á jólum 1831 og lauk (ef hægt er að segja að frelsisbaráttu ljúki einhvern timann) með sjálfstæði landsins 1962.




En þetta Great House á sér magnaða, rúmlega 250 ára sögu, þar sem tvær konur fara með aðalhlutverkin. Önnur var góð, falleg og kopm vel fram við þrælana, hin var vond, þótti falleg og var algjör skepna í framkomu sinni við þrælana. Báðar urðu ekkjur fjórum sinnum, sú góða af "eðlilegum" ástæðum, sú vonda drap alla sína eiginmenn auk einhvers "slatta" af elskhugum sem flestir voru þrælar. Að lokum var hún sjálf myrt af ástmanni símun sem var alveg búinn að fá nóg af kvensniftinni. Sagt er að andi hennar hafi aldrei fengið frið, þrátt fyrir rammgerða steinkistu og krossa svona hér og þar; hún mun svífa þarna um fljótlega upp úr klukkan 18 dag hvern og gera sig heimakomna í herbergjum hússins. Í björtu ber minna á henni, þó speglar hún sig gamla speglinum sínum og þar sést hún oftar en ekki þegar ferðamenn taka mynd af honum. Það sannaðist enn og aftur á myndinni sem Freyja tók, þar sést "The White Witch" skýrt og greinilega. (Sama hvað Guðmunda segir; þetta er svo augljóslega Anne May Patterson!) Það er afar áhrifaríkt að ganga um þetta hús, heyra sögu lands og fólks og skynja svo sterkt hvað þessi þjóð hefur gengið í gegnum. Ekki að undra að jamaicabúar hafi valið að hafa svartan lit í þjóðfána sínum, hann á að minna á alla þá sorg sem land og þjóð hafa upplifað. Áhrif heimsóknar okkar til hvítu nornarinnar sátu lengi, þrátt fyrir afneitun Guðmundi á tilvist hennar gat hún ekki sofnað fyrr en búið var að kveikja öll nærtæk ljós og Freyja féllst á að halda í hendina á henni alla nóttina!!





Við áttum von á gestum í mat og þær stöllur voru heldur betur liðtækar í eldhúsinu. Sáu reyndar um þetta allt. Maturinn varð líka voða góður, nýbakað brauð og hvað eina!

Svansa frænka fylgist grannt með!





Það hafa aldrei verið svona margir Íslendingar samankomnir á verandanum okkar, stór hluti meira að segja Dalvíkingar! Áður en gestirnir okkar héldu heim (á fína hótelið við Runnaway Bay) tróðum við rauðvísnsystur upp með skemmtiatriði, íklæddumst "dreadlocks", sungum Bob Marley lag og dönsuðum með tilþrifum. Auðvitað við góðar undirtektir viðstaddra. Það hlýtur að vera til mynd af þessu!

Hafið góðan dag elskurnar.


laugardagur, febrúar 10, 2007





Þeim var sleppt lausum í dag stelpunum, eða þannig. Þær fengu allavega smá frí frá mér!! Richard bólstjóri sinnti þeim á meðan við Sigfús fórum og heimsóttum Svönsu og Ninna á flotta hótelið þeirra við Runnaway Bay. Þær fóru í Dunns fossana og klifruðu "obligatoriska" 300 metra upp í gegnum flíðirnar. Blésu náttúrulega ekki úr nös, enda í góðri þjálfun.








Richard sýndi þeim sitt af hverju...












og fór með þær á lokal veitingastað þar sem þær smökkuðu geitakjöt í karry. Lítur út fyrir að vera gott!









Flotta hálfbyggða hótelið hennar Svönsu er rosalega fínt, bara 300 af 2000 herbergjum eru tilbúin og þetta er ennþá ekkert voðalega stórt.
Auðvitað blár himin og ennþá blárri sjór. Svakalega fallegt.

Frænku minni líður voða vel þarna, rómatíkin blómstrar eins og sjá má!!
Hún er líka voða sexy og sæt þarna hún Svansa!!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?