.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

fimmtudagur, desember 28, 2006


Ég keyrði Vivet heim í dag, geri það stundum, þá sparar hún taxapeninginn og er mun fljótari heim. Tristan 13 ára sonur hennar kom út á götu í íslenska fótboltabolnum sem ég gaf honum þegar ég kom frá Íslandi síðast. Tristan er mikill fótboltaáhugamaður og alsæll með bolinn sinn og voða feiminn við mig!


Ég mundaði auðvitað myndavélina og með það sama fylltist allt af litlum sætum svörtum krökkum sem vildu líka láta mynda sig! Þetta eru nokkrir nágrannar Vivet, brosmildir og fallegir krakkar. Og rosalega snyrtileg þrátt fyrir þessi kofaræksni sem þau búa í.
Þetta fólk veit ekki hvað þvottavélar eru, allt handþvegið!












miðvikudagur, desember 27, 2006

Einhvern veginn finnst mér að jólin séu á hraðri leið burtu og hafi verið einstaklega stutt í ár. Kannski hefur hitastigið hjá mér eitthvað með þetta að gera? Alla vega er ég komin í vinnustuð og eftir að hafa látið handritið hvíla um skeið, loggaði ég inn á "Kitwood/þýðing/endanlegt handrit/endurlesning/hreinsun" og fór enn og aftur að lesa yfir. Þetta hefur verið holl og vitleg pása, ég var orðin svo föst í tekstanum að ég var hætt að sjá það sem betur mátti fara. Er endalaust hægt að gera betur? Hvenær er mál að linni?
Eitt af því sem ég er að velta fyrir mér er: hvað heita hin mismunandi stig sorgarferlisins á íslensku? Er einhver mér fróðari þarna úti í "cyberspace" sem getur ráðið mér heilt? Eitthvað segir mér að eðlilegt sorgarferli samanstandi af: afneitun, reiði, þunglyndi, samþykki og uppbygging. Aðrar hugmyndir?
Þetta er náttúrulega ekki uppbyggilegt umræðuefni svona rétt þegar allir eru glaðir og reifir á leiðinni í Kringluna og/eða Smáralindina til að skipta jólagjöfum sínum til einhvers betra! Eða eru nýbúnir að selja eða kaupa Sterling og eiga því vísa flugferð eitthvað út í buskann! Eða eru búnir að skila hraunmolanum sem þeir stálu í sumar og verða því framvegis heppnir og hamingjusamir! En samt; elsku ef þið vitið betur en ég, látið mig vita. KNUS

Góðan daginn elskurnar, vona að allir hafi vaknað hressir og úthvíldir eftir ein mestu pakkajól "ever" og tilbúnir til að takast á við gráan veruleikann í þessa þrjá daga sem þarf að vera venjulegur áður en næsta törn tekur við. Við Sigfús ætlum að flotta okkur um áramótin og fara til Whitehouse sem er á suðurströnd Jamaica. Þar ætlum við aðvera þrjár nætur á einu fínasta hóteli jamaica, "All Inclusive" sem þýðir að maður þarf víst aldrei að taka upp budduna innan veggja hótelsins, sama hvað etið er eða drukkið. Hjómar vel, ekki satt?!!



Ég verð nú bara að sýna ykkur borgarjólatré Montego Bay. Svkalega hátt og "spengilegt", auðvitað gervi og skreytt þannig að varla sést í tréð fyrir kúlum, slaufum og öðru dóti. Gerir mikla lukku og fólk er afskaplega stolt af trénu sínu.

Barry bankaði upp á í gær. Hann var í fríi, en hafði gert sér ferð til að óska okkur gleðilegra jóla. Hann var rosalega fínn, með nýja húfu og í fínum hreinum bol og í skónum sem ég gaf honum í sumar. Hann hafði ekki tímt að nota þá fyrr, sagðist hafa ætlað að geyma þá til jólanna! (þá fór hann allavega ekki í jólaköttinn!). Ég benti honum á að hann hefði "gleymt" að taka af merkimiðann (gulur pappírsmiði sem hékk á öðrum skónum með nafni framleiðandans) og ætlaði að fara að kippa honum af. En Barry hélt nú ekki; miðinn átti að vera á, þá gátu allir séð að skórnir voru nýjir og ónotaðir! Við gáfum bæði honum og Vivet ilmvatn í jólagjöf. Bæði voru glöð með gjöfina og bæði höfðu orð á að þetta væri greinilega "ekta", ekki blandað upp með vatni eins og það sem væri keypt hérna. Ilmvatnið var eina jólagjöfin sem Vivet fékk, en ég gleymdi að spyrja Barry hvort hann hefði fengið eitthvað annað. Svo ekki var nú mulið undir hana Vivet þessi jólin. Hún spurði mig reyndar hvort ég hefði ekki geymt eitthvað af jólamatnum til að gefa henni að smakka! Þegar Lue spurði mig svona ef ég hafði haft gesti kvöldið áður, fannst mér hún ferlegur dóni, en nú veit ég að þetta þykir alveg sjálfsagt hjá þessu fólki. Þetta er bara forvitni! Nágrönnum mínum finnst voða gaman ef ég færi þeim eitthvað sem ég hef eldað eða bakað. Þeim finnst það ekki alltaf gott á bragðið, en þá hafa þau prófað! En íslenska kryddbrauðið hefur gert mikla lukku hjá þeim.

þriðjudagur, desember 26, 2006

Annar dagur jóla, "Boxing Day" hér á Jamaica eftir breskri hefð. Frídagur hjá öllum, fjör og læti eins og á aðfangadagskvöld! Aftur á móti er 25. desember JÓLADAGUR með stórum upphafsstöfum hjá öllum. Bráðheilagur dagur, það er gengið um með jólagjafir og kort (þeir sem á annað borð gefa og fá slíkt!), farið í kirkju, allir svona drellifínir og fjölskyldur koma saman og borða geita- og svínakjöt. Nágrannar okkar komu og óskuðu gleðilegra jóla, færðu okkur vín og jólakort og þökkuðu okkur fyrir að vera svona góðir grannar. Fallegur siður sem maður ætti að taka upp.

Við Sigfús buðum 3 einsömlum mönnum að vera með okkur á aðfangadagskvöldið, 2 svíum og einum norðmanni. Það var ósköp huggulegt og hangikjötið gerði mikla lukku hjá öllum viðstöddum. Ég held að mér hafi aldrei fundist hangikjöt svona gott! Ég var svolítið lúmsk með ORA baunirnar; var með tvær skálar með baunum, ORA og ammerískar; ORA skálina setti ég á hornið hjá okkur Sigfúsi!!
Samkvæmt venju var spennandi að opna pakkana, allt góðar og fallegar gjafir, hafið hjartans þakkir fyrir okkur.

Sigfús gaf mér þessa mynd sem ég kalla "Miss Jamaica" og er eftir jamaicanskan listamann. Ég sá þessa mynd á galleríi í Kingston í sumar og varð alveg heilluð af henni. Stórkostleg mynd sem sýnir konu sem greinilega hefur prófað sitt af hverju og getur loskins leyft sér að setjast niður, lesa bók og líta yfir farin veg. Frábær túlkun.








Krakkarnir mínir tóku sig saman og gáfu mér Piet Heim stjakana sem mig hefur langað í árum saman. Takk elskurnar! Þeir sóma sér vel í horninu í stofunni á Taylor Road og verða æðislegir í stofuglugganum á Kæjanum!

Auk þess fékk ég ýmislegt fallegt og gott; músík, skartgripi,
föt, nammi, sólgleraugu o.fl. Hjartans þakkir þið öll.











Skýringin á ´"HEAVY" miðanum á ferðatöskunum mínum kom að hluta til þegar við fórum að opna jólapakkana, við fegnum 10 bækur. ÆÐISLEGT!! Það verður nóg að lesa á bandinu næstu vikurnar og góður hvati til að dvelja þar lengi! Enda veitir ekki af, hef ekki komist almennilega inn í rútínuna eftir að ég koma aftur til Mobay. En nú verður sko tekið tak!!! Þetta eru allt áhugaverðar bækur, fjölbreyttar og spennandi. Hafdísi systur minni, þessari elsku, fannst ásæða til að gefa mér bók sem heitir "Lifum lífinu hægar"! Einhver skilaboð með gjöfinni, Hafdís mín??!!



Í gær (Jóladag) var haldinn heljarins jólafrokost í garðinum á Taylor Road. Tæplega 50 manns (útlendir starfsmenn Pihl) komu saman í garðpartý sem tókst með miklum ágætum. Ég gerði voða jólalegt út í garði og allir sátu úti. Reyndar kom smá rigningarskúr, en fólk lét það ekkert á sig fá, sat sem fastast, slálaði í dönskum snapsi og borðaði síld, flæskesteg, frikadeller og rauðkál! Sólin kom aftur fram og þurrkaði á augabragði allan útvortis raka!
Þetta var voða gaman, en "hold da ferie" hvað við Sigfús vorum þreytt þegar 6 tíma veilslu lauk!


Svo að í dag, "Boxing Day" er algjör afslöppunardagur hjá okkur. Vona þið hafið öll átt góð jól, sendum ykkur bestu kveðjur. KNUS

sunnudagur, desember 24, 2006


Aðfangadagur jóla, og 4. sunnudagur í aðventu, heilsaði okkur í MoBay með glampandi sól, hægum andvara og 29 stiga hita. Afar notalegt!

En jólin koma til okkar allra, hvernig sem nú viðrar hjá okkur, og jólaandinn er líka hér á Taylor Road. Það eina sem vantar eru þeir sem mér þykir svo vænt um og eru svo langt í burtu núna.

Við Sigfús sendum ykkur öllum bestu óskir um góð og gleðileg jól, við hugsum til ykkar allra.

laugardagur, desember 23, 2006


Bara rétt að láta vita að allt er undir kontrol á Taylor Road; hangikjötið soðið, fullur (stór!) pottur af rauðkáli mallar á hlóðum, Elvis á fóninum kerti í forstofuinni og jólaviskustykkin frá Guðbjörgu komin á snagann! Er þetta voða mikil nostalgía?!! Allavega erum við komin í rosa jólaskap! Bara jólabaðið eftir!

Látið ykkur líða vel elskurnar, JólaKNUS

Þegar við fórum að huga að hangikjötssuðunni áttuðum við okkur á því að pottaeign heimilisins var af skornum skammti og alls enginn sem gat ráðið við hangikjötsrúlluna miklu sem ég smyglaði með mér alla leið frá Íslandi. Við treystum ekki alveg nógu vel á að sjóða í gasofninum, svo það var bara ein leið; þ.e. að skreppa í apotekið og sjá hvort ekki væri til stór pottur þar. Það var ekki að spyrja að þeim þar; við fengum þennan fína pott, sem við reyndar gleymdum svo í kaosinu á afgreiðsluborðinu hjá þeim! Sigfús mátti því annan túr í apotekið og er hann hér eftir nefndur "Pottasækir"!!

Eitthvað eru nú reiðuféið farið að minnka hjá jamaicabúum eins og eflaust fleirum fyrir þessi jól, því í supermarkaðinum voru ca. 50 manns í biðröðinni þar sem hægt er að borga með kredidkorti!! (það er örtröðin þarna inn í enda!)

En nú erum við bæði komin í hús, ég dró fyrir glugga, kveikti á kertum og tengdi tölvuna á íslensku jólakveðjurnar. Voða huggulegt og bara svo jólalegt. Alltaf gaman að heyra kveðjur frá fólkinu í Grafarbakka, á Hafsteini, í Túnfæti og öllum hinum!

Það er ennþá of bjart til að kveikja á kertunum í forstofunni, en þá verður sko líka jóla, jóla á Taylor Road!

Gangi ykkur vel með frómasinn og snakkist hangikjötið vel. JólaKNUS



Það hefur stundum verið í meiru að snúast hjá mér síðustu dagana fyrir jólin. Velkenndur og títt notaður frasi: "Jæja, ertu bara farin að bíða?" á vel við hjá mér núna, ég er bara í dúlleríi þessa dagana, bjó meira að segja til nammi, nokkuð sem ekki hefur verið tími til í mörg herrans ár!

Sigfús fór í jólafrí um hádegið í gær og framundan eru heilir fjórir frídagar hjá honum. Hann er sko vel að þeim komin, hefur verið mikið að gera undanfarið. Mikilvægar vinnuvélar í lamasessi, næstu undirmenn hans í jólafríi út um allan heim og óeirðir hjá innfæddu verkamennunum, verkföll og læti. Eins og sjá má var hann hinn ánægðasti með að komast í jólaundirbúninginn heima og fór á kostum í smákökubakstrinum!

Ég skrapp í apotekið í gær, vantaði skál undir "Ris a la mandeð" sem verður jóladessertinn í ár. Já, þetta er rétt skilið; ég geri EKKI jólafrómasinn núna, þori ekki að taka sjénsinn á eggjunum hérna, hef ekki fegið staðfest að þau sé OK svona hrá. Svo það verður enginn frómas og enginn heimagerður ís að þessu sinni. Það er ekki eitt; heldur allt sem er öðruvísi þessi jól!
En aftur í apotekið: Þar var hreinlega allt vitlaust! Jólastressið var komið til MoBay! Svakalega margir í búðinni, allt á tjá og tundri (var verið að taka upp jólavörurnar!), argandi brn (sem maður sér ALDREI í búðum hérna) varðmenn út um allt (náðu einum þjófi á meðan ég var inni!) og jólamúsík spiluð með slíkum hávaða að ekki heyrðist mannsins mál!
En heima er allt að fyllast af rauðkáli, ég sá 4 rauðkálshausa í supermarkaðinum og þótt skömm sé frá að segja, þá keypti ég tvo af þeim. (Græðgi?) Ég var rétt búin að fremja þessa rauðkálsverslun mína þegar skræka grænmetiskellingin mín hringdi, hún var búin að redda rauðkáli! Ég gat náttúrulega ekki verið þekkt fyrir annað en að kaupa hjá henni líka, svo nú er allt eins og segi orðið fullt af rauðkálshausum í ísskápnum. Það verður sko ekki rauðkál sem vantar á Taylor Road um jólin!

föstudagur, desember 22, 2006



Brian og Lola áttu 15 ára brúðkaupsafmæli í gær og í því tilefni var boðið til veislu við sundlaugina. Búið var að skreyta allt með ljósum og blöðrum, barborð í einu horninu og matarhlaðborð með ýmsum jamakönskum kræsingum í öðru.

Auð okkar Sigfúsar og ísraelska nágrannans voru allir gestirni mismikið svartir og féllu fljótlega inn í myrkrið sem skellur á um sexleitið þessa kviðuna. Prófði að taka mynd yfir hópinn, en fólkið sést ekki! Það voru líka svo margir dökkklæddir.

Miss Monika var náttúrulega mætt, ég hef ekki séð mikið til hennar undanfarið og fékk skýringuna á því. Hún hefur verið lasin, er búin að fá einhverjar hjartatruflanir og er bara drulluléleg. hefur greinilega líka áhyggjur af þessu, hún býr jú ein og á enga ættingja hér í Mobay. Verð að vera dugleg að líta til hennar.

Þetta eru nágrannar okkar við hliðina; hann er frá Ísrael en hún eins og sést er innfæddur jamaicabúi. Hún er voða sæt en mér finnst hann eitthvað svo væmnislegur? Hvað finnst ykkur? Svo er hann með langan krullaðan stert miður á bak!! Eru þetta kannski fordómar?

Sundlaugin leit svolítið öðruvísi út þarna en þegar ég er að busla í henni í sól og blíðviðri! Ekki það, veðrið var alveg frábært í gærkvöldi. Undarlegt að sitja í sundlaugarpartýi 21. desember í 25 sitiga hita. En afar skemmtileg upplifun. Öllum var mikið í mun að við Sigfús smökkuðum á öllu - þetta var reyndar besti jamaicanski maturinn sem ég hef smakkað hérna- svo við vorum pakksödd á endanum! Gott að það var stutt heim!


fimmtudagur, desember 21, 2006

Maður rekst á margt áhugavert og skondið á fréttasíðum blaða og útvarpsstöðva. Ég skrepp nánast daglega inn á íslenskar og danskar fréttasíður til að ég sé nú ekki alveg úti að aka ganvart öllu öðru en jamaicönskum staðháttum. Fréttir af veðurfarinu á Íslandi eru svakalegar, hlýtur að vera voða ójólalegt allstaðar? Danir voru að uppgötva að Guð sé til; á vísindalegan hátt (með heilaskönnun) tókst þeim í Árósarháskólanum að finna Guð í heilanum á ungu heittrúuðu fólki og komust að því að þegar þessi ungmenni báðust fyrir, fylgdi heilavirkni þeirra nákvæmlega sama mynstri og þegr fólk hefur félagsleg samskipti við hvert annað. Þetta töldu þeir sanna að Guð væri til. Það "merkilega" var að þegar ungmennin (ennþá tengd við skannarann) áttu að senda í huganum óskir til jólasveinsins, kom allt önnur virkni fram í heilanum. Undarlegt?!! Það er semsé munur á Guði og Jólasveininum eftir þessu. Og talandi um Jólasveininn; haldið ekki að búið sé að taka Jólasveininn út af Grænlenskum fjárlögum!! Og nú á hann ekki fyrir frímerjum til að svara þessum 50.000 börnum sem skrifa honum. Finnst ykkur þetta vera hægt!
Ég hef reynt að fylgjast með umræðunni sem kom í kjölfar greinarinnar (greinanna?) sem birtist í Ísafold um hjúkrunarheimilið Grund. Það er aldeilist skotið föstum skotum þar á báða bóga! En hvað kemur svo út úr því? Er einhver efnisleg umræða í gangi? Eða snýst þetta bara um hvort einhver - og þá hver - sé að skrökva? Hvað um málefnið sem slíkt? Hefur einhver áhuga á því?

miðvikudagur, desember 20, 2006


Það er ekki skrítið þótt mér finnist óraunverulegt að það séu aðeins 4 dagar til jóla. Síðustu vikuna hafa runnarnir við sundlaugina sprungið út og eru ekkert smáfallegir. En voða lítið jólalegt við þetta!
Sömuleiðis er kominn mikill vöxtur í chilijurtirnar mínar og hef ég ekki undan að nota alla ávextina sem koma. Annars gengur nú svona upp og ofan með garðræktina mína. Graslaukur og persilla eru í góðum gír og það er alveg ljóst hvað er að vaxa þarna, annað er ég ekki eins viss um. Er farin að halda að allt sem ég sáði sé steindautt, en aftur á móti hafi einhver fræ fokið í pottana hjá mér og vex þar og dafnar eins og hvert annað illgresi. bansett vesen.
Ég sá smájóla-eitthvað í dag; stelpurnar í supermarkaðinum voru allar með jólasveinahúfur. Að vísu bláköflóttar, en sniðið leyndi sér ekki; þetta var jólasveinahúfusnið! Ég er búin að fara út um allan bæ að leyta að rauðkáli. "No season" skrækti grænmetiskellingin mín þegar ég spurði hvort hún gæti útvegað rauðkál. EKKI ÁRSTÍÐIN FYRIR RAUÐKÁL!!! Halló, hvenær á maður þá að borða rauðkál ef ekki um jólin?! Mér er bara spurn! Hún ætlaði að athuga hvað hægt væri að gera svo spenningurinn er algjör; verður rauðkál með hangikjötinu á aðfangadagskvöld??

þriðjudagur, desember 19, 2006

Ég gerði mitt besta til að komast í smá jólastress í dag; en ég lofa ykkur að það er erfitt hérna í Mobay! Ég fór að kaupa inn fyrir þennan heljarins julefrokost sem verður haldinn hérna á Taylor Road á Jóladag. Hér fyrir löngu var ákveðið að hafa "jule-kom-sammen" fyrir þá starfsmenn Pihl sem ekki færu heim - eða fengju fjölskyldu í heimsókn um jólin. En síðan hefur sýnt sig (eins og ég var víst búin að segja ykkur!) að þetta verður 50 manna stórveisla. Og verður úti, hvernig sem viðrar, því við höfum ekki innandyra pláss fyrir þetta allt! Svo nú var farið að versla inn í dag. Allt í hinum mestu rólegheitum í MoBay, gerist víst lítið fyrr en á aðfangadagskvöld þegar búðir hafa opið til 2 eftir miðnættióg ALLIR fara í bæinn! Ég fann nánast allt sem ég ætlaði að kaupa, enda voru kröfurnar svosum ekki stórar!

En ég ætla að hafa eins hefðbundin jól og frekast er unnt , með jólatré og hvað eina! Það er sumsé komið upp þetta fína tré hérna á Taylor Road! (því miður sést ekki á myndinni hvað það er svakalega skrautlegt, það eru svona litafibrar sem glitra og glansa. Svo það þarf ekkert að skreyta, þetta er örugglega ammerískt) Og ekki nóg með það; ég náði síðustu rauðu kúlunum í apotekinu og er búin að hengja þær upp svona vítt og breitt um íbúðina! Svo það er að verða voða jólalegt hjá mér.. inni! Úti skýn sólin og hitinn fer ekki undir 27 gráðurnar. Svo það er svolítill barningur að komast í jólastuðið!

Ég kvefaðist allsvakalega í Evrópuferðinni og hef haldið mig frá sundlauginni frá því að ég kom. Mér skildist líka á Barry að það væri eins gott, því það drukknaði fugl í lauginni og festist einhvernveginn í frárennslinu svo það er allt stíflað! En ég held það verði gert við þetta fljótlega "soon come"!!

Hvernig er með ykkur? Er jólatréð komið upp?!! KNUS

mánudagur, desember 18, 2006


Ég er alveg búin að gefa lifandi jólatré upp á bátinn að þessu sinni. Reyndar skilst mér að það sé til einhverstaðar í Kingston, en jólatrjáasambönd mín eru ekki nógu sterk til að mér takist að hafa upp á því. Svo "pyt"; það verður bara gervitré í ár. Eins og sjá má á jólatrénu þeirra í þvottahúsinu í Bláa Demantinum er það líka stemmingin sem skiptir máli!

Við fórum í kaupstað um helgina. Mér leið eins og sveitakonu þegar ég kom í súpermarkaðinn í Kingston; það var sko eitthvað annað en hérna í MoBay! Það var svo mikið til! og svona líka fínt og snyrtilegt þarna líka! Þarna fann ég gróft salt, þurrkaða sveppi, kókosmjöl :-) og meira að segja hrökkbrauð! Og þarna var til fullt af sýrðum rjóma! Það er alveg með ólíkindum hvað þarf lítið til að gleðja mann! En í Kingston fann maður líka ákveðið jólastress, svakalega mikið af fólki og allir að versla. Kannski eiga þeir fleiri aura í
Kingston en hérna í Mobay? En úrvalið af jólatrjám var ekki mikið, allavega ekki í þeirri stærð sem við vorum að leita að. Sáum slatta af risastórum trjám (auðviðtað gervi!), ekkert undir 2,5 metrum og fremur mikið gervileg. En það breytir engu virðist vera, trén eru skreytt svo svakalega eins og sjá má, að það sést hvort sem er ekkert í þau! En við komum samt heim með jólatré! Set það upp í dag og sýni ykkur seinna!


Við bjuggum á litlu hóteli í Kingston. Ég held við höfum verið einu hvítu gestirnir, það var brúðkaup þarna á laugardaginn og allir hinir gestirnir voru í tengslum við það. Þvílíkt sem fólkið var fínt! Litlar stúlkur í síðkjólum og háhæluðum skóm, smástrákar í hvítum jakkafötum og allar konur í galakjólum.

Já, það er gaman að fara í kaupstað!

föstudagur, desember 15, 2006

Apotekið bregst mér ekki frekar en fyrri daginn. Skrapp þangað í gær og viti menn; þarna var hellingur af jólaskrauti! Og meira að segja nokkur glansandi gervi-jólatré í ýmsum stærðum. Að vísu er flest af þessu eftir yfirdrifnum (og fremur ósmekklegum) amerískum smekk; en samt, þetta var þarna. Og samkvæmt fyrri upplýsingum sem ég hef fengið um jamaicanskt jólahald, er apotekið þarna að koma til móts við þarfir ríka fólksins í Mobay, enda er þetta með dýrari búðum bæjrins. Í bjartsýni minni spurði ég hvort hægt væri að fá einhverstaðar lifandi jólatré. Mér var kurteislega bent á blómabúð "Down Town" sem seldi fræ, og kannski væru þeir líka með jólatrésfræ!! Og hún var ekki að grínast stúlkan. Ég benti henni á að ég ætlaði mér nú að nota tréð þessi jól og því væri svolítið seint í rassinn gripið með að fara að sá fyrir jólatré núna 10 dögum fyrir jól. "Sorry", þá var víst ekkert hægt að hjálpa mér. Við Sigfús förum til Kingson í dag, erum boðin í jólaskrall þar og ætlum að vera yfir helgina. Kannski finn ég jólatré í höfuðborginni.
Snemma í haust var farið að tala um að halda danskan julefrokost fyrir érlenda starfsfólkið hérna í Mobay. Ég asnaðist til að segja að við Sigfús gætum lagt til húsnæði, enda var þá reiknað með að flestir færu heim, eða eitthvað annað yfir jólin. Nú sýnir sig að langflestir verða hérna og ekki nóg með það; margir hafa fengið gesti að heiman svo þetta er orðið svakalegur fjöldi.Það sem ég reiknaði með að yrði MAX 20 manna huggulegur middagur, stefnir í að verða yfir 50 manna stórveisla! Hvernig í fjáranum á ég koma þessu fyrir hérna? Illt er að treysta á veðrið (hann er enn að hreita úr sér rigningarskúrum) svo ekki er hægt að hafa garðpartý, enda á þetta að vera á Jóladag og þá halda þeir sem á annað borð halda eitthvað hátíðlegt sín jól, og reynsla mín af dönskum julefrokost er að þeir geta orðið svolítið háværir! Ekki víst að nágrannarnir yrðu hamingjusamir með það! Þetta verður eitthvað málið! Ég verð að fara að læra að segja NEI!!

PS. Hafdís, miss Monica er voða smávaxin, kannski þess vegna sem jólatréð hennar er svona lítið? En það er Miss Evelin sem situr þarna á steini!/KNUS

fimmtudagur, desember 14, 2006


Ég hitti nágrannakonurnar mínar, þær Monika og Evelin í dag. Var reyndar ekkert farin að skilja í að Miss Monika var ekkert farin að koma og líta eftir mér! En hún var þá bara svona tillitssöm; ég yrði að ná mér eftir ferðalegaið fannst henni áður en ég færi að fá heimsókn! Þær eru nú ósköp indælar báðar tvær og voru svo glaðar yfir að ég var komin heim!
Fólk hér um slóðir virðist ekki gera mikið mál útaf jólahátíðinni. Ég hef verið að spyrjast fyrir um hvernig jamaicanskir jólasiðir séu og það er fremur fátt um svör; enginn sérstakur jólamatur, stundum gefnar jólagjafir og stundum ekki, jólaskraut óþekkt hjá flestum og meira að segja jólasveinninn er hættur að láta sjá sig! En þess ber að gæta að ég hef mest verið að spyrja "venjulega" jamaicabúa, þ.e.a.s. það fólk sem ekki hefur alltof mikið á milli handanna. André gas og air-con sérfræðingur kom í gær til að hreinsa loftkælinguna og ég notaði tækifærið og spurði hann sprjörunum úr um jamaicönsk jól. André sagði þetta: Jólin eru hátíð ríka fólksins, við hin höfum ekki ráð á að halda jól eins og þau. Hann ólst upp (ásamt tveim systkinum) hjá einstæðri móður sinni og á þeim bæ voru aldrei aurar til að halda jól. Aldrei neinar jólagjafir því mamman notaði allt sitt til að mennta krakkana sína. Bara jerk-kjúklingur á jólunum eins og aðra daga. Ekkert jólaskraut, ekkert jólatré. Aftur á móti fer fjölskyldan niður í bæ á aðfangadagskvöld, því þar er alltaf mikið húllumhæ! Fullt af fólki í bænum, það er skotið upp rakettum og á hverju götuhorni er fjárhættuspil í gangi! "Meira að segja amma fer í bæinn og gamblar" sagði André og skellihló! Vivet fer í kirkju kl. 5 á jóladagsmorgun - og svo er ekki meira jólastand hjá henni. Ekkert jólatré og engar gjafir. Hún hafði ekki hugmynd um hvort, og þá hvar væri hægt að fá jólatré í MoBay. "Við höfum aldrei haft jólatré" sagði hún, "þau eru svo dýr". Hún hafði heyrt um að Santa hefði verið á ferðinni einhvern tímann í gamla daga, "en hann kemur ekki lengur svo ég viti til". Henni finnst líka voða fyndið þegar ég er að segja henni frá íslenskum jólahefðum og sveinum! Hún er sko aldeilis búin að fá eitthvað til að segja frá í götunni! Monika á gamalt jólatré, ca. 30 cm. hátt sem hún ætlar kannski að setja fram á borð. En hún fer í kirkju, oftar en einu sinni. Svo á ég eftir að heyra hvernig Barry ætlar að gera um jólin. Varla verður það mikið. En ef þetta er svona í öllu Karabíska hafinu, skil ég vel að Castro hafi komist upp með að fresta jólunum þarna um árið! Einhvernveginn finnst mér ekki við hæfi að segja þessu fátæka fólki hvernig fólk í mínum hluta heimsins lætur í sambandi við jólin. Það verður eitthvað svo gráðugt og yfirdrifið þegar þau hafa sagt manni sína hlið á málinu. Þau ættu bara að vita..........

miðvikudagur, desember 13, 2006

Ellefu dagar til jóla, Þrjú á palli syngja um að "gamla Gríla sé dauð", klukkan er að verða hálf sjö að morgni, hitamælirinn sýnir + 27 gráður og ég er nýbúin að veiða 5 cm. orm sem hafði tekið sér bólfestu á jólarósinni okkar. Það er svolítið erfitt að koma sér í hefðbundinn jólagír núna!
Þrátt fyrir tveggja mánaða ferðalag um norðlæga tímasóna, féll ég á augabragði inn í jamaicanskann rytma; sofna snemma og er uppi fyrir allar aldir. Ég varð ekki lítið undrandi í gærmorgun þegar ég uppgötvaði að það er líka skammdegi hérna. Ég ætlaði samkvæmt venju að heilsa morgni milli hálf sex og sex, en viti menn: það var kolsvarta myrkur! Sólin kom ekki upp fyrr en hálfsjö. En þá var allt eins og áður; fuglar og fiðrildi hófu flug sitt, söng og tíst; hundar geltu og hanar göluðu. Mér létti stórum, þetta var allt þarna, bara svolítið seinna á ferðinni!
Mér var vel fagnað við "heimkomuna", glaður Sigfús beið mín á vellinum, Barrý bisaði skælbrosandi risastórum og níðþungum töskunum mínum inn, "later, later Svaba" sagði hann og gaf mér hnefann og Vivet flaug upp um hálsinn á mér! Þeim fannst öllum ég vera búin að vera alltof lengi í burtu! Það var ósköp gott að koma heim á Taylor Road.

En það er líka búið að vera ósköp gott að vera heima á Íslandi og heima í Kaupmannahöfn! Ég var nú svo bjartsýn (eða öllu heldur naiv!) að ég hélt ég hefði svo lítið að gera þennan tíma sem ég var á ferðalaginu, ætlað mér að ná að gera svo mikið og hitta svo marga svo oft! En eins og oft áður misreiknaði ég fjölda klukkustunda í sólarhringnum og tókst ekki að gera allt sem ég vildi. En miklu náði ég þó og mikið sem var gott að hitta ykkur öll.


Ég fór auðvitað við fyrsta tækifæri til Noregs til strákanna minna sem hafa heldur betur stækkað síðan í vor. Nú eiga þau heima í Stamsund í Lofoten og hafa það gott þar. Það er afskaplega fallegt þarna, meira að segja núna í kulda og snjó! Hlakka til að sjá staðinn að sumri til. Þegar ég var hjá þeim bjuggu þau í bráðabirgðahúsnæði, verbúð alveg niður við sjóinn (amma hafði nú smááhyggjur þegar þeir komu inn og báðu um flotvestin sín því þeir voru að fara niður á bryggju og veiða!!). En nú eru þau flutt lengra frá bryggjunni og nær skóla og barnaheimili. Mér finnst svo sorglegt hvað ég sé þá sjaldan þessar elskur.
Dvöl mín á Íslandi varð ögn lengri en áætlað var, það tekur sinn tíma að undirbúa bók til útgáfu! Sem algjör byrjandi í þeim "bransa" gerði ég mér ekki grein fyrir umfangi verkefnisins og varð þetta meira en ég hafði átt von á. En ég afhenti handritið og nú á Jóhann Páll og hans starfsfólk næsta leik. Ef allt fer samkvæmt áætlun, kemur bókin út í mars 2007. Það verður spennandi!

Frestun ferðar til Jamaica gerði það að verkum að ég gat tekið þátt í útskriftinni hans Sturlu Jónssonar og Hafdísar, en hann kláraði með stæl flugvirkjanámið í Kaupmannahöfn 1. desember.
Það voru stoltir foreldrar og móðursystkini sem fögnuðu með honum. Flottur hann Sturla!

Í Kaupmannahöfn bjó ég á Kæjanum hjá Guðbjörgu þar sem ég hef "mitt" herbergi. Gott að vera hjá henni. Hún er á fullu í sínu, hannar og saumar flotta hluti.

Jæja, nú er Vivet komin á fulla ferð, hvað skyldi hún nú vera að stússast? Hún leggur metnað sinn í að gera allt voða vel, m.a. tók hún sig til einn daginn og skóf alla teflonhúðina af pönnunni, hélt að þetta væri eitthvað sem hafði brunnið við! það er ekki tutla eftir af teflóni á pönnunni, þetta hefur tekið hana heilan dag! Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt; innfæddir nota greinilega ekki teflonhúðaðar pönnur!! KNUS

þriðjudagur, desember 12, 2006

HALLÓ!!
Bara rétt að láta vita að Jamaicabloggarinn er "på banen igen"!! Kom til MoBay seinnipartinn í gær eftir tæplega tveggja mánaða fjarveru. Og svo undarlegt sem það nú er; bloggþörfin gerði ekkert vart við sig þennan tíma, þrátt fyrir að ýmislegt hafi nú verið fréttnæmt. En það er eins og við manninn mælt; ég er ekki fyrr sest við tölvuna á Taylor Road, en bloggarinn í mér "dúkkar" upp. Undarlegt, ekki satt?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?