.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Mér er nú sama hvað frænka mín hún Auður segir; Hún var brúnni þegar hún fór, en þegar hún kom fyrir viku! Þau eru semsé farin áleiðis heim Flókagötufjölskyldan. Þessi vika hefur þotið áfram, hefði verið gaman að hafa þau lengur, það var svo gott og skemmtilegt að vera með þeim. Takk elskurnar fyrir komuna og velkomin heim!
Sigfús fór nánast samtímis þeim á völlinn, hann var að fara til Kingston þar sem hann verður á fundi snemma í fyrramálið. Svo það er tómlegt á Taylor Road núna, allir farnir! þetta verður í fyrsta skiptið sem ég er ein heima yfir nótt, ágætt að vera komin með þjófavarnarkerfið!






Fórun á Húsbátagrillið í gærkvöldi, rompunch- ið var í sterkara lagi! En maturinn æðislegur eins og venjulega. Ótrúlegt hvað þessi einhenti kokkur getur gert!
Auður pantaði sér humar, en varð að faraá 4 fætur og velja humarinn sinn sjálf. Dökku strákunum leist voða vel á hana!
Þrátt fyrir strangt prógramm, var líka tími til að "taka á sér lappirnar" og lakka neglur.
Nú eru þau að pakka, þessar elskur og leggja í ´ann eftir nokkra tíma. Það er búið að vera meiri háttar gaman og ljúft að hafa þau hérna.

þriðjudagur, janúar 30, 2007





Við systurnar á úti-jazz-hátíð














Mæðgurnar "pósa" á ströndinni í Negril.
















Flókagötufjölskyldan baðar í heita og mjúka Karabíska hafinu















Slappað af á "kofa"verandanum í negril












Auður er farin að brúnkast, en ekki alveg nóg - finnst henni!










laugardagur, janúar 27, 2007










Á meðan Nonni og Auður prófuðu "jelly" fór Hafdís í tásumeðferð. "lét taka á sér lappirnar" eins og það heitir!







Grillaður humar í matinn. Stór og góður, Elli!













Flókagötufjölskyldan á jazzfestival.













Ef vel er að gáð, má sjá Kenny Rogers þarna í horninu. Hann fór á kostum og gerði mikla lukku hjá innfæddum, er greinilega vinsæll hér!










Auður ætlar sko að verða brún!


föstudagur, janúar 26, 2007



Er búin að eiga í vandræðum með bloggið, en virðist vera OK núna. Hafdís, Nonni og Auður eru hjá okkur í Mobay, komu á miðvikudaginn og verða í viku. Ekkert smá gaman að hafa þau!


Ég vil auðvitað sýna þeim eins mikið og hægt er að komast yfir á svona stuttum tíma og prógrammið er búið að vera býsna strangt hjá þeim, þau fá varla svefnfrið!




Þarna eru Nonni og Auður að koma úr fossaklifri, rosa ánægð með sig enda búin að príla 300 metra upp eftir fossunum.

Við hafdís hlupum upp tröppurnar - jafn marga metra - til að geta myndað. Það mátti ekki á milli sjá hver var votastur, við Hafdís eftir hlaupin eða þau sem voru að koma upp úr fossunum!










Mæðgurnar njóta blíðunnar með skemmtiferðaskipið í baksýn












Auður smakkar "jellynetu".










En nú erum við að drífa okkur á jazzhátíðina, blogga meira á morgun með fleiri myndum. KNUS

Efnisorð:


það eru einhver bansett vandræði með að komast inn og blogga, virðist eins og ég þurfi að "uppdatera" síðuna mína. Ef allt fer fj... til, opna ég nýtt blogg sem þá verður : svavaaradottir.blogspot.com. Bless í bili

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Ja, hérna! Ég hef ekki bloggað í fleiri daga og enginn reagerar?! Eru allir búnir að missa áhugann á okkur hérna í MoBay?Það er búið að vera í ýmsu að snúast hjá okkur, mikið að gera í tölvuvinnunni m.m. og bloggið hefur því setið á hakanum.

Eitt af því sem hefur tekið tímann minn var þjófavarnarkerfið sem við létum setja upp hjá okkur á dögunum. Það var nú ekki seinna vænna, við búin að búa hérna í ár og höfum ekkert gert í þessu fyrr en nú. Það var svosum engin sérstök ástæða fyrir að við létum verða af þessu, en sjálfsagt´ágætt að hafa svona. Lúðurinn sá arna er út á þvottaverandanum og ég get lofað ykkur að það heyrist ef einhver reynir að koma óbo'inn inn! Vekir með léttu upp mann frá dauðum!

Svo fór ég í jamaicanskt bílpróf. Það var létt verk og löðurmannlegt, aðalega fólst það í að sitja á bekk og bíða á meðan fyllt voru út hinir ýmsu pappírar. Þó var ég látin lesa um afhverju maður ætti að hafa ljós á bílnum ef maður kreyði að nóttu til og svo sýndi hann mér umferðamerki og spurði hvað þetta héti. Ég svaraði eins og satt var að ég hefði aldrei séð þetta merki og vissi því ekki hvað það þýddi. Löggan lét það gott heita en sagði mér svo að skrifa "I live Jamaica" á blaðið. Það gerði ég auðvitað gjarna, en skildi nú ekki almennilega tilganginn. Með það var ég komin með jamaicanskt bílpróf! Svíarnir tveir sem voru í sömu erindagjörðum og ég þurftu að bakka 30 metra, en þurftu aftur á móti ekki að þekkja neitt umferðamerki. Þeir fengu líka prófið.

Eftir tvo tíma fer ég á völlinn að sækja Hafdísi, Nonna og Auði seme ru að koma í jheimsókn. Hlakka ekkert smá til að fá þau! Jazzgestivalen er að byrja í dag, allt fullt af fólki í bænum og mér skilst að ómögulegt sé að fá gistingu í MoBay eða nágrenninu. Verður örugglega fjör. Hafið það gott elskurnar, KNUS


fimmtudagur, janúar 18, 2007


Eftir uppblásturinn á boltanum frá Ara og co, er æfingarhornið mitt á Taylor Road farið að líkjast proffs fitnesscentri. Í hvíta skápnum er meira að segja að finna lóð og teyjubönd. "Jaja, man"! En ég fer nú samt annað slagið í centrið á Half Moon, ekki síst þar sem þar hefur - hingað til - varla verið álu að sjá nema strákana í móttökunni. En nú er það sko eitthvað annað. Greinilega er kominn annatími í ferðamannabransanum og gestum þar fjölgað til muna. Og það eru gestir sem ekki bara liggja á meltunni þrátt fyrir að nóg sé að býta og brenna á svona "all inclusive" hóteli. En öllu má nú ofgera segi ég nú bara. Það er bara allt að fyllast þarna! Sveittir, stynjandi, rymjandi, pústandi og argandi amerískir kallar eru þarna nánast í hvert sinn sem ég kem orðið. Þarna rembast þeir eins og rjúpan við staurinn og með þessum líka hávaða. Þeim finnst þeir greinilega vera rosalega flottir, gjóa augunum út undan sér um leið og þeir kasta sér á gólfið og gera einhvern helling af armbeyjum, rétt svona til að vita hvor ekki sé örugglega verið að horfa á þá! Ég náttúrulega læt eins og sjái þá ekki, en á samt stundum bágt með mig! En skondnari eru samt amerísku konurnar, þær fáu sem koma þarna eru með einkaþjálfara. Og þær eru þarna mjög snemma á morgnana, áður en kraftakallarnir fara í gang. Og ég gæti svarið fyrir að einkaþjálfararnir eru ekki alltaf "bara" líkamsræktarþjálfarar fyrir þær. Það er oft eitthvað annað í gangi, það er ekki eðlilegt hvað þau eru náin! Ég er búin að sjá að þjálfararnir eru þrír, kaffibrúnir, rosalega vöðvastæltir og flottir strákar. Og það eru gjarna konur á mínum aldri - og upp úr - sem þeir eru að "þjálfa". Stundum finnst mér að ég sé að troðast inn í eitthvað "privacy" þegar ég kem inn, þetta er svo intimt eitthvað! En þau láta sér fátt um finnast, virða mig ekki viðlits en halda bara sínu tempói! Ja, hérna; hvernig bara þykir ykkur!

þriðjudagur, janúar 16, 2007

Fyrstu 3 kaflarnir farnir til baka til útgáfunnar eftir yfirferð og enn get ég breytt og lagfært í tekstanum. Nú er þetta svona smátt og smátt farið að líkjast bók, ótrúlega spennandi!
Ég fór í dag og fékk jamaicanskt skattanúmer, sem er nokkurskonar persónunúmer sem þarf að hafa við ýmislegt, m.a. þegar maður tekur bílpróf. Það uppgötvaðist hér á dögunum að maður má bara keyra á erlendu ökuskýrteini í 6 mánuði; eftir það verður að hafa jamaicanskt. Þeir eru nú víst ekkert voða strangir á þessu, en allur er varinn góður og Sigfús er þegar búin að þreita, og standast bílpróf. Svo er að sjá hvort eins vel gengur hjá mér þegar að mér kemur.
Það er eins og einhver uppgangur sé í Montego Bay. Ég sé mun á mörgu á þessu nú tæpa ári sem ég er búin að vera hérna. Nýlega voru opnaðar tvær nýjar búðir, svona líka flottar og fínar. Önnur er húsbúnaðarverslun, heilmikið úrval af fallegum hlutum og húsgögnum. Hefði verið gott að hafa hana hérna á fyrstu vikunum þegar við Sigfús vorum að finna allt það sem við þurftum til heimilisins! Svo er kominn "seefood" markaður, ekkert voða mikið úrval en fínt það sem er. Í apotekinu fæst orðið fullt af kertum (án ilmefna!) og ég er búin að finna púrrulauk tvisvar síðustu vikurnar! Já það er ekki spurning; það er eitthvað að gerast í MoBay!

föstudagur, janúar 12, 2007


Ég var svo snemma á ferðinni í fitnessið í morgun, að hjúkkan var ekki farin út í vitjanir enn. Bíllinn hennar stóð fyrir utan móttökuna hennar á Half Moon, tilbúinn í slag dagsins. Haldið þið það væri munur að hafa svona farartæki í heimahjúkruninni. Þá væri allavega ekki þessi bansett vandræði alltaf með bílastæði; þessum leggur maður bara upp á gangstétt!









Ég er búin að finna út úr að ég verð aldrei garðyrkjubóndi, hæfileikar mínir liggja greinilega ekki á því sviði. Kryddjurtaræktunin mín er óttalegur barningur, skil ekkert í þessu eins og veðráttan ætti nú að vera hagstæð. Ef það er ekki ofvöxtur sem hleypur í þetta hjá mér eða froskar sem pissa eitruðu pissi í pottana, þá er það bara eitthvað annað. Eins og td. þessi myndarlegi Caterpillar sem Barry heldur þarna á. Hann er á góðri leið með að égta chiliplöntuna mína upp til agna. Þessi er víst ekkert voða stór, á viku til hálfum mánuði étur hann sig upp til að verða langur og feitur; "verður eins og puttinn á mér" sagði Barry sem er alltaf voða stoltur yfir að geta kynnt mig fyrir nýju skorkvikindi. En svo breytist þessi fagurgræni ormur á endanum í fallegt fiðrildi. Merkileg þessi náttúra! Hafið góða helgi elskurnar, KNUS í öll hús.

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Það er búið að standa lengi til að við nágrannakellurnar færum saman í lunch. Við létum verða af því í dag, fórum í siglingarklúbbinn þar sem við Sigfús erum meðlimið þrátt fyrir að vitað seglbátaleysi okkar! Voða huggulegur staður og gaman að sitja og horfa út á höfnina. Þær stöllur mínar hafa allan tíma heimsins eins og þær segja, eru allar komanar á pension!
Beint á móti klúbbnum er fríhöfnin, þar sem skemmtiferðaskipin leggja að.

Nánast á hverjum degi liggja þarna skip.



Í dag lá Freedom of the Seas við bryggju. Þetta er svo ofboðslega stórt skip, veit ekki hvort það kemur fram á myndinni, en það er STÓRT!

Mér er sagt að þetta sé eitt af þeim flottari sem sigla um höfin blá, svei mér þá, mig er farið að dauðlanga til að komast um borð í svona skip!!


Kannski á ég það eftir! Vill einhver koma með?

Ég gerði nokkrar tilraunir til að blogga í gær, en það var eins og við mannin mælt, þegar ég setti mig í stellingar fór rafmagnið! Veðrið er búið að vera voða skrítið síðustu dagana, hávaðarok á köflum, það koma þessir svakalegu skúrir - eins og allt í einu sé skrúfað frá krana - og hitinn hefur farið niður í 24°C! hvað er eiginlega í gangi? En ég lét veðrið ekki aftra mér frá að fara á námskeið í snorkling í gærmorgun. Hef verið á leiðinni í þetta í marga mánuði, en svona er nú framtakssemin. Dauðsé eftir að hafa ekki gert þetta fyrir löngu, þetta var svo gaman. Leiðbeinandinn minn var unglingsstrákur sem synti og kafaði eins og hann væri fæddur og uppalinn í sjónum, sem hann kannski er líka. Með andalappir og tönnunum læstum utanum plaststykkið svamlaði ég með drengnum í klukkutíma skammt frá Dr. Cave Beach. Þetta var ótrúlega skemmtilegt og þvílíkt umhverfi þarna neðansjávar! Kórallar af öllum stærðum og gerðum; fingurkórallar, blöðrukórallar, heilakórallar og hvað þetta nú heitir allt saman, litskrúðugir fiskar í öllum stærðum, sjógúrkur, ígulker, blóm og jutir. Að óreyndu hefði ég ekki trúað að það væri svona mikið að sjá og svona stutt frá landi. Unglingurinn kafaði niður á botn og sótti hin undarlegustu dýr sem hann kom með og lagði í lófann á mér. Skrítið að halda á ígulkeri!
En þetta er sko ekki mín síðasta snorklferð, nú er bara að fara að æfa sig!

þriðjudagur, janúar 09, 2007


Ég brá mér niður á Dr. Cave Beach í dag, þurfti að endurnýja meðlimsskýrteinið okkar þar. Ströndin er alveg niður í bæ, fyrsta baðströndin í Mobay. Það var breskur læknir, Dr. Alexander McCatty sem átti þetta svæði og breytti því í baðklúbb árið 1906. Áður mun hafa verið þarna lítill hellir sem átti sinn þátt í nafngiftinni (cave). Um 1920 var fullyrt að vatnið hefði lækingarmátt, fólk mun hafa læknast af ýmiskonar sjúkdómum við það eitt að baða sig þarna. Hvort sem það nú er satt, er allavega afskaplega notalegt þarna á þessari litlu strönd, hreint, fallegt og vatnið yndislegt. Uppgötvaði að ég hef alls ekki notfært mér þetta nógu mikið, því mér finnst í raun og veru voða gott að fara í sjóinn!

mánudagur, janúar 08, 2007


Það lá rosalega vel á grænmetissölunum mínum í dag. Sú gamla, skræka hló og lék við hvern sinn fingur og gaf mér meira að segja 3/4 hluta úr avokado. Þetta var síðasta avokadoið og hún var eitthvað búin að narta í það, en "pýt" ég sker bara úr því og samt verður eftir magn eins og úr 3-4 avokado sem maður kaupir á Íslandi. Þau eru svo svakalega stór hér. Aðstoðarmaðurinn tannlausi sló mér gullhamra og bað mig að vera lengi að versla, það væri svo góð lykt af ilmvatninu mínu! Þú verður að gefa kærustunni þinni svona ilm, sagði ég. "Á enga" svaraði hann. Nú ertu þá giftur? "Var það, hún hvarf", svarar hann og horfir til himins og fórnar höndum. Æi, greyið, hefur misst konuna, hugsa ég og ætlaði að fara að votta samúð mína þegar hann bætir við: "Fór, stakk af, yfirgaf mig"! OK, og hversvegna fór hún frá þér? spyr ég (eins og mér kæmi það eitthvað við!). Þá brestur sú gamla út í þennan þá svaka hlátur, slær sér á lær og tekur bakföll. "Já spurðu hann, spurðu hann" stundi hún milli rokanna. Sá tannlausi sem greinilega var líka skemmt, segir: "Það er löng, löng saga, viltu heyra hana núna?" Þar sem ég var ekki alveg viss um hvort þeim fannst svona fyndið að ég skyldi spyrja, eða hvort sagan var virkilega skemmtileg, ákvað ég að grípa til næst-algengasta frasa jamaicabúa: "Later my friend, later" og keyrði burtu með hálfétið avokado, eitt pund af grænni papriku og hlátrasköllin í þeim glymjandi í eyrunum!

sunnudagur, janúar 07, 2007


Þá eru þessi jól liðin, jólatréð góða komið í kassa og við Half Moon klifra þeir í trjám og plokka niður hundruði metra af seríum sem þeir höfðu vafið nosturslega um stofn og greinar. Hlýtur að vera svakaleg vinna að setja þetta upp.

Daginn farið að lengja hér sem annar staðar og sama blíðan og fyrr.

Ég er núna að lesa bók eftir Khaled Hosseini sem heitir Flugdrekahlauparinn. Þetta er ein af þessum bókum sem maður á erfitt með að leggja frá sér. Á einum stað í bókinni hafði drengurinn
fengið islamskan fyrirlestur um syndina og hvað biði þeirra sem syndguðu, hann fékk að vita að íslam liti á drykkju sem hræðilega synd. Faðir hans, Baba, drakk whisky og drengurinn hafði auðvitað áhyggjur af hvað yrði um hann þegar hann þyrfti að svara til saka fyrir synd sína á degi qiyamat, þ.e. á dómsdegi.
Baba sagði: "það er einungis til ein synd, aðeins ein. Og það er þjófnaður. Allar aðrar syndir eru afbrigði að þjófnaði. Sá sem drepur mann, stelur lífi. Hann stelur rétti eignkonu til maka síns, rænir börun föður sínum. Sá sem lýgur stelur rétti einhvers til að vita sannleikann. Sá sem svindlar stelur rétti einhvers til að njóta sanngirni".
Ég leyfi mér að efast um að slíkar heimspekilegar pælingar hafi legið að baki þess sem haft er eftir talsmammi Pihl í Kaupmannahöfn í dönskum fréttum vegna morðsins á danska verkstjóranum í fyrradag, að "noget" benti til að þetta hefði verið ránmorð. Og þó?
Í jamaicönsku blaði kemur fram, að fullyrt sé að morðið hafi eitthvað að gera með "náið samband sem viðkomandi hafi haft við konu úr nágrenninu". Einnig er fullyrt að innfæddir menn séu reiðir yfir að útlendingar steli eiginkonum þeirra og að þeir vilji ekki líða það lengur. Út frá heimspeki Baba (og Hosseini) er þetta því ránmorð. Þá eru öll morð ránmorð. Morð er ævinlega stuldur á lífi. Og öll mótív eru þá þjófnaður; stuldur á öðru lífi, stuldur á eiginkonu/eiginmanni, á valdi, á hamingju, stuldur á gleði, sakleysi, öryggi, æru. Kannski er þetta rétt, að þjófnaður sé eina syndin sem í raun existerar. Að allt "hitt " sé bara afbrigði af þjófnaði?

föstudagur, janúar 05, 2007

Ósköp fannst mér sorgleg fréttin um gömlu konuna sem fannst dáin heima hjá sér í Reykjavík. Hafði líklega verið búin að liggja þarna dáin í meira en mánuð. Nágrannarnir höfðu eins og stóð í fréttinni "gert sér grein fyrir því að ekkert hafði sést til konunnar lengi og létu lögreglu vita". Ekki hafa nú verið mikil samskiptin í því húsinu. Og ég sem hélt að þetta væri ekki til á Íslandi! Eitt er að deyja einn, það getur átt fyrir okkur öllum að liggja; en að engin bregðist við fyrr en eftir mánuð! Þvílíkur einstæðingur.

Barry yrði allavega fljótur að taka eftir því ef ég hrykki óvænt upp af! Hann er búinn að sniglast í kringum mig í dag, voða alvarlegur eitthvað. Framan af hélt ég þetta hefði eitthvað með hana Nicole að gera; hún er ein af "maidunum" hérna í hverfinu og er alltaf eitthvað að nadskotast í Barry. Stendur stundum efst í garðinum og gargar af öllum lífs og sálarkröftum: "BARRY, BARRY, COME HERE!!!" Í dag var hún óvenju slæm, elti hann meira að segja að dyrunum hjá mér. Hún er líka óttaleg frekjudolla, ætlaði að fara að hirða "læmið mitt", þ.e. þetta eina lime sem er komið á limetréð sem ég aflúsaði í sumar og við Barry höfum fylgst spennt með vextinum hjá síðustu vikurnar! En það var greinilegt að Barry þurfti að segja eitthvað, og svo kom það loksins. Hann spurði hvað ég ætlaði að selja Jentuna á þegar við flyttum frá Jamaica! Hann er svo hrifinn af bílnum, en hefur ekki einu sinni bílpróf og að ég held, á enga peninga. Bíllinn er alveg nýr sagði ég og nýjir bílar eru svolítið dýrir. En þá ljóstrar Barry því upp að hann eigi eldri bróður í USA og bróðirinn sá arna á einhverja aura sem hann kannski myndi vilja gefa honum! Ég á nú eftir að spyrja nánar út í það! En allavega er hann alveg "húkt" á því að hann vilji eignast bíl, og skal vera Jentan!

fimmtudagur, janúar 04, 2007



Mágur hans Ara, hann Ture, er með myndasíðu sem ég kemst inn á. Sem betur fer eru Brynjar og Bjarki vinsæl myndaefni hjá honum (skiljanlega!) og ég nýt góðs af. Þetta er reyndar myndir síðan í sumar, en þá þegar er hann Brynjar orðinn táningalegur! Flottur strákur. Hlakka til að sjá jólamyndirnar, en þau voru öll saman hjá Åse (mömmu Katherine) í Kjöllefjord um jólin.

Héðan er það helst að ég dreif mig í "Gymmið" á Half Moon í morgun, allt orðið fullt af túrisum en strákarnir í afgreiðslunni mundu þó eftir mér og höfðu orð á að ég hefði ekki séðst lengi! Hefur eflaust ekki þótt vanþörf á að ég færi að hreyfa mig almennilega! Annars dvel ég langtímum saman á bandinu, það gera jólabækurnar!
Ég fékk þær ánægjulegu fréttir í gær að Hafdís og Nonni eru búin að panta ferð til MoBay, koma 24. janúar og verða hjá okkur í viku. Auður skvísa kemur með, það verður fróðlegt að sjá Barry þegar hann lítur hana augum!! Hlakka ekkert smá til að fá þau, þau ná líka að vera hérna meðan jazzfestivalið verður. Það verður víst stórt í ár; 10 ára jubileum. Spennandi! Svo fékk ég nokkur jólakort í dag. Og jólagjöf frá Doddu frænku; Takk elskan, því miður var kakan í maski, þeir fara greinilega ekki vel með pakkana! Fallegt af þér. KNUS í öll hús.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

"Happy new year miss; and have a good year!" Þetta hljómar hvar sem maður kemur þessa dagana. Ég hef engan heyrt þakka fyrir liðið ár, hvorki við mig né aðra. Enda kannski ekkert að þakka fyrir? En það er svolítið fallegt þetta að óska góðs árs fyrir mann og annan.
Uppfull af gleði yfir jólabókunum mínum, spurði ég Barry hvort hann hefði fengið nokkrar bækur um jólin. Hann horfði undrandi á mig og spurði hvort ég hefði fengið BÆKUR í jólagjöf. Hróðug sagði ég að við Sigfús hefðum fengið samtals 10 og Barry ætlaði hreinlega að kafna... úr hlátri! Þetta fannst honum nú fyndið. "You are a great reader" sagði hann og skellihló. Forvitni mín var vakin: "Barry, hefuru lesið bók?" spurði ég. Barry varð aftur alvarlegur og sagðist hafa lesið "picture book" um fræga menn! (Átti hann við myndablað?) Og svo hef ég lesið "Footstep in the sand" bætti hann stoltur við. Nå, hugsaði ég, hann hefur þá lesið alvöru bók. Hélt þetta væri einhver skáldsaga. En nei, ónei. þetta var ljósmyndabók með mismunandi fótsporum á ströndinni í MoBay!! Hann Barry er ekki að eyða tíma sínum í lestur! Svo hló hann enn meira og sagði: "Það eru bara ungar stelpur sem lesa bækur, þykkar bækur með engum myndum í". Þetta fannst honum greinilega vera óttleg vitleysa, en kunni ekki við að segja að ég væri eins og þær! Mikið sem mér finnst gaman af honum Barry!!
Fyrir jólin hélt hann langan fyrirlestur um geitaslátrun sem tíðkast á stórhátíðum, við jarðarfarir og önnur stærri tilefni. Geiturnar eru handsamaðar, afturlappirnar bundnar saman, geitin hengd upp í tré á afturlöppunum, hausinn sem dinglar niður er skorin af og blóðið látið renna á jörðina. Svo er geitin fláð, skorin og steikt með karrý. Barbarískt, hugsaði ég og hlyllti mig ögn. "Á maður von á þessu hérna í garðinum okkar núna um jólin" spurði ég og Barry sem hélt að ég vildi slátra minni eigin geit sagði að það væri allt í lagi, það mætti nota öll tré! Sigfús sá hvað mér þótti um þetta, og benti á að svona hefði nú verið gert með lömbin á Íslandi áður en farið var að nota kindabyssurnar. "Lömbin voru sko ekki hengd upp í tré" sagði ég (enda kannski engin tré nálæg). Það er sko allt annað með lömbin sagði þá Barry, þau hlaupa ekki um hauslaus eins og geiturnar gera ef þær eru ekki hengdar upp! Og þá höfum við það, þetta er bara af praktískum ástæðum sem jamaicabúar hengja geiturnar upp í tré til að slátra þeim. Hver hefur áhuga á að mæta hauslausri geit á harðahlaupum?

þriðjudagur, janúar 02, 2007

GLEÐILEGT ÁR 2007 elskurnar mínar allar og takk fyrir allt á liðnum árum!! Megi nýja árið verða okkur öllur hamingjuríkt, hagstætt á allan máta og fullt af spennandi upplifunum.

Ég ætlaði auðvitað að senda áramótakveðju fyrir áramótin, og áður en við fórum til Whitehouse þar sem við fögnuðum nýju ári, en það fór allt mitt vit í að leita að passanum mínum sem ég hélt ég væri búin að glata og blogg var því ekki ofarlega í huga mér. Passinn hafði svo verið í veskinu mínu allan tímann! Það hefði sko ekki verið gott að týna passanum með öllum dvalarleyfispappírunum, eins og búið var nú að hafa fyrir að fá réttu stimplana! Við vorum sumsé á hóteli í Whitehouse (á suðurströnd Jamaica) yfir áramótin, á svaka lúxus hóteli þar. Ártalinu 2007 var skverað upp í klaka sem strax fór að leka úr, enda yfir 25 stiga hiti.

Ströndin var ekkert sérstök þarna, en sundlaugarnar þeim mun betri og var ekki amalegt að morra þarna og lesa jólabækurnar.












Þarna var ég nýbúin að synda yfir á laugarbarinn, synti varlega tilbaka með rompunch!!

Dekurlíf? Já, heldur betur!!










Þarna var klukkan farin að nálgast miðnætti, gamla árið að kveðja, ár mikilla ferðalaga og upplifanna. Við Sigfús löbbuðum niður á strönd, með kampavínsflösku og tvö glös og heilsuðum nýju ári með berar tásurnar grafnar í heitan sandinn. En það var ekki skotið einni einustu rakettu; af umhverfisástæðum var okkur sagt, það er svo mikil mengun af flugeldum sögðu þjónarnir alvarlega. Já, jamaicabúar eru alltaf að koma mér á óvart!

Hvernig skyldi nú þetta nýja ár verða?!!KNUS

This page is powered by Blogger. Isn't yours?