.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

fimmtudagur, ágúst 31, 2006


Það var eins og við manninn mælt, ég var rétt búin að blogga "einkútasöguna" þegar Mr. Gasman mætti á svæðið. Og nú, eins og sjá má erum við Sigfús nú með okkar eigin "Twin Tower" á þvottaverandanum. Það var eins gott að við fengum Mr. Gasman, því í ljós kom að sá gamli lak á tveim stöðum!
En ég reyki voða sjaldan þarna úti, svo þetta var nú ekkert hættulegt!






Svo verð ég bara að sýna ykkur hetju dagsins, hann Bjarka Örn Arason. Þessi elska fæddist með ansi útstandandi eyru. Honum hefur nú verið nok sama, en eyrun hafa þvælst fyrir honum, bæði í svefni og undir húfum sem ekki er komist hjá að nota þegar maður á heima í Norður-Noregi. Svo að hann fór í morgun í eyrnaaðgerð á sjúkrahúsi í Osló. Allt gekk eins og best verður á kosið og í leiðinni voru sett rör í eyrun, því það kom í ljós að hann var með "vökva" og heyrði því ekki fullkomlega vel. Bjarki tók öllu með stóískri ró, fylgdist áhugasamur með öllum undirbúningi og harðneitaði þreytueinkennum af svæfingarlyfjunum þangað til hann snöggsofnaði! Vaknaði svo fullur af orku og sársvangur og þegar búið var að borða kex og opna verðlaunapakkann fóru þau mæðginin í bíó!
Hann er svo flottur hann Bjarki Örn! Elsku ömmustrákur, mikið sem ég sakna ykkar.



Þarna er gaskúturinn okkar, stendur úti á þvottaverandanum, óvarinn og leiðslan úr honum liggur eftir gólfinu, í gegnum gat á veggnum og þaðan inn í eldavélina. Mér leist nú svona mátulega á þennan frágang í fystu, en þetta venst eins og annað! Enginn mælir er á honum svo við höfum ekki hugmynd um hvað er mikið gas eftir. Við höfum auðvitað notað gasið síðan við fluttum inn, eða í rúma 6 mánuði og enn kemur gas! Þegar Miss Monika kom til að tékka að við hefðum undirbúið komu Ernesto eins og átti að gera, spurði hún m.a. um hvort við hefðum nægjanlegt gas. Við vissum náttúrulega ekkert um það. "Eruð þið BARA með einn kút?" sagði Monika öldungis hissa, "hér hafa allir tvo samtengda kúta" bætti hún við. Við sáum lógikkina í þessu, það væri sko ekki skemmtilegt að verða gaslaus mitt uppí "hurricane". Haft var samband við André Gas sem setti gaskútapöntun í gang "med det samme". Ernesto heyrir sögunni til, en ekki er viðbótarkúturinn enn kominn. Tímaskyn jamaicabúa er stundum íllskiljanlegt fyrir skipulagða Vesturlandabúa, "soon come" og "later" eru algengustu orðin í tungumálinu, hvort sem það er á enskunni þeirra eða "patio" mállýskunni. En okkur finnst traustvekjandi að hafa tvo kúta og svo erum við þá líka komin í hóp "tveggjakútaeigandafélagsins" í Montego Bay!!

þriðjudagur, ágúst 29, 2006


Ég er búin að vera hálflöt í gær og í dag! Þ.e.a.s. við alvöru vinnuna mína, en það er nú samt ekki eins og ég hafi bara setið með hendur í skauti mínu og gónt út í loftið. Í gær tók ég mig til og sinnti kryddjurtunum mínum sem hafa eins og svo margt annað orðið að lúta í minni pokann fyrir honum Tomma boy. Þessi tilraun mín hefur nú gengið svona misjafnlega, sumar kryddjurtirnar eru vel á veg komnar, aðrar hafa varla komið upp úr moldinni. En nú er allt komið í viðeigandi pottastærðir svo nú hlýtur eitthvað að fara að gerast.


Eftir umpottunina var ég komin í framkvæmdarham, smúlaði þvottaverandann hátt og lágt með þeim afleiðingum að þurrkarinn snarstoppaði og neitaði að fara í gang aftur. Vivet sagði að hann væri líklega bara þreyttur. Henni finnst ég þvo oft og mikið! Kannske var það rétt hjá henni, því í morgun (var mátulega búin að kalla á viðgerðarmann!) fór hann í gang eins og ekkert væri.
Ég átt heilmikið eftir af orku, sem ég notaði til að hengja upp nýinnrömmuðu myndirnar okkar. þessi er í eldhúsinu, litrík og hressileg mynd sem sýnir alla ávexti og allt grænmeti sem vex/er ræktað á Jamaica. Svo undarlegt sem það nú er, þá er þetta enginn svaka fjöldi, tiltölulega fáskrúðigt verður að segjast. Flest af þessu vex bara villt, jamaicabúar kunna hreinlega ekki að rækta/nota nema brot af því sem við þekkjum. Hugsið ykkur bara; hér eru öll skilyrði eins góð og hugsast getur, sól og blíða og nægt vatn. Nei, nei, heldur en að rækta td. blómkál, brokkolí, púrru o.fl., er þetta flutt inn (frá Kanada, USA og jafnvel Ástralíu) og selt dýrum dómum í nokkrum súpermörkuðum og oft er þetta orðið handónýtt þegar það er komið í vesælann kæli búðanna. Lennti um daginn í að kaupa úldið brokkolí, lítið geðslegt! Já, er margt hægt að gera fyrir dugmikið fólk hérna á henni Jamaiku!

mánudagur, ágúst 28, 2006

Ernesto renndi sér ljúflega framhjá norð-austur hluta Jamaica án þess að við yrðum hans vör. Eftir að hafa lullað eftir Karabískahafinu, sveigt fram og til baka, bætt í og dregið úr hraða og vindstyrk frá einum klukkutíma til annars, ákvað hann svo að lokum að það væri Castro og fjölskylda sem ættu að finna fyrir honum frekar en við á Jamaica. Hvernig hann ætlar sér svo að spóla sig upp eftir USA er ennþá óljóst, eins og er virðist hann ætla að bruna eftir endilöngu Frórída eftir að hafa safnað orku eftir Kúbuheimsóknina. Þetta er nú meira fyrirbærið þessi "hurricane", ekkert að marka þá, engin ákevðin stefna og virðist sem þetta lifi sínu eigin tryllta lífi. En við fengum góða æfingu í undirbúningi sem við búum að næst þegar "Tropical depression" myndast í karabíska hafinu. En helvískur hafði af okkur ferðina til Mandeville! Í staðinn áttum við rólega helgi heima, sem var auðvitað heldur ekki slæmt. Og Mandeville fer ekki langt!
Vivet ljómaði þegar hún kom í morgun: "Guð var með okkur" sagði hún. Það var mannmargt í kirkjunni hennar á sunnudaginn og trúa þau að kraftur bænarinnar hafi beint Ernesto frá þeim. Hver veit, kannski er það rétt. Castro hefði þá betur farið í kirkju! Hafið góðan dag elskurnar!

laugardagur, ágúst 26, 2006



Ernesto nálgast okkur nú óðfluga og virðist ekki hafa skipt um skoðun; hann ætlar sér beint yfir okkur. Byrjað smávegis að hvessa og við erum búin að taka allt lauslegt inn. Það er svolítið skrítin tilfinning að vita að þetta er á leiðinni, en vita samt ekki hvað "þetta" er. En frábært að hægt er að fylgjast svona með og sjá hvernig þetta náttúrufyrirbæri hagar sér. Sem Íslendingar erum við ekki óvön náttúruhamförum, en þetta er annað, við þekkjum ekki áhrifin. Við erum fegin að sá fyrsti sem við upplifum virðist ekki vera rosalega stór, hann vex til muna þegar hann er kominn framhjá. En við getum ekki betur séð, en að augað í honum Ernesto góni beint niður á Taylor Road á leið sinni yfir Jamaica og gott ef ekki hreinlega Taylor Road númer 1080! Jarðskjálftarnir á Íslandi koma "bara" rétt sisvona og svo er það "bara" það. Nú magnast spenningurinn með hverjum klukkutíma sem líður, hvessir meira og meira; hvín meira og meira; Hvernig ætli það sé að vera mitt í fellibyl? Við fáum svarið von bráðar!

föstudagur, ágúst 25, 2006

Þá er fyrsti fellibylurinn á leiðinni. Við vorum búin að ákveða ferðalega upp í fjöllin um helgina, ætluðum að heimsækja bæ sem heitir Mandeville og er í 800 metra hæð yfir sjávarmáli. Er víst voða fallegt þarna. Ég var mátulega búin að skrifa Guðbjörgu um fyrirhugaða ferð, þegar Sigfús kom heim með útprentun af "TD Five", sem á upptök sín austar í Karabíska hafinu. Eftir spánni sækir hann sig svo í veðrið (þetta passar vel að segja núna!), magnast upp á leiðinni og þegar hann fer yfir Jamaica er´ann orðinn ansi hvass. En það verður nú ekki fyrr en á sunnudaginn samkvæmt núverandi hraða, sem getur auðvitað breyst. En ef fer sem horfir, verður þetta "bara" katagóría 1. Við gerum okkur náttúrulega enga grein fyrir hvað þetta þýðir í raun, höfum ekki prófað að vera mitt í fellibyl áður. En það gat nú líka verið slæmt veður á henni Dalvík!! Nei, nei, það er ekkert kæruleysi í gangi hjá okkur, við sýnum þessu fulla alvöru og fórum og birðum okkur upp af batteríum, eldspýtum og kampavíni, vatn og rauðvín eigum við helling af, svo við erum í góðum málum! Sjálfsagt fer rafmagnið, það þarf nú minna til að það fari og ekki er hægt að kenna karpastíflu í Kröflu um hér!! En þetta verður eflaust áhugaverð upplifun!

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Ég fór að hitta Mr. Daddy í dag. Mr. Daddy er inrömmunarmaðurinn sem býr í götunni kennar Vivet og allir kalla hann "Daddy". Ég þekki náttúrulega manninn ekki neitt og get því tæplega farið að kalla hann pabba, en það man enginn hvað hann heitir svo ég redda mér með því að kalla hann Mister Daddy! En Mr. Daddy var flúinn að heiman þegar ég kom, vissi sem var að ég ætlaði að mynda hann og hann er ekki alveg öruggur um að ég komi ekki frá einhverju "Magazin". En handverkið á römmunum var sem fyrr til ,ikillar fyrirmyndar og þótt prísinn væri ögn hærri, þá er þetta ekkert verð.

En það voru ýmsir aðrir heima í götunni, m.a. stóra systir Vivet sem býr við enda götunnar. Þegar ég hef keyrt Vivet heim, flykkist fólkið út til að hreinlega held ég skoða mig! Og allir svona voða vinalegir, heilsa mér með virktum og segjast "hafa heyrt SVO mikið um mig"!! Og svo hlægja þau, hvað sem svo það nú þýðir! Sá Vivet fyrir mér sitjandi á tröppunum (húsið hennar er í bakgrunni), með alla nágrannana í kringum sig segjandi sögur af okkur Sigfúsi! Ég held þeim finnist við svolítið skrítin, en á góðann hátt. Eins og sést er Vivet búin að fá gleraugu (hún er sú í brúnu) sem fara henni svona ljómandi vel. Ég var nú búin að hugsa mér að fá sent eitthvað af "Føtex"gleraugunum mínum handa henni, en hún var búin að panta þau og er voða ánægð. Hún sagði mér að ef hún heði ekki fengið vinnu hjá mér hefði hún ekki getað keypt gleraugun og eins og hún sagði: "það tekur mig bara tvær vikur að vinna fyrir þeim". Ég er auðvitað ánægð með að hafa stuðlað að betri sjón hjá þó ekki væri nema einum jamaicabúa. En ég sendi Mr. Daddy skilaboð um að ég ætti eftir að koma og taka ag honum mynd!


miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Eftir 6 mánaða dvöl á Jamaica er ég búin að sjá að það eru reyndar árstíðir hérna. Nú eru t.d. dagarnir styttri, sólin kemur seinna upp og sest fyrr. Það eru allt öðruvísi gróður núna eða þegar ég kom í febrúar, önnur blóm og önnur dýr. Regnið á þessum tíma miskunar sig yfir náttúruna sem svarar með grænni grassprettu og allavega litum blómabreiðum. Froskakrílin fjölga sér slíkt, að ég legg til að hér eftir verði ekki sagt þegar verið er að óskapast yfir barnafjölda innflytjanda í Danmörku og víðar; "þau fjölga sér eins og kanínur" heldur "þau fjölga sér eins og froskakrílin í Montego Bay"!!! Þessi froskakríli eru rosalega hávær, smella og skríkja stanslaust og elska rigningu og rökkur. Forstofan okkar er greinilega afskaplega vinsæll bústaður (enda voða notaleg forstofa!) og þar hefja þessi kríli upp raust sína í ljósaskiptunum og hætta ekki fyrr en annaðhvort okkur Sigfúsi tekst að beina eiturgusunni upp í þau, eða þegar fer að birta af degi. Ekki skrítið að Palla hefur skki sést þarna vikunum saman. En mér skilst að þegar regntíminn er yfirstaðinn flytji þau eitthvað annað, vona það bara! Annað sem fylgir þessum árstíma er óskaplegur fjöldi af maurum. Þeir eru náttúrulega alltaf einhverstaðar nálægir, en nú kastar fyrst tólfunum, þeir eru hreinlega út um allt og í hópum. Þótt þetta séu leiðinda húsdýr, get ég ekki annað en borið vissa virðingu fyrir þeim. Þvílíkur dugnaður, þvílík atorka. Detti smá arða á gólfið, eru þeir eftir augnablik komnir í hópum og reyna að burða örðunni út og þá væntanleg heim til sín, hvar sem það nú er. Ég furða mig oft á hvaðan þeir koma, svona snöggt og svona margir. Sigfús heldur að þetta sé skipulagt hjá þeim, þeir séu með spæjara út um allt (auðvelt fyrir einn maur að fela sig, þetta eru pínulítil kvikindi), svo þegar rúgbrauðsmylsna eða dauð fluga liggur á gólfinu (eða er klesst einhverstaðar eftir minn atgang með bekkjarýjuna!) þeytist hann heim og sækir liðsauka, sem á sama hraða hendist til baka til að sækja björg í bú. Ég get ekki annað en verið sammála þessu, hvernig ætti þetta annars að gerast svona hratt og skipulega? En þá eru þeir margir spæjararnir í þessu maurasamfélagi!
Ég hálfpartinn brotlenti þegar ég lauk við þýðinguna og var svolítinn tíma að ná upp "tempóinu" aftur. En nú er ég komin vel í gang aftur, að þessu sinni við yfirlestur og endurbætur á tekstanum. Sem betur fer var það rétt ályktað hjá mér; þetta er ekki eins mikið mál og sjálf þýðingin og miðar mér vel. Það er ótrúlega spennandi að sjá fyrir endann á verkefninu, allavega að sjá að mér tekst að ljúka þessu, hvað sem svo gerist í framhaldi af því. Er að reyna að trappa nig svolítið niður, sit ekki "nema" 6 tíma á dag við tölvuna núna. Dejligt!
Heyriðið mig; Guðbjörg er búin að opna heimasíðuna sína, enn er ekki mikið inn á henni, en samt hægt að sjá sýnishorn af fötunum hennar. Kíkkið endilega á www.greykjalin.com
Flott hjá henni Guðbjörgu! Hafið góðan dag elskurnar, KNUS

mánudagur, ágúst 21, 2006

Um jólin árið 1831 gerðu þrælar á Jamaica uppreisn. Um alla eyjuna tóku þrælarnir sig saman og brenndu niður hús eiganda sinna, plantekruhöfðingjanna, svo kölluð "Great House". Þó með einni undantekningu; Greenvood Great House sem breti nokkur "honorable" Richard Barret byggði 1780. Fjölskylda hans hafði flutt hingað rúmlega 100 árum áður og greinilega var þetta fólk ögn öðuvísi en annað yfirfólk á þessum tíma. "Honorable" Barrett braut allar venjur samtímans og menntaði sína þræla og var þeim almennilegur. Þetta launuðu þrælar hans honum með því að þyrma "greithásinu" hans í uppreisninni. Hann átti á þessum tíma u.þ.b. 2000 þræla sem púluðu á sykurreirökrunum og í öðru á þessarri gríðarstóru landareign. En vegna þessarrar framsýni hins "honorable" plantekrueiganda, er Greenwood Great House eina hús slíkrar tegundar sem til er á Jamaica frá þessum tíma. Síðar voru byggð önnur sem standa ennþá. Þetta Great House stendur upp í hlíðunum ca. 10 km. austur af Mobay og þangað fórum við í gær. Það hefur ekki verið kastað til höndunum við byggingu hússins, það stendur enn í upprunalegri myns og það sem meira er, það er búið í því. Innfædd hjón keyptu þetta, "madness" sagði eigandinn en brosti þó um leið og hann sagði þetta! Og þarna búa þau, innan um sögufrægar mublur, listaverk, tæki og tól sem minna á þrælahaldið, sofa í 200 ára gömlum rúmum og sitja í enn eldri útskornum stólum. Á verandanum sem er næstum 30 metra langur, er þvílíkt útsýnið og þar standa eldgömul sólhúsgögn og "teborð". Húsið er opið fyrir gesti alla daga, sé fyrir mér handaganginn að koma sér á fætur, fjarlægja allt sem sýnir að þarna búi fólk og gera húsið klárt fyrir gesti. Eini staðurinn sem ekki er opin fyrir alla er eldhúsið þeirra. En það var fyrndið að sjá inn í einn af ótalmörgum risastórum skápum í húsinu, þar var sjónvarpi haganlega fyrirkomið! Elshúsið var áður í húsi við hliðina og stígurinn að aðalhúsinu var kallaður "hvíslstígurinn" því þar máttu þrælarnir ekki tala upphátt, bara hvísla! Meðal þess sem þarna er að finna, er fjöldinn allur af undarlegum sjálfvirkum hljóðfærum og flest virka þau enn. Litla leiðsögukonan okkar söng "Daisy" hátt og snjallt við undirleik upptrekts orgels.
Þrælar gengu jú kaupum og sölum og þeir fengu þá ekki aðeins nýjan húsbónda, heldur líka oftast nær nýtt nafn. Stórt skjal á einum veggnum sýnir lista yfir eigur palntekrunnar og þar á meðal nöfn þeirra þræla sem, að sjálfsögðu tilheyrðu eignunum. Þar má sjá allskonar skrítin nöfn, m.a. "Bob Trouble", altso "Bubbi Vandræði"! Sá hefur sjálfsagt verið ósáttur við hlutskipti sitt og skal engann undra. Þarna var líka að finna svart járnferlíki, það var mannagildra sem þrælar sem reyndi að flýja voru settir í og stillt út öðrum til viðvörunar. Algjört pyntingartæki. Þrátt fyrir viðleitni þrælanna 1931, liðu mörg ár þangað til þeir fengu frelsi; eða þar til 1844. Hugsið ykkur, bara 100 árum áður en Íslendingar urðu sjálfstæðir. Þrátt fyrir sól og hlýjann ágústvindinn var hrollur í mér þegar ég yfirgaf Greenwood Great House, þvílíkt líf sem þessum manneskjum var boðið uppá. Þó var þetta eins og ég sagði, besti staðurinn á Jamiaca hvað þrælahaldi viðvíkur.
En ég verð nú bara að skjóta hérna inn; Það er ekki lengur þrælahald á Jamiaca í þeim skilningi, en vitiði hvað hjúkrunarfræðingur hefur í laun fyrir fulla vinnu? 36.000 íslenskar krónur á mánuði og þá á eftir að borga allt; þar á meðal námið sem þeir þurfa sjálfir að kosta. Þetta er nú bara ekki hægt!
PS. Nú er ég búin að fatta hvernig á að breyta tímanum á blogginu svo framvegis ætti þetta að koma fram á jamaikönskum staðartíma ! KNUS til ykkar allra.

sunnudagur, ágúst 20, 2006


Ér er nú orðin ýmsu vön hvað viðvíkur hreinsun sundlaugarinnar á morgnana, hin og þessi dýr hafa yfirleitt brotlent þar í næturmyrkrinu eða snemmmorguns. En í morgun tók ástandið út yfir allan þjófabálk, ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum; þessi svaka krabbi skreið eftir botni laugarinnar og virtist una hag sínm hið besta. Ég hef séð svona krabba vera að þvælast niður á vegi, en sá vegur er rétt við sjóinn þannig að það er ekki óeðlilegt, en hér á Taylor Road og í "minni" sundlaug! Sá hefur aldeilis villst af leið! Ég hóf nú samt sundið, en gaut auginum á dýrið í hverri ferð yfir laugina og gætti þess að tilla ekki niður tá. Krabbinn hljóp eftir botninum, hélt hann að ég væri að leika við sig? Var hann keppa við mig? Hvernig kemur maður krabbadýri upp úr sundlaug? Ég var ekki búin að finna neina lausn þegar Sigfús kom galvaskur til að synda, sem betur fer, er sunnudagur og hann því heima. Ég hef ekki mikla reynslu af krabbaveiðum, þrátt fyrir að ég hafi nú róið til fiskjar á mínum yngri árum. Sigfús sá strax að krabbinn mundi hafa skriðið á lyktina í gærkvöldi þegar við vorum að elda humarinn ( sem var rosalega góður!) og haldið að hér væri sjórinn, séð sundlaugina og : "splask" demt sér í! Við stóðum og góndum á krabbann þeytast um botninn og nú voru góð ráð dýr. Ekki áttum við neinn háf eða annað sem okkur fannst sennilegt krabbaveiðifæri og það besta sem okkur datt í hug í fyrstu atrennu var tupperware steikingartöngin mín, sem reyndist með öllu ónothæf. Krabbinn réðst bara til atlögu við töngina sem náði engu taki á honum. Þeir áttust við þarna um stund, Sigfús og krabbinn og ég fylgdist grann með , hvatti minn mann (auðvitað að hniga niður úr hlátri!) en allt kom fyrir ekki, Sigfús kafaði og krabbinn otaði sinni stóru kló að honum, hvorugur vildi gefa sig. Ég sótti nú fötu og sóp og nú fór eitthvað að gerast. Sigfúsi tókst
að sópa krabbanum að tröppunum og koma honum þar í fötuna. Krabbinn barðist um og ætlaði sko ekki að gefast upp, sló frá sér með klónum og eins og sjá má, starði hann á mig útstandandi augum. Smá svona óhuggulegt, er ógeðslega fyndið! Viðureigninni lauk sumsé með sigri Sigfúsar sem sturtaði úr fötunni yfir á næstu lóð. Það væri mátulegt á þessa náunga sem eru að svíða stóra tréð til dauða, að fá krabbaklóna í tærnar á sér! En við Sigfús hlóum mikið af hvað nágrannarnir héldu þegar þeir sæu okkur koma úr sundi með steikingartöng, kúst og fötu!

En ósköp var ég fegin að Sigfús var heima! Verður sjálfsagt smábið þangað til við fáum okkur krabbakjöt!

laugardagur, ágúst 19, 2006

Það hefur verið slíkt kappið í mér síðustu dagana, að enginn tími hefur verið til að blogga. Í gær; nánar tiltekið kl. 11.58 að staðartíma lauk ég við að þýða síðustu setninguna í síðasta kafla bókarinnar!!! Eftir rúmlega 117 síðna rökfærslur fyrir bættri umönnun fólks með heilabilun, var líkast hegiathöfn að skrifa:
"Á ólíklegustu stöðum getur sprottið upp lind orku og samúðar og hér, ef miðað er við hefðbundnar geðlækningar, fáum við ómælanlega meiri og ríkari skilning á heilun sálarinnar"! Hann er bara flottur hann Tom Kitwood! Þrátt fyrir mikinn létti, greip mig undarlega tilfinning þegar ég lagði frá mér bókina, sambland af rosalegri þreytu, tómleika og söknuði. Kitwood hefur verið daglegur förunautur minn síðan fyrstu daga júnímánuðar og á hverjum degi hef ég fengið eina eða fleiri "a,ha" upplifanir, lært eitthvað nýtt og heyrt eitthvað nýtt. Auðvitað er ég búin að lesa bókina áður og suma hluti hennar mörgum sinnum. En aldrei á þennann hátt, frá orði til orðs og velta hverri einustu setningu fyrir mér fram og aftur. Svo var ég líka bara búin að lesa dönsku þýðinguna og það er sko svolítið annað en að kafa niður í frumtekstann. Svo er bara að vona að öllum öðrum finnist Kitwood jafn æðislegur og mér finnst hann vera! Í tilefni áfangans fórum við Sigfús út og borðuðum á einum af betri stöðum bæjarins, æðislegur matur og voða fyndin lifandi músík! Þessi Rasta mann söng Bob Marley lög af mikilli innlifun og gítarleikarinn tók annað slagið undir með rosalega skrækri rödd. Ég var alveg að kafna úr hlátri, en stillti mig nú og sýndi viðleitninni mikla virðingu! En ameríkanarnir sem sátu við næst borð voru ekki eins háttvísir, hlógu upp í opið geðið á "listamönnunum" og gáfu þeim ekkert þrjórfé. Dónar og nískupúkar!
Ætla að taka "Kitwood-lausa" helgi, er að fara í strandafmæli á eftir og svo ætla ég spreyta mig við humarmatargerð í kvöld. Hef aldrei eldað humar, verður spennandi að prófa. Humarinn er keyptur beint af fiskimanninum og sem betur fer tók norski Per hann fyrir okkur og stakk þeim snarlifandi í fyrstinn hjá sér. Mér hefði óað við að koma þeim lifandi í pottinn, held ég! Annars er ótrúlegt hvernig maður getur vanist nánast öllu. Hafið góða helgi elskurnar, KNUS

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Ég brá mér í bæinn til að kaupa baðvigt. Hef um skeið haft lúmskann grun um að jamaicanskt hreyfingarleysi væri farið að setja sig "på sidebenene" á mér og vildi ganga úr skugga um hversu alvarlegt vandamálið væri. Ég sá um daginn, að þeir höfðu vigt hjá "lokal discount" búðinni hennar Vivet og þangað fór ég. Það tók mig 5 mínútur að ákvað að kaupa vigtina og 55 mínútur að borga hana. Ég hef aldrei verið eins nálægt að missa þolinmæðina yfir innfæddum rólegheitum eins og þarna. Þvílíkt og annað eins. Ekki færri en 8 manneskjur komu nálægt þessum kaupum og þegar ég á endanum komst út með vigtina og kvittunina, var kassinn með vigtinni með einn stimpil og tvo krossa og kvittunin með þrjá stimpla og fjóra krossa. Framkvæmdahraðinn er slíkur að manni fallast algjörlega hendur þegar hugsað er um hvað þeir eiga rosalega mikið ólært. En heim kom ég með vigtina og kom henni í gang. Með samblandi af spenningi og angist steig ég svo á gripinn; og fékk algjört áfall! Áttaði mig nú samt fljótt á að hún sýndi pund en ekki kíló,
EN SAMT!!! Sigfús kom heim rétt í því sem ég var að missa stjórn á mér og bjargaði snarlega geðheilsu minni (ekki í fyrsta og örugglega ekki síðasta skiptið!) með því að benda mér á að það ætti ekki bara að deila með tveim, heldur líka að draga 10% frá. Og ekki nóg með það, hann sá að hægt var að breyta fyrirbærinu þannig að það sýndi kíló en ekki pund. Öllu skárra, EN SAMT!!! Svo nú er tekið extra langur tími á göngu/hlaupabandinu og bætt við ferðum í lauginni! Verst að nú fer mig að vanta eitthvað til að lesa á bandinu, þar leyfi ég mér að lesa eitthvað annað en um heilabilun! Þær voru nefnilega ekki margar bækurnar sem lifðu af túrinn yfir hafið í vor. Svo nú er bara að puða og vona að eitthvað af þessu beri árangur og að nýja baðvigtin verði mér smámsaman vinsamlegri!! KNUS til ykkar allra.

mánudagur, ágúst 14, 2006

Ég fór að hitta innrömmunarmanninn í dag, þetta er húsið hans. Lítur ekki svo ílla út á mynd, er það nokkuð! Hann græddi nú ekki mikið á síðustu viðskiptum við mig, Vivet sagði mér að bara glerið hefði kostað 900 dollara og hann tók 1000 dollara fyrir inrömmunina. Enn nú er hann búinn að læra af reynslunni og hækkaði verðið um 50%, þannig að nú tekur hann 1500 fyrir stykkið! Samt voða ódýrt því þetta eru stórar myndir. Hann var ekkert fyrir að láta taka af sér mynd, var hræddur um að þetta færi í eitthvert "magazin". Hann var sko búin að frétta hjá Vivet að ég ætti tölvu! En ég samdi við hann um, að ef handverkið yrði eins gott og síðast, myndi ég borga pínu meira og svo fengi ég að taka af honum mynd. Þetta var innsiglað með jamaicönsku handabandi. Annars er það helst að frétta frá Ironshore, að löggann skaut mann hérna í næstu götu um helgina. Þetta var einn af þessum "vondu mönnum" eins og Barry kallar það, þ.e.a.s. þjófur. Það er ekki tekið á þeim með neinum silkihöndum, ekkert verið að spyrja hvaða erindi þeir eiga inn á ókunnuga lóð, eða reynt að tala þá til, þeir eru hreinlega skotnir á staðnum. Hafi aðstandendur viðkomandi ekki sótt líkið innan sólarhrings (hann bara liggur og bíður), fer allt eftir því sem Barrry sagði, "vondi maðurinn" er brenndur og öskunni dúndrað einhversstaðar á afvikinn stað. En í þessu ákveðna tilfelli var einhver sem lét sig málið varða, allavega var líkið fjarlægt þegar líða fór á morguninn. En um leið hefur aðstandandinn þurft að borga lögguni fyrir kúluna sem þjófurinn féll fyrir, það er sko ekkert verið að gera þetta ókeypis. Já, svona gerast nú kaupinn á eyrinni! En annars ætti ég nú ekki að vera að segja svona sögur, nóg er nú samt leiðindaumtalið um Jamaica á Norðurlöndunum. Og eins og þið vonandi hafið séð, er mestmegnis gott fólk hér. Auðvitað eru "vondir menn" á Jamaica eins og annars staðar. Farið vel með ykkur.

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Ég var að skrifa fyrstu setninguna í síðasta kaflanum. Í síðasta kafla bókarinnar veltir Kitwood fyrir sér, hvaða þýðingu breytingin á viðhorfum til fólks með heilabilun og þeirra einkenna sem fylgja sjúkdómunum hafa fyrir menningarlegt samfélag okkar. Á ferðalaginu sem ég verið á með Tom Kitwodd síðustu vikur og mánuði, hef ég stundum velt fyrir mér hvernig honum hefði liðið með þær (litlu) breytingar sem hafa orðið síðasta áratuginn. Þegar ég sjálf hef verið hvað mest leið yfir hversu skammt við erum komin, miðað við vonir Kitwoods þegar hann skrifar bókina fyrir 10 árum, hef ég hugsað að það var kannski eins gott að hann lifði ekki að upplifa það. Hann hefði orðið svo sorgmæddur! En nú er ég (næstum!) viss um að ég klára þetta geggjaða verkefni sem ég ákvað að taka að mér; bókin skal koma út á Íslandi eftir áramótin!! En það er mikil vinna eftir enn, ég er sko ekki aldeilis komin í neitt frí!

Ég þurfti að bregða mér á læknaklínikkina í dag. Það er komin sýking í nokkur af fjölmörgum moskítóbitunum á mér. Ég var svo drjúg með mig fyrst eftir að ég kom aftur til Jamiaca, fékk engin bit í næstum hálfan mánuð og hélt að nú væri ég orðin ónæm fyrir kvikindunum. En nei, ónei! Það tók þær bara þennan tíma að fatta að ég væri komin aftur. Og þvílík græðgi og þvílík matarlyst. Ég geri allt sem mér er mögulegt til að halda þeim frá mér, en án árangurs. Núna var ég meira að segja með bit í hlustinni! Já, inn í hægra eyrað á mér hafði einni tekist að bora sér og ná í smá blóðdropa. Sömuleiðis hefur annar þumallinn orðið fyrir árás og ég nenni ekki einu sinni að tala um hvernig fótleggirnir eru. Ég sef undir neti, ég er sprayuð í bak og fyrir, en allt kemur fyrir ekki. Og þó ég færi nú í öfgarnar og klæddi mig í síð föt með löngum ermum; þá eru alltaf haus og hendur "útbyrðis", svo það múslimskar fatavenjum myndu ekki hjálpa neitt. Hvernig ætli það sé annars; ætli múslímskar konur fái moskítóbit? Þetta verður sjálfsagt bara að vera hluti af lífinu mínu á meðan ég er hér á Jamaica; og ég vel heldur að fara á antíbíótikakúr þrisvar til fjórum sinnum á ári, en að fara að konventera til múslímskar trúar!
Hafið það sem best elskurnar, KNUS

laugardagur, ágúst 12, 2006

Ég kunni nú ekki við að vera alltaf að taka myndir í veilsunni í gærkvöldi, það hefði verið eitthvað svo voða túristalegt! En undir lokin fasst mér ekki verða eins áberandi svo ég smellti nokkrum! M.a. af þessarri svaka flottu söngkonu, hún gaf sko ekkert eftir og lét bara svitann streyma! En þessi veisla var mjög skemmtileg, við hittum fullt af áhugaverðu fólki og umhverfi og matur frábær. Þetta fór allt fram undir berum himni og sem betur fer var þetta eitt af fáum kvöldum þessa kviðuna sem ekki rigndi. Við sátum við borð með öllum helstu gimsteinasölunum og konum þeirra.

Flestir eru af indversku bergi brotnir, en eru jamaicabúar. Allt voða notalegt fólk og auðvelt að vera með. Beint á móti mér sat eiginkona eins gimsteinamannsins (og tengdadóttir annars!) og það lá nú við að ég þyrfti að setja upp sólgleraugun til að geta horft á hana. Þvílíkir demantar ssem konan bar! Ofboðslega fallegt hálsmen og þessir svaka eyrnalokkar, allt þakið demöntum sem glitruðu eins og Svarti Demanturinn í Kaupmannahöfn þegar hann er upp á sitt besta. Ég gat ekki orða bundist og hrósaði skartinu, hún sagði mér þá voða hreykin, að stóra demantinum sem hékk neðst á lokkunum gæti hún skipt út og sett aðra og öðruvísi demanta á. "Smart" sagði ég imponeruð! Sá sem stóð fyrir veislunni er þingmaður og stjórnarandstöðuráðherra ferðamála á Jamaica. Nú eru kosningar framundan á næstu mánuðum og þeir ætla sér náttúrulega að komast í alvöru stjórn. Forsætisráðherraefnið þeirra var þarna og hélt tölu. Með eindæmum lítil útgeislun frá manninum. Hann hefur ekki séns í hana Porcíu! Hann var svona blanda af Steingrími Hermannssyni og Kjartani Jóhannssyni, þó er/var Steingrímur mun huggulegri!!! Handtakið var slappt og það sem ég skildi af ræðunni hans var hálfleiðinlegt! Ég hitti ma. þarna konu sem er brúðkaupsskipuleggjandi og var afar áhugsöm þegar ég sagði henni að við hefðum mér vitanlega ekkert svoleiðis á Íslandi. "Eru mennirnir þar myndarlegir" spurði hún (er greinilega á útkíkki eftir mann handa sér!). Ég benti henni á Sigfús og sagði að það þyrfti nú ekki frekar vitnanna við og með það sama bað hún um símanúmerin okkar! Kannski á hún eftir að skipuleggja brúðkaup á Íslandi, þó ekki væri nema sitt eigið! En í gærkvöldi upplifði ég enn og hvað jamaicabúar eru þægilegt fólk, vingjarnlegt og óhemju kurteist. Sumsé, þetta var afar velheppnað kvöld og skemmtilegt þar að auki.

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Í dag, 10. ágúst er alþjóðlegi Barnagrobbdagurinn, " The Childboast Day". Stofnfundur dagsins var haldinn í dag að Taylor Road 1080, #3 og hófst hann kl. 6.30 að staðartíma. Fremur var fámennt á fundinum, en það er nú bara vegna þess að þetta var ákveðið með svo stuttum fyrirvara og því vannst enginn tími til að kynna stofnun dagsins og auglýsa stofnfund. Ómeðvitaður undirbúningur dagsins hefur verið langur, enn er þó eftir að stetja saman markmið dagsins í smáatriðum, en yfirmarkmiðið var morgunljóst, enda sólin rétt að skríða yfir fjallstoppana.
Tilgangur dagsins er að minna alla foreldra á að grobba sig af börnunum sínum, ekki bara þann 10. ágúst ár hvert, en að gera það sí og æ og draga ekkert undan! Og mikilvægt er að það verði gert á þann hátt að öllum sé ljóst, þar með talin börn viðkomandi, að foreldrar eru sannfærðir um að þeirra börn séu bestu einstaklingarnir sem fæðst hafa á þessarri plánetu. Séu einhverjir foreldrar í vafa um hverjar eigi að vera þeirra grobbáherslur, bendir stofnfundurinn þeim á að skoða í skjóðu minninganna og draga upp þau atriði sem án nokkurs vafa eru þar og geta verið grunnur persónulegra grobbáherslna. Unnið er að hönnun Grobbkorta, bæði prentuðum og elektróniskum, formi fyrir grobbsögur sem til að byrja með geta birtst á Veraldarvefnum og í Mogganum (síðar er gert ráð fyrir alþjóðlegri dreifingu gagnanna á 27 tungumálum) stöðluðum frösum (á jafnmörgum tungumálum) fyrir foreldra án hugmyndarflugs, auk þess sem hafinn er undirbúningur að tímariti sem mun bera heitið" The Childboast Magazin". Fréttablaðið hefur sýnt áhuga á hlutabréfum í tímaritinu. Heimasíða barnagrobbdagsins verður opnuð innan skamms. Ýmislegt annað er á döfinni, en byrjað verður á alheims hvatningu til allra foreldra: "Verið grobbin af börnunum ykkar".
Undir áhrifum af gífurlegum áhuga sem fram kom á stofnfundinum, ríð ég á vaðið:



Þetta eru börnin mín, Ari Theodór og Guðbjörg Reykjalín. Einstaklega myndarlegir og velgerðir einstaklingar, með skýra vitund um uppruna sinn - þrátt fyrir að bæði búi utan Íslands- eins og sést á þessarri mynd; Ari í íslenskum hátíðarbúningi karla og Guðbjörg í eigin hönnun af íslenskum klæðnaði kvenna. Og svona líka bjart yfir þeim báðum!













Ari minn sem býr í Noregi er giftur Katherine Hansen og saman eiga þau þessa líka yndislegu tvo drengi, Brynjar Örn og Bjarka Örn Arasyni. Ari er svakalega duglegur og afkastamikill, enda hefur verið leitað eftir honum til efiðarra stjórnunarstarfa og núna er hann nýlega fluttur til Lofoten í Noregi þar sem hann er útgerðarstjóri hjá Aker Seafoods - stærstu togarútgerðinni í Noregi.


"Ari Theodor Josefsson, managing director at Sæplast Alesund, Norway, has decided to accept a new position as the fleet director for the northern division of Aker Seafoods ASA" eins og skrifað var þegar hann var ráðinn. Hann á örugglega eftir að gera góða hluti þarna hann Ari minn! Svakalega er ég grobbin af honum!






Guðbjörg mín stóð fyrir opnun vinnustofu í Kaupmannahöfn fyrr á þessu ári. Ásamt nokkrum vinkonum sínum rekur hún vinnustofuna og núna líka verslun þar sem framleiðsla þessarra ungu athafnakvenna er seld. Allar hafa þær sinn eigin stíl á hönnun kvenfatnaðar og ýmissa fylgihluta. Stíll Guðbjargar er einstaklega frumlegur og skemmtilegur. Heimasíðan þeirra er: www.moegtoej.dk Innan tíðar opnar Guðbjörg sína eigin heimasíðu: www.greykjalin.com
Fyrirtækið ber það frumlega heiti: "Møgtøj"
Einmitt núna þessa helgi tekur Guðbjörg þátt í fystu tískuráðsefnu sinni, en í tilefni stóru Tískuvikunni í Kaupmannahöfn var henni og stallsystrum hennar í Møgtøj boðið að vera með í tískuráðstefnunni Gallery, sem Politiken stendur fyrir. Nafn Guðbjargar stendur í upptalningu yfir þátttakendur ráðstefnunnar undir "Brands" á heimasíðu tískuráðstefnunnar www.gallery.dk
Þetta er kynnt svona:
"Folkene bag Gallery har samlet en række designere, som de mener er de førende og mest spændende designere, modeugen har at byde på". Ekkert smáflott hjá hanni Guðbjörgu minni, enda er hún að gera afskaplega spennandi hluti. Svakalega er ég grobbin af henni!

En það er ekki bara að bæði Ari og Gubjörg séu að gera góða hluti í faglegu lífi sínu, þau eru bæði einstaklingar sem hafa hæfileikann til að stuðla að betri heimi fyrir okkur hin. Með félagslegum þroska sínum og empatískum skilningi á öðru fólki gefa þau frá sér góða strauma og velvild. Ég er sálum þeirra þakklát fyrir að velja mig sem mömmu í þessu lífi. Ég er svo grobbin af þeim!

Ég óska öllum foreldrum til hamingju með Barnagrobbdaginn!

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Hefur einhver ykkar reynt að kaupa veislufatnaði í 35 stiga hita? Fara inn í koftkælingarlausa verslun sem selur allt frá nöglum og bíldekkjum upp í glitrandi samkvæmisklæðnað og hreinlega allt þar á milli? Fara með stakk af undarlegum síðkjólum inn í búningsklefa sem er svo lítill að ekki er hægt að skipta um skoðun þar, hvað þá föt? (og vera í miðju bloggi þegar rafmagnið fer? en þetta var nú utan dagskrár!) Og á meðan þið reynið að troða gerfiefninu yfir kósveitt skinnið, heyrið þið Miss Moniku hundskamma afgreiðslufólkið fyrir allt og ekkert? Ef þið viðið hvað ég er að tala um skiljið þið að eftir 5 klukkustunda árangurslaust "sjopping" var ég örmagna! Ef þið hafið ekki prófað þetta, þá við ég bara segja; verið ekkert að prófa!
En búðarrápi okkar Moniku lauk án teljandi árangurs, nema ef vera skildi að ég kom á alveg nýja staði í bænum og það var auðvitað áhugavert og svo kynntist ég alveg nýjum hliðum á Miss Moniku! En það fara nefnilega allar konur með konum til USA til að versla föt! Til Miami eða New York amk. tvisvar á ári, svo ég er bara hallærisleg að vera að kaupa föt í MoBay!! En á einum staðnum var reyndar kjóll sem var ekki alveg vonlaus, held ég! Allavega ákvað ég að kaupa hann þrátt fyrir að hann væri alltof víður, svona hér og hvar. Ég keypti hann aðallega vegna þess að Monika sagðist þekkja klæðskera sem gæti reddað þessu (mér fannst áhugvert að sjá hvernig það væri!), kjóllinn var mjög ódýr og svo var ég farin að vorkenna stelpugreyinu sem var að hjálpa mér, bæði fannst henni svo leiðinlegt að eiga ekkert handa mér og svo var Monika búin að skamma hana svo mikið! Klæðskerann fundum við svo upp á hanabjálka í hálfhrundu húsi og þar þurfti ég enn einu sinni að skipta um föt og að þessu sinni út í horni á saumastofunni sem hefur verið ca. 3x2 metrar að stærð. Monika tuðaði við manninn á meðan hann strikaði bókstaflega allann kjólinn (sem er svartur) með blárri krít. Jæja, hugsaði ég, þetta hefur allavega verið upplifun, því kjóllinn hlýtur að eyðileggjast á þessu. En maðurinn bar sig vel og sagðist koma með kjólinn heim til mín á föstudaginn. Flott þjónusta, hverju sem öðru líður! Og ekki verður kostnaður við breytingu til að setja mig á hausinn; 300 jamaicadollara (ca 300 ísl. kr./30 danskar) tekur hann fyrir og sjálfsagt þarf hann að spretta mest öllum kjólnum upp, þar á meðal rennilásnum! En ég held ekki að ég eigi eftir að nota þennann kjól mikið, allavega ekki á laugardaginn í fínu veisluna. Svo vandamálið er óleyst; í hverju á ég vera á laugardaginn!!!
En mikið svakalega var gott að skella sér í laugina þegar heim kom!

þriðjudagur, ágúst 08, 2006



Þjóðhátíðardagur Jamiaca var haldinn hátíðlegur á Taylor Road í gær, þá voru 44 ár síðan landsmenn kusu sig frjálsa frá Bretum. "Bretarninr voru dauðfegnir að losna við okkur" sagði Monika! Ég vissi fyrst í gær að Cayman eyjarnar voru undir Jamaica þangað til 1962, þeir völdu aftur á móti að vera áfram undir bretum og hafa því ekkert með Jamaica að gera lengur. En við fögðuðum frelsi Jamaica með 3 nágrönnum okkar og borðuðum íslenskann saltfisk, sem þeim þótti afskaplega góður. En fannst samt svolítið skrítið að hann var beinlaus. Þeirra saltfiskur er sko ekkert nema bein!

Ég er loksins búin að finna út úr hvað "dýrið" í forstofunni er. Það sem ég hélt að væri einhverskonar engispretta, eða allavega eitthvað skordýr; þetta var froskur! Pínulítið kvikindi sem gefur frá sér þessa svakalegu smelli! Okkur tókst að koma auga á einn sem kúrði undir burknanum, allt í einu sá ég hann og horfðist í augu við tvö kolsvört augu á stærð við títiprjónshausa. Ég gusaði úr eiturbauknum ógurlega og það varð dauðaþögn (í orðsins fyllstu merkingu!!). En ekki leið á löngu áður en smellirnir hófust að nýju, það var bara kominn annar! Það væri að æra óstöðugari manneskjur en okkur Sigfús, að reyna að slást við þessi kríli, þau eru í þúsunsavís á þessum tíma. Þetta fylgir víst regntímabilinu. Tommi boy heldur mér vel við efnið, þetta mjakast hjá mér og sé ég nú fyrir endann á fyrstu törninni sem er sjálf þýðingin. En eftir að hafa barist við eina málsgrein (10 línur!) í hálfann dag, verð ég að viðurkenna að hugarþreyta gerði vart við sig! "Hann er nú bara ekki í lagi ,maðurinn" tautaði ég margoft og skildi enn og aftur ekkert í sjálfri mér að hafa byrjað á þessu verkefni! En svo fann ég "pointið" í þessu og fylltist bjartsýni: kannske tækist þetta bara að lokum! Við Sigfús erum boðin í voða fína veislu um næstu helgi, maður þarf að vera rosalega fínn, síðkjólar "og allers". Ég á ekkert svona, bara fullt af skóm (þar á meðal "landstjóraskórnir frægu!) en það er víst ekki nóg. Svo að Miss Monika ætlar að fara með mig í bæinn á morgun og finna "anstændig" föt handa mér! Þar verður nú eitthvað skrítið, hún klæðir sig svolítið konulega hún Monika!


mánudagur, ágúst 07, 2006

Þegar við Sigfús heyrðum fyrst talað um "Reggae Sunsplash" var ekki spurning um að við færum þangað. Þetta er nú einsu sinni "stærsta reggae-festival í heimi" eins og þeir auglýstu hátíðina og sögðu m.s. að þetta være " il festival per eccellenza "!! Þetta átti aðallega að halda í Ane-bay sem er ca. 1,5 tíma keyrslu frá MoBay. Við Sigús erum nú ekkert sérlega "festivalvön", fyrir utan Langelandfestivalið sem ég fór einu sinni á, er Bindindismótið í Vaglaskógi forðum (undir eftirliti Ellu frænku!!) það sem ég hef komið næst slíkum samkundum. Sigfús var algjör byrjandi hvað þessa menningu varðar! Við drifum okkur af stað sinnipartinn í gær og í ljósaskiptunum keyrðum við inn á hálftóm bílastæði svæðisins. Ja, hérna, það eru engar manneskjur hérna sögðum við, þetta er greinilega algjört fíaskó! Við höfðum á tilfinningunni að við værum einu gestirnir og fannst verðirnir voðaglaðir að sjá okkur! Strangt eftirlit var við innganginn, bakpokinn skoðaur nákvæmlega og málmleitartæki rennt yfir okkur í bak og fyrir. Reggae Sunsplash bauð okkur velkomin og inn á svæðinu, sem var einstaklega vel skipulegat og huggulegt í alla staði. Okkur fannst nú fremur lítið um að vera og spurðum hverju það sætti. Með því "blottuðum" við reynsluleysi okkar á úthátíðum; það byrjaði ekkert að gagni þarna fyrr en um/eftir miðnætti, en svo var líka haldið áfram alla nóttina og þeir frægustu og bestu komu fyrst á sviðið undir morgunn! Þennan sama morgun hafði UB40 spilað til kl. 10 .00!

En smátt og smátt fór að koma meira líf í þetta og minni spámenn fóru að stíga á sviðið. Það var náttúrulega komið svartamyrkur, en þessi mynd er af litla sviðinu sem er byggt á litlum tanga út í sjóinn, sitt hvoru megin við það veltust öldurnar upp í sandinn. Ekkert smáflott! Við sátum góða stund og hlustuðum og greinilegt var að flytjendur urðu betri og betri eftir því sem tíminn leið. Við vitum núna, að næsta ár verðum við að gera þetta öðuvísi; undirbúa okkur fyrir vökur og fara á laugardagskvöldinu, því þá eru flottustu listamennirnir!

En þetta var mikil upplifun, góð músík, fallegt umhverfi og góð stemning. Meira að segja voru steinarnir á ströndinni flóðlýstir í ýmsum litum, sem gerði stemninguna ennþá magnaðri og æfintýralegri. Lyktin af marijuna blandaðist sjáfarilmi og jerkkryddum og allir voru afslappaðir og sælir að sjá! Á leiðinni heim (undir miðnætti) mættum við þvílíkri strollu af bílum, það var fólk sem vissi hvenær á að mæta á reggaefestival! Og nú vitum við líka betur!


sunnudagur, ágúst 06, 2006

Rafmagnið hefur verið í afskaplegu ójafnvægi upp á síðkastið, í dag datt það út snemma í morgun og var rétt í þessu að koma aftur. (kl. 15.00) Það var orðið ansi heitt og sveitt í kotinu okkar, svakalega sem air-con´ið er mikilvægt! Svo er náttúrulega takmarkað hvað tölvan getur gengið lengi á batteríinu, þannig að langtíma rafmagnsleysi kemur ílla við!


Brian nágranni kikkaði við í gær, þá var Sigfús á fullu í eldhúsinu og ég sat við tölvuna. Yfirleitt er það nú ég sem elda, en í gær var sumsé undantekning! Brian var greinilega voða hissa og horfði með áðdáun á Sigfús, en ég var ekki alveg viss hvað augnaráðið sem hann sendi mér þýddi! Á morgun er þjóðhátíðardagur Jamaica (Independentday) og við erum búin að bjóða 3 innfæddum nágrönnum í mat, í íslenskann saltfisk. Saltfiskur er (eins og ég hef víst sagt fyrr!) þjóðarréttur jamaicabúa, en framreiddur á töluvert annann hátt en við þekkjum; brimsaltur, soðinn og borinn fram með soðnum banönum og acci, og það sem meira er; þetta er morgunmatur hjá þeim. Nú ætlum við að lofa þeim að smakka hvernig við gerum. Ég er hálfómöguleg í dag, er búin með prince-sígaretturnar mínar og mér finnst bara ekki Marlboro nógu góðar!! Hvað er til ráða?

föstudagur, ágúst 04, 2006



Einstaklega "kuselig" samvera með frændum okkar norðmönnum á svölum Relax Resorts í gærkvöldi. Norskur lax, norsk síld og norskur snaps! Að ógleymdum krabbaklónum sem Per var búinn að tilreiða á fagmannlegann hátt. Hann er kominn í samband við innfæddann krabbafangara, sem lofar að sjá honum - og okkur Sigfúsi - fyrir krabba og humri. Mér skilst að þetta sé eins og í bíómyndunum, maður fær þessi dýr snarlifandi heim á eldhúsbekk og svo er annaðhvort að koma þeim í pottinn í hvelli eða henda þeim í frystinn og loka kyrfilega á eftir þeim! Það verða einhver átökin reikna ég með, ég á engann stórann pott! En ég er alveg tilbúin að prófa þetta og bíð spennt eftir sendingunni! Brian nágranni kom áðan svona líka hróðugur með auglýsingu um Skype sem vinur hans í USA hafði sent honum. Mér tókst heldur betur að "imponera" hann þegar hann sá mitt Skype! En þetta Skype fer greinilega um eins og eldur í sinu! Er í smávandræðum með hljóðið hjá mé, það er svo svakalega lengi á leiðinni, en það virkar!


fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Þá er Barry mættur aftur í vinnuna eftir maraþon-jarðarfarar-undirbúning. Það er sko meira en að segja það að standa fyrir slíkri athöfn hér um slóðir. Sem betur fór, fyrir Barry, þá var blessuð konan "bara konan hans pabba" sem átti sjálf 2 börn sem komu Barry til aðstoðar. En þetta er búið að vera næstum þriggja vikna törn, sem lauk með jarðarförinni í fyrradag. Þegar loksins var búið að taka gröfina, þurfti (eins og ég held ég hafi sagt ykkur áður) að steypa fóðringu í hliðar og botn og þegar það loksins þornaði voru hin ýmsu tákn og setningar máluð á steypuna.´Á meðan karlmenn í þorpinu hjálpuði Barry við þetta, var líkvaka í húsi þeirrar gömlu (hún var sjálf á daggjöldum í leiguboxinu), þar var sólarhringsvakt og eftir því sem mér skildist stanslaust át og líkjördrykkja! Það þarf nú eitthvað til, hugsaði ég, þetta er a.m.k. 14 daga úthald fyrir mann og annan! Enda sagði Barry mér að allir jamaicabúar með sómatilfinningu söfnuðu (alla æfina!) fyrir jarðarförinni og þeir sem ekki ættu fyrir líkvöku og ættu ekki vini eða fjölskyldu sem gæti borgað, þeir væru sko í vondum málum! Kæmust ekki á "góða staðinn" og væru bara brenndir og þeim hreinlega hent! verulega vondir menn, sagði Barry, sem lögreglan þyrfti að skjóta ættu ekki von á góðu. Ef einhver fjölskylda var fyrir hendi, var henni boðið að taka líkið, en þá þurftu þau líka að borga löggunni fyrir kúluna sem drap "vonda manninn". Þannig að þeir sem eiga nóg með sig, láta lögguna um þetta og þá er náunganum hreinlega hent! Ja, þvílíkt.
En allavega tókst Barry og félögum að klára undirbúninginn í tíma og fólk flykktist að (enda frídagur og greinilega nóg að borða!) Þá vildi nú ekki betur til en svo að gáttir himinsins opnuðust og rigningin eins og hún gerist best hér á þessum tíma, helltist yfir syrgjendurnar.
Svæðið er ekki grasi vaxið eins og hérna sagði Barry og potaði í iðagrænt grasið yfir utan dyrnar hjá mér, það er bara mold. Hljómsveitin sem átti að spila við gröfina varð frá að hverfa með stóru trommurnar sínar, ekki viðlit að leggja þær frá sér. Þeir sem ætluðu að láta sig hafa það að fara að gröfinni sukku í leðjuna og sumir sátu fastir. En þetta fór allt vel, þeir komu þeirri gömlu í gröfina og komust í hús þar sem nóg var að bíta og brenna. Nú var búið að bæta bjór ofan í líkjörinn og allir voru sáttir. En eins og Barry sagði alvarlegur í bragði; "henni var nær, hún valdi að deyja á regntímanum". Orð að sönnu!

miðvikudagur, ágúst 02, 2006



Ég fór á voða skemmtilegann markað í dag. Þetta var í Falmouth, litlum bæ sem er ca. 30 mín. keyrslu frá MoBay. Þetta var svo greinilega "heimamannamarkaður", ég og norðmennirnir þrír vorum einu útlendingarnir þarna. Mest var þetta fatnaður og skór, en líka gitt og þetta "gagnlegt" dót til heimabrúks. (pottar, pönnur, druslur, sjámpó og saltfiskur svo fátt eitt sé nefnt!) Þrátt fyrir mikinn mannfjölda á gífurlega stóru svæði, var allt afslappað og þægilegt og það var ekki að sjá að þeim fyndist við eitthvað öðruvísi! En þvílíkt róðarí! Þarna ægði öllu saman og troðningarnir á milli básanna voru eitt drullusvað eftir rigningar síðustu dagana. Við versluðum lítið sem ekkert, þetta var nú ekki alveg okkar stíll! Þó voru þarna nokkrir skór sem ég hefði alveg getað hugsað mér! En það var gaman að sjá hvað fólkið var að kaupa. Við fengum þannig smá innsýn í daglegt líf og þarfir fólksins í bænum og verðlagið var svolítið annað en það sem sést "down town"!!

Í gær var almennur frídagur á Jamaica, "afhlekkjunardagurinn" . Þennan dag 1844 urðu jamaikanskir þrælar frjálsir. Þetta er greinilega MIKILL frídagur, það var hvergi opið og enginn maður með sómatilfinningu lét sjá sig við störf af nokkru tæji. Eftir viku er svo þjóðhátíðardagurinn þeirra, 1962 varð Jamaica sjálfsætt ríki í Breska sambandslýðveldinu. Verður fróðlegt að sjá hvort það er eins rosalega mikill frídagur og var í gær.

Brúðhjónin Caroline og Jimmy buðu til BYO veislu á ströndinni í gær. BYO þýðir "bring your own"!! þ.e. allir komu með sitt kjöt sem Caroline grillaði með miklum tilfæringum og með dyggri aðstoð Olivers sem var orðinn vel sveittur undir lokin! Því miður var ekki nógu gott veður, rigndi öll ósköp rétt þegar við vorum að byrja, en auðvitað var áfram hlýtt og notalegt.

Einn af þeim innfæddu kom með þær stærstu rækjur sem ég hef á æfinni séð, ca. 15-20 sentimetrar; og þetta voru rækjur! Ekki minihumar eins og sumir héldu!
Afskaplega huggulegt og svo kom Óli íslendingur með pakka frá Hafdísi, en hann var að koma úr fríi á Íslandi. Hrískúlur og hvaðeina! Namm! Takk Hafdís mín! Ætla að bregða mér til næsta bæjar á eftir, var búin að lofa norðmönnum sem eru hér í heimsókn að sýna þeim eitthvað í nágrenninu. Það er víst einhver rosa markaður þar á miðvikudögum. Verður fróðlegt að sjá.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?