.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

sunnudagur, apríl 29, 2007

Við brugðum okkur til Ocio Rios í gær og gistum eina nótt á litlu hóteli við ströndina. Algjör paradís! Þetta blasti við frá herberginu okkar, Sigfús, pálmatré, lítil eyja rétt utan við og svo Karabíska hafið eins langt og augað eygði!




Það er svo fallegt þarna að ég má bara til með að setja nokkrar myndir inn til að sýna ykkur - prófið að tvíklikka á myndirnar, þær ættu að geta orðið stærri og skýrari













Ég var alveg heilluð af þessari eyju sem er í eigu hótelsins og þarna úti er þessi fína nektarbaðströnd. Við fórum reyndar ekkert þangað - en ég er ekki frá því að það hafi sést í bera rassa af og til!








baðströndin var frábær, sjórinn mjúkur og hlýr eins og hann er nú á Jamaica















Allir reyna að bjarga sér, líka þessi sem kom "siglandi" með skeljar og kuðunga sem hann reyndi að selja












Þetta er draumastaður fyrir alla sem hafa gaman af vatnasporti, það var þvílíka aktívitetið á sjónum, alls konar vatnaleikföng út um allt. Fólk var að kafa, snorkla, sigla á kajökum og segl- og mótorbátum;
















ég sá meira að segja einn á hjóli!

þegar tók að rökkva var tveim nuddbekkjum stillt upp í garðinum. Við kjertaljós og sjáfarnið var ungt par nuddað í bak og fyrir þangað til myrkrið féll á.
Var smá abbó!
Sólsetrið var engu líkt -


og sjáið bláu litina!










það var erfitt að fara frá þessum dýrðarstað, við eigum örugglega eftir að endurtaka þetta. Og ég sem hélt að Ocio Rios væri hálfgert skítapleis sem hefði ekkert sérstakt upp á að bjóða! Svona er maður alltaf að læra eitthvað nýtt. KNUS í öll hús.

föstudagur, apríl 27, 2007

Eftir allar truflanirnar fór rafmagnið endanlega af seinnipartinn í gær og var óvenju lengi að koma aftur - nærri 4 tíma. Og þá var sko farið að volna í íbúðinni! Skil ekki hvernig nágrannar mína geta verið án loftkælingar. En fókið hérna er náttúrulega vanari hitanum en við. Þegar ég opnaði tölvuna í morgun (og var loksins búin að koma nettenginunni í samband eftir rafmagnsleysið) hrundi inn pósturinn - vá hugsaði ég: svona mörg bréf til mín. Gaman!

Þegar ég fór að skoða betur kom í ljós að ég hafði fengið 5 samskonar bréf, þetta er víst kallað dreifipóstur en ég kýs að kalla þetta andlegan terror. Fæ þetta svosum oft og slétti oftast ólesið. Að þessu sinni var yfirskriftin: "DO NOT DELETE" svo ég ákvað að skoða þetta nánar. Það sýndi sig að þetta var slíkt hótunarbréfið, dulbúið sem áskorun til fólks að hugsa betur um vinina sína. Áréttað var að ef maður sendi þetta ekki áfram til a.m.k. kæmi eitthvað skelfilegt fyrir mann sjálfan eða manns nánustu. Þessu til staðfestingar voru nefnd dæmi um fólk sem hafði hundsað boðskapinn og BINGÓ - innan fárra daga eða klukkustunda voru annað hvort þau sjálf eða ástvinir þeirra dánir. Meira að segja konugreyið sem ekki átti nógu marga e-mail adressur til að senda ófögnuðinn til, var keyrð niður stuttu eftir að hún hafði móttekið hótunina. Og auðvitað dó hún. Svo var að sjálfsögðu dæmi um manninn sem hafði gert eins og hann átti að gera og fékk bæði draumadjobbið og langþráða ást að launum.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að verið er að terrorisera fólk svona? Það er verið að ala á ótta og angist okkar allra um að eitthvað slæmt komi fyrir manns nánustu og að ef svo skelfilega vildi til, þá er það okkur að kenna af því að við tókum ekki þátt í að halda áfram að hóta vinum og vandamönnum. Nógar áhyggjur hafa nú flestir samt af sínu fólki þó svona nokkuð bætist ekki við. Er þetta nútíma woodo, eða hvað? Er verið að segja að hægt sé að leggja álög á fólk yfir netið? Er þetta hreinlega ekki bara ljót og andstyggileg aðferð til að koma tölvuvírusi í gang? Það er rétt hægt að ímynda sér hvaða fjöldi þessara bréfa streymir um ciberspace þessa dagana og blokkerar þar með heilu kerfin. En með því að höfða til vináttu og umhyggju fólks á ástvinum sínum hefur upphafsmaðurinn náð tilgangi sínum hversu andstyggilegur sem hann nú var.

Ég móttek gjarna bréf frá vinum mínum og skyldmennum, en ég hef ekki áhuga á að fá fleiri þessu líkt. Eigum við ekki öll að taka okkur saman og stoppa svona sendingar? Og kannski velta fyrir okkur tilgangi og sannindamerkjum; hvernig er t.d. vitað að þetta fólk í dæmunum móttók og sendi - eða sendi ekki hótunarbréfið?

Auðvitað eigum við að sinna vinum okkar, en ekki á þennan hátt. Hafið góðan dag elskurnar mínar allar.

fimmtudagur, apríl 26, 2007

"Varnir Íslendinga tryggðar" - segir Mogginn í dag um samstarf Íslands og Danmerkur í öryggis og varnarmálum. . "Amerikanerne er skredet" segir danska ríkisútvarpið um sömu frétt og ekki er laust við að hlakki í dönum. "Þið gátuð sumsé ekki klárað ykkur án okkar eftir allt saman" - er undirtónninn! En er þetta ekki miklu eðlilegra en að Bandaríkjamenn séu að djöflast upp á Keflavíkurvelli? Mér finnst voða gott til þess að vita að Íslendingar eru á svo margan hátt farnir að líta meira og meira til Norðurlandanna á kostnað fyrri (óskiljanlegrar) áráttu fyrir öllu sem amerískt er. Sé þetta líka í mínu fagi, fyrir 10-15 árum þótti engin vera hjúkrunarfræðingur með hjúkrunarfræðingum nema hafa farið í nám í Bandaríkjunum. Nú er öldin önnur í orðsins fyllstu merkingu og fleiri og fleiri hjúkrunarfræðingar sækja framhaldsmenntun til Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs. Enda er ekki svona svakalegur menningarlegur munur þar á milli. Gott mál og ég er viss um að Danir passa vel upp á okkur!


Enn er sami rembingurinn í veðrinu hérna á Jamaica, hávaðarok og læti. Ég veit ekki hvað er í gangi! Þetta hefur m.a. áhrif á rafmagið sem er voða óstabílt, kemur og fer, kemur og fer. Getur verið svolítið pirrandi þegar ég er að vinna á tölvuna og allt í einu verður allt svart!
Það gengur á ýmsu í vegargerðinni hjá Sigfúsi, mikið grafið og mokað, mikið ryk og mikill skítur! En mangósalarnir láta það nú ekki á sig fá, stilla mangóskálunum upp á bílhræin sín og hreyfa sig ekki úr stað þrátt fyrir að vinnuvélarnar séu á fullu við hliðina á þeim. Enda er þetta þekkt mangósölusvæði þarna í vegkantinum og hvert ættu þeir svosum að fara?
Hafið góðan dag elskurnar!

miðvikudagur, apríl 25, 2007

Ég hef verið lengi að komast inn í rútínuna mína aftur að þessu sinni (inkl. að blogga!). Venjulega þegar ég kem út "tætingsferðum" mínum til Evrópu þarf ég bara einn góðan nætursvefn og svo er eins og ég hafi aldrei farið. En það er öðruvísi núna, kannski af því að ég fór strax til Kúbu - eða kannski er það bara aldurinn?!! Nei auðvitað ekki, er lítið eldri en síðast! En það var ýmislegt sem þurfti að "falde på plads" hérna heima áður en ró féll yfir.



Það þurfti t.d. að hreinsa öll loftkælingaapparötin (þetta þarf að gera tvisvar á ári svo þau fyllist ekki af skít, flugum og bakteríum!) og André "gas-og airconmeistari" dundaði sér við það heilan dag. Fólkið hér vinnur svo rosalega hægt og allt tekur svo langan tíma. Sjálfsagt vegna þess að það er erfitt að hreyfa sig hratt í hitanum!
Vivet er gott dæmi um þetta, hún duddar allan daginn við að sópa og þurrka af - stundum þegar ég horfi á hana finnst mér eins og ég sé að horfa á mynd sem er sýnd i "slow motion"!!


Svo var heimilið að verða gaslaust og við svo búið mátti auðvitað ekki standa. Nú standa aftur tveir myndarlegir gaskútar á þvottaverandanum, fullir af gasi. Góð tilfinning!
Það tók mig 3 daga að ná á gasflutningamanninum, og fá hann til að koma með kútinn. "Soon come" var svarið og það getur bæði þýtt eftir hálftíma og eftir (greinilega) 3 daga!
Það þýðir sko ekki að vera með óþolinmæði þegar verið er að eiga samskipti við jamaicabúa!
Og svo voru það kryddjurtirnar mína! Þvílíkt að sjá þær þegar ég kom heim! Vivet hafði samviskusamlega vökvað þær, en auðvitað ekkert verið að spá í hvað var ætt af þessu og hvað var illgresi. Þannig að kryddin voru öll að kafna í velvökvuðu illgresinu, froskarnir undu sér náttúrulega vel í blómapottunum sem líktust orðið míni-regnskógi og býflugurnar voru byrjaðar að byggja sér bústað í basilikumplöntunni sem var orðin að blómstrandi tréi. Já, það er mörg búmannsraunin! Þannig að allt var klippt niður (Barry til mikillar undrunar, honum fannst þetta svo ræktarlegt!) og enn og aftur reyni ég að rækta kryddjurtir á verandanum á Taylor Road!
Í eldhússkápunum var allt á rúi og stúi - en engir maurar sjáanlegir! Vivet er búin að læra að það verður að taka allt út úr skápunum annað slagið til að fyrirbyggja góð mauravaxtarskilyrði. En hún getur hreinlega ekki lært að raða, bara hrúgar öllu einhvernveginn inn aftur. Ég held ég gefist upp við að kenna henni röðunartækni og geri þetta bara sjálf. Sjálfsagt hefur hún enga skápa heima hjá sér og henni finnst þetta ekki skipta máli, sem það kannski ekki gerir!
Bókin mín er í lokafasa (er ég ekki búin að segja þetta lengi?!!) hef verið að lesa handritið á síðum og yfirfara myndir og myndtexta. Það hefur reynst flókið að koma þessum fáu myndum vel inn - þetta er mikil handavinna sem tekur tíma. En mér sýnist á öllu að tímamörk standist; þ.e. að bókin komi út í byrjun júní. Núna er ég að yfirfara heimildir höfundarins, og þær eru sko ekki fáar; 15 þéttskrifaðar A4 síður! Hafið það gott elskurnar, KNUS í öll hús.

sunnudagur, apríl 22, 2007

Crissy kom í heimsókn í dag. Við höfum ekki séð hana síðan hún var skýrð fyrir 8 vikum og sú hefur aldeiis stækkað! Pabbi hennar kom með hana, skutlaði henni í fangið á mér og svo var hann farinn!

Ég náði rétt að kalla til hans: "komdu eftir klukkutíma Chris"!! Krílið þekkir okkur ekkert og ég vildi sko ekki að hún fengi áfall í fyrstu einkaheimsókn hennar á Taylor Road. Þetta hefði nú ekki verið gert í okkar hluta heimsins, þar sem börnin eru í aðlögun dögum og vikum saman!




Enda var hún voða alvarleg þessi elska, horfði með forundran í kringum sig með stóru augunum sínum!











Hún er farin að sitja sjálf og er voða sperrt, enda að vera 7 mánaða.

Engin tönn er komin upp en mikið svakalega sem hún slefar! Og svo klæjar greinilega mikið í góminn og hún féll alveg fyrir bithringnum sem ég keypti handa henni í Kaupmannahöfn.
Bænapúðinn frá Hrönn tekstilhönnuði á Skólavörðuholtinu á örugglega eftir að verða vinsæll hjá henni.




Hún var voða fín, meira að segja í "gull"sandölum!


En það er greinilegt að hún verður fótstór! Kannski endar hún í nr. 42 eins og guðmóðir hennar!

Það lyftist nú á henni brúnin þegar frá leið og hún var farin að brosa og hjala þegar pabbi hennar kom. Ég er viss um að við eigum eftir að verða góðir vinir!
Chris er svo svakalega glaður yfir hvað okkur finnst hún fín og indæl. "Svo kennir þú henni ykkar tungumál, er það ekki?" spurði hann. "Þá getur hún talað við þig þegar þú hringir og svo kannski farið í heimsókn til ykkar lands!"
Vá, maður! Ég fann fyrir mikilli ábyrgðartilfinningu. Hvað skyldi verða fyrsta orðið hennar á íslensku?!!

fimmtudagur, apríl 19, 2007

GLEÐILEGT SUMAR!!




Takk fyrir samskipti og samveru í vetur, Kærar þakkir til allra þeirra sem hafa verið mér nálægir gegnum bloggið mitt, það er gott að vita af ykkur - þótt ég viti svosum ekki alltaf hverjir þetta eru!!




Þrátt fyrir að eins og er búi ég við eilíft sumar, á Sumardagurinn fyrsti alltaf sess í hjartanu mínu, í gamla daga var ÆVINLEGA sól og blíða þennan dag á Dalvík. þetta hlítur að vera rétt munað, annars hefði maður varla farið í sparikjólnum í skrúðgönguna?!!

Ég heyri á fréttum frá Íslandi að veturinn hefur kvatt með látum; alla vega í Reykjavík. Var ekki skemmtistaður fyrir ungt fólk í einu af þessum húsum sem brunnu? Lán í óláni að eldurinn kom upp á þessum tíma sólarhrings. Hefði verið skelfilegt ef það hefði verið að kvöldi til - og á síðasta vetrardag. Hugsið ykkur bara hvað hefði getað gerst.

Lilian , Jóna og Vetur konungur kvöddu öll á sama tíma hérna í MoBay. Eftir alltof stuttan - en aktívan og skemmtilegan tíma eru þær farnar heim þær stöllur.



En þrátt fyrir stuttan tíma náðu þær að sjá og upplifa margt á Jamaica. "Hvíta nornin" í Rosehall Great House hafði mikil áhrif á þær, Jóna heyrði tiplið í henni alla nóttina og Lilian var sannfærð um að sál Annie Palmer væri á sveimi utan við steinkistuna!




Lilian "stiftede bekendtskab" við heilbrigðiskerfið, þegar ég sá að bitin á henni fór farin að nálgast 100 mátti ekki við svo búið standa! Hún slær öllu út hún Lilian , þær voru vitlausar í hana flugurnar - enda er hún einstaklega "dejlig"!! En eftir eina sprautu, krem og pillur fór þetta nú að jafna sig.


Við slöppuðum af á ströndinni í Negril og fylgdumst með sólinni setjast;





Síðasta kvöldið fórum við á Húsbátagrillið og borðuðum hjá einhenta kokkinum (obligatorisk kveðjumáltíð eins og þið vitið sem eruð búin að vera hérna!)

Lilian brosti Monu Lísu brosi síðustu dagana - hún braut framtönn við sín fyrstu kynni af Jerkkjúklingi. En brosið var þarna engu að síður!






Gaman að hafa þær þessar elskur, okkur leiddist ekkert voðalega þarna með rauðvínið okkar!!










Barry var rauðeygður þegar hann kvaddi Jónu sína og sagði henni að hann hefði tvö herbergi á leigu, svo þrátt fyrir ég væri flutt frá M0Bay gæti hún samt komið!! Ja, hver veit; Jón er alltaf að koma manni á óvart!!
Og nú er kominn hvunndagur á Taylor Road, ég sit með handritið "á síðum", er að setja inn síðutilvísanir og gera síðasta mögulega tjékkið á teksta og myndum áður enn það er sent í prentun. Ég er búin að fara í sund,Vivet sópar, Barry slær grasið og Miss Monika er eitthvað að ráðskast fyrir utan húsið. Svona er daglega lífið hjá okkur á Taylor Road. Sumar-KNUS í öll hús.

sunnudagur, apríl 15, 2007

Halló elskurnar allar! þetta er náttúrulega ekki hægt, jamaicabloggarinn hefur sko ekki staðið sig í stykkinu - orðnar fleiri vikur síðan síðast og ég nærri búin að gleyma innlogginu á síðuna mína! það hefur ýmislegt á dagana drifið síðan síðast:


Gífurlega mikilvægur fundur í Rauðvínsstúkunni var haldinn í Ölfusborgum helgina 10. til 11. mars;












ég náði að sjá litlu hvolpana 5 sem fæddust heima hjá Doddu og fjölskyldu í Garðabæ;












ég var með þegar nafni minn og guðsonur Viktor Svavar í Roskilde blés á kertin á 8 ára afmælisdaginn;









ég upplifði árvisst vorsund svanahjónanna fyrir utan gluggana á Hammershøis Kaj;












ég tyllti niður tá í Montego Bay áður en við Sigfús héldum til Kúbu í páskafrí;


Havanna er afskaplega áhugaverð borg á margan hátt, þvílíkar byggingar sem þar standa - og þvílíkt sem þarf að taka til hendinni!













Mig klæjaði í puttana - hefði viljað hafa þótt ekki væri nema nokkrar málningadollur!











Urmull af svörtum fánum með einni byltingarstjörnu blakta við byggingu bandaríska sendiráðsins í Havanna;












en það er líka músík í Havanna, alls staðar er verið að spila salsamúsík, mikill og fallegur söngur á hverju götuhorni;











á Kúbu er fallegt landslag og víða búið að gera stórkostlega hluti eins og þetta risastóra málverk sem er málað beint á klettavegg rétt hjá bænum Vinales;







í það heila var Kúbuferðin afar áhugaverð, óhjákvæmilega ber ég saman nágrannaeyjarnar Jamaica og Kúbu; Jamaica fer halloka í þeim samanburði á margan hátt: menntun, heilbrigðisþjónusta, glæsibyggingar, í öllu þessu ber Kúba af - en Guð minn almáttugur hvað allt er þar gleðisnautt. Ég hef aldrei áður áttað mig á hvað meint er með að "byltingin éti börnin sín".






það var gott að koma "heim" til Jamaica og á hótelinu í Kingston biðu þessar elskur eftir okkyur. Jóna og Lilian voru mættar á svæðið!


við keyrðum svo heim til Mobay daginn eftir, ætlunin var að fara hefðbundna leið yfir fjöllin, en þeir voru að malbika í einum af litlu bæjunum sem við ætluðum að fara í gegnum svo okkur var beint á aðra leið - og það var sko lífsreynsla! vegurinn sem við þurftm að fara var svo svakalega mjór, hékk utan í fjallahlíðunum, skörðóttur og engar varnir voru til að varast þvergnýpt fallið niður. verð að viðurkenna að mér leist ekki alltaf vel á þegar ég var að mæta stærðarinnar flutningabílum á þessum mjóa vegi, oft mátti engu muna - ég hafði ca. 10 cm. sitt hvoru meginn við bílinn; öðumeginn var bílaröðin á móti okkur og hinu meginn þvergnýpið! Púha!! en heim komumst við og nú sóla þær sig við laugina stöllurnar og bíða eftir að ég hætti að blogga svo við getum farið að skoða Great House!


og auðvitað er sól og blíða hjá okkur!
heyrumst seinna, nú er mál að linni, KNUS í öll hús.






This page is powered by Blogger. Isn't yours?