.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

föstudagur, júní 30, 2006

Fyrirgefðu Sunna mín, líka takk til þín! KNUS

Þrátt fyrir mikið annríki má ég til með að láta heyra frá mér. Mættu einhverjir kannske taka sér mér til fyrirmyndar þar! Smá svona "pilla" heyri frá fáum! (Hafrún mín; takk fyrir kommentið!)Ég sit sveitt við tölvuna allan daginn, svitinn rennur meira psykiskt en fysiskt, það er Tom vinur minn Kitwood sem er orsökin, þar er sko enga loftkælingu að finna! Ég er að reyna að halda það plan sem ég setti mér, ákveðin síðufjöldi SKAL vera íslenskaður á fyrirfram ákveðnum tíma! Geri lítið annað þessa kviðuna; Guði sé lof fyrir hana Vivet sem sér bara um allt fyrir mig. Þó stend ég annað slagið upp, teygi mig og lít til veðurs!! þessa dagana fer hitinn ekki niður fyrir 29 stig, en heldur ekki upp fyrir 36. Þetta er svosum allt í lagi, en ég vildi ekki búa í hús án loftkælingar! Þegar líður á daginn er allt orðið voða heitt af 35 stigunum sem eru búin að gegnhita allt tiltækt, meira að segja sundlaugin er fullheit seinnipartinn. Hobbýið mitt þessa dagana erað reyna að ná mynd af "þjóðarfuglinum" sem ég hélt reyndar framanaf að væri kólibrífuglinn. En nei, ó nei! það er sko Trochilus polytmus, sem hér gengur undir nafninu Doctorbird, og spyrjið mig ekki hvers vegna! Þessi dásemdarvera flögrar stundum fyrir utan gluggann minn, en er svo svakalega snögg að það hefur enn ekki tekist að ná mynd af honum. Ég las í bókinni sem Monika lánaði mér að hægt væri að lokka þá með sykurblöndu, svo ég tók mig til og sauð þennan svaka sykurseið og setti á disk fyrir utan verandadyrnar. Átti auðvitað vona á að Doktorsfuglarnir flykktust að, en það eina sem sótti í var kakkalakkabarn sem lá drukknað í sykurleginum! Svo ekki var það nein lukka!


Þessi mynd er "lánuð" frá internetinu, bara svo þið sjáið að það er full ástæða til að reyna að fá sína eigin mynd af þessu "bjútýi"!! Mínir fuglar eru þó ekki alveg svona á litinn, meira blátt og fjólublátt í þeim, sumsé mun fallegri! En stélið er svona, svakalega langt og svo hreyfast vængirnir svo hratt að maður sér þá ekki. Svo ég held áfram að reyna, kannske ætti ég að hafa sterkari blöndu? kannske setja smá rom útí?!!


Fer í kvöld að hitta "hinar konurnar", förum stundum saman út og borðum, ætlum á Húsbáta-grillið´til einhenta kokksins í kvöld. Vona bara að Humusinn sé kominn aftur á matseðilinn! KNUS til ykkar allra.

miðvikudagur, júní 28, 2006


Þessa þynd tók ég út um rimlana á kontórglugganum í morgun, þarna á bak við er fósturbarnið hann Pálmi Thorarensen, er hann ekki orðinn reffilegur! Ætlunin var að reyna að ná mynd af fugl sem flögraði í blómunum þarna, svona líka svakalega fallegur og litríkur. En hann var svo snöggur að ég náði honum ekki! Veit ekkert hvaða fugl þetta var, það eru svo margir mismunandi fulglar hérna og engann af þeim hef ég séð áður. En nú fer að rætast úr, því Monika nágranni kom með bók um jamaicanska fulga og lánaði mér. Ég held nú reyndar að aðalerindið hennar hafi verið að hvetja mig til að koma með sér í kirkju á sunnudaginn! Reyndi að freista mín með að það væri líka konsert! Kannske fer ég, það væri örugglega áhugavert. Vivet er búin að vera hálftussuleg í dag, enn rólegri en venjulega og svei mér ef hún var ekki föl! Ég sendi hana snemma heim í dag, hún hefur líka annað heimili að passa og ekki hefur hún ryksugu eða þvottavél til að létta sér störfin. En það er líka voða heitt í dag, núna (kl. 14.30) sýnir mælirinn minn 36 gráður og það skýn aldrei sól á þennan mæli!

Býflugurnar eru enn og aftur að gera tilraun til hústöku hjá okkur. Þær eru svo snöggar að byggja, maður verður nánast daglega að fylgjast með ákveðnum stöðum á húsinu. Á einum sólarhring var ein drottningin komin með þennan vísi af höll, þvílík atorka! En hún var nú heldur ekkert smásmíði þessi, þegar ég var búin að gasa hana í hel, brá ég á hana málbandi og hún var 4,5 cm!! Segi og skrifa fjórir og hálfur sentimetri!! Hvað segið þið svo!

Ég hef ekki séð Pöllu í nokkurn tíma, var farin að hafa áhyggjur af henni. En mér til mikillar gleði rakst ég á hana í forstofunni í morgun, og ekki nóg með það; 2 eðlubörn líka. Þá fattaði ég hvað hafði verið í gangi: Palla var í barnseignaleyfi!!!


þriðjudagur, júní 27, 2006


Það er brjálaður vöxtur í fræunum hjá mér, enda er þvottaverandinn eins og gróðurhús þessa dagana! Þetta hljóta að vera súperskilyrði fyrir ræktun, 33 stiga hiti og temmilegur raki í lofti! Verst að ég er ekki alveg viss hvað ég á að gera næst! Á ég að láta þessar spírur verða stærri, eða á ég að skella þeim strax í stærri potta? Þetta gengur svo hratt fyrir sig! Það vex allt hratt hér í þessu loftslagi, líka hárið á mér sem er farið að verða óstýrilátt. Nú verð ég að fara að finna hárgreiðslustofu sem kann eitthvað annað en að flétta og tæta rastahár. En í því eru þau aftur á móti góð.



Þetta er nú bara ómerkilerg sýnishorn sem ég smellti af einum af verkamönnunum úti á vegi, en gefur svolítið til kynna um hvernig hártískan er. Kannske ég endi bara með eitthvað svona!

Dagarnir æða áfram hjá mér, ég er komin þó nokkuð vel í gang með þýðinguna á bók Tom Kitwood sem markmiðið er að hafa tilbúna til forlagsins seint í haust. Mér mun ekki veita af tímanum, þetta er nú ekki auðveldasta bókin sem ég hef valið mér sem fyrstu tilraun mína til þýðingar! Ég sit við tölvuna og Vivet líður um með kústinn og bekkjarýjurnar! Hún er bara svo þægileg hún Vivet. Skítt með að hún og ryksugan hafa ekki náð góðu sambandi! Látið ykkur líða vel elskurnar, KNUS

sunnudagur, júní 25, 2006

Ég hef verið önnum kafinn síðustu dagana, enginn tími til að blogga! Kurt smiður lánaði mér höggborvél mikla sem ég hef heldur betur nýtt vel. Þvílíkt tæki! Ég tæti í gegnum stálsteypuna eins og veggirnir væru úr osti! Nú er kominn vísir að myndavegg, klukka á vegg svo ekki sé talað um gardínurnar sem hanga nú í báðum svefnherbergjunum á ný-upp-boruðum gardínustöngum sem ég fékk í "diskánt"búðinni hennar Vivet. Við Vivet fórum nefnilega saman í bæinn á föstudaginn. Aðalerindið var að fara á markaðinn, nokkuð sem mér skilst að ég eigi ekki að gera alein. Það var mikil upplifun að koma á markað hinna innfæddu sem er RISAstór. Vivet leiddi mig í gegnum hvern ganginn á fætur öðrum og þarna var bókstaflega allt til sölu. Og þarna fann ég loksins gott grænmeti, ferskt, fallegt og mikið úrval. Ég var svo uppnuin að ég gleymdi að taka myndir! Vivet setti upp pókerfés þegar hún var að díla um verðið, og það er sko öruggt mál að ég hefði ekki fengið þann prís sem hún fékk! Við komum út með helling af fínu grænmeti fyrir "skid og ingenting" ef miðað er við verðið í súpermarkaðinum. Það hlaut líka að vera til einhverstaðar betra og ódýrara grænmeti en það sem ég hafði fundið! Vivet sagði mér að sumir hreinlega byggju á markaðinum, það er þá fólk sem ekki á heimili annarstaðar.

Utanvið markaðinn lág þessi maður og svaf. Þetta sér maður annars ekki oft hérna í MoBay, en sér oft í Kingston. Eins og hef sagt áður, er eymdin mun sjánanlegri þar. Í þessari bæjarferð okkar Vivet kom ég í bæjarhluta sem ég haf aldrei áður verið í, þar sást ekki hvít manneskja. En það var ekki eins og þeim findist ég vera neitt öðruvísi, kannske af því að Vivet vék ekki frá mér! Henni er voða annt um mig blessaðri, sagði mér að sér fyndist "gaman að vera hjá mér" ! Jamaicabúar slá ekki um sig með stórum lýsingarorðum og Vivet er þar engin undantekning. Ef maður spyr hvernig fólk hafi það ("how are you") er sterkasta svarið "not so bad"!! Aldrei að þau segi "good" svo ekki sé talað um "great, fantastic" eða annað í þeim dúr! En hún hlær mikið af mér og örugglega finnst henni ég oft skrítin! Sérstaklega fannst henni fyndið að sjá mig með borvélina!



Í tilefni afmælis Sigfúsar sem var í gær, buðum við nokkrum "köllum" úr vinnunni hans í mat um helgina. Ég eldaði íslenskan saltfisk sem búin var að ferðast með okkur milli landa og gista þó nokkra frystiskápa á leiðinni! Eftir helgina voru þó nokkrar tómar bjórflöskur á verandanum (!!) og samkvæmt venju fékk Barry flöskurnar. Nú brá svo við að hann spurði hvort hann gæti ekki fengið eina fulla bjórflösku! Ég varð svo undrandi, Barry hefur reyndar nokkrum sinnum beðið mig um eina sígarettu, en aldrei annað! Auðvitað fékk hann bjórflöskuna og varð voða glaður!
Þarna er Sigfús með afmælisgjöfina frá mér, IPod! Var ekkert smá lukkulegur með tækið sem eftir tvær hringingar til Guðbjargar IPod sérfræðings virkaði eins og til var ætlast! Nú er hann eins og hinir táningarnir, tekur þetta varla úr eyrunum!

fimmtudagur, júní 22, 2006


Stundum gerast hlutirnir bara "overaskende" hratt! Poul verkstæðisformaður og "allt mulig mann" kom í heimsókn í gær og hann var ekki lengi að redda grillinu! Þetta er maður sem lagfærir olíupumpur með kókdós ef hann hefur ekki réttu varahlutina, svo h0num þótti vandamálið með grillið mitt lítið og léttvægt! Á stuttum tíma var hann búinn að mixa grindina þanning að hún virkar betur en nokkur ný hefði gert, kom með gasdúnk og skipti bara um tengingu svo kútuinn pasar við grillið. BINGÓ, grillið virkaði fullkomlega og kvöldmaturinn á Taylor Road vargrillaðar svínakótelettur! Svona menn eru náttúrulega gulls ígildi, og stelpur; hann er á lausu!!







Á þvottaverandanum er ég búin að setja í gang heilmikla kryddjurtaræktun. Hér er ekki hægt að fá fersk krydd, stundum er reyndar Thymian fáanlegt, en það er flutt yfir langan veg og er oftast orðið fremur lasburða þegr það er komið í búðirnar. Ég tók með mér fræ frá Danmörku og ætla að sjá hvernir fer. Þetta hlýtur að geta gengið, loftslagið er núna eins og í gróðurhúsi, heitt og rakt! Vivet hló mikið að þessu uppátæki mínu, segist aldrei nota krydd! Kannske enda ég bara á grænmetismarkaðinum með kryddjurtir!
Hafið góðan dag elskurnar/KNUS

miðvikudagur, júní 21, 2006


Var ég búin að segja ykkur frá löngun minni í gasgrill? Slík fyrirbæri eru nú ekki í hvers manns eigu hér og standa ekki tugunum saman utan við allar bensínstöðvar og matvöruverslanir eins og á Íslandi! Við vorum búin að spyrjast fyrir um hvar hægt væri að fá grill, en flestir hristu bara höfuðið spyrjandi á svip. "Fólk tekur það með yfir hafið" (lesist: frá Ameríku!) var besta boð sem við fengum. Í síðustu viku hófum við svo fyrir alvöru leitin, sem að lokum bar árangur; við fundum verslun sem átti gasgrill! Meira að segja tvö! Við fórum alsæl heim með kassann og fundum grillbragðið í munninum! Samsetningamaðurinn minn (litli rafvirkinn) kom svo í gær og hófst handa. Hann hafði aldrei séð gasgrill áður, en eftir 3 tíma og miklar spegúlasjónir stóð (nánast) tilbúið grill á stofugólfinu hjá mér. Að vísu vantaði eina grindina, en það yrði ekkert mál, hélt ég. Ég færi bara í búðina og fengi grind. En svo létt skyldi það ekki vera, þetta varð náttúrulega stórmál. Í öllum verslunum er rosalega mikið eftirlit, oft er vopnaður vörður við dyrnar. Flest smávara er afgreidd yfir borð og þegar maður hefur fengið það sem maður ætlar að kaupa, fer starfsmannsekja með vöruna fram að kassa, þar sem allt er tékkað áður en borgað er. Við erum jú vön að ganga svo beint út með borgaða vöruna, en ekki hérna. Fyrst þarf að ganga fyrir enn eina tékkmanneskjuna (er oftast kvenmaður) sem skoðar í alla poka og ber saman við nótuna. Ef allt er til staðar, og ekkert umfram það, kvittar hún fyrir hvert atriði, stimplar og undirskrifar. Nú má ganga að útidyrunum. Þar stendur vörður sem skoðar nótuna gaumgæfilega og ef hann sér ekkert athugavert, GATAR hann nótuna og opnar kurteislega fyrir manni dyrnar! Síðan er manni fylgt með vörurnar út í bíl. Verslunarferðinni er það með lokið, og Guð hjálpi manni ef maður uppgötvar á leiðinni út í bíl að maður gleymdi að kaupa eitthvað! Þessi procedur tekur slíkan tíma, að maður nennir ekki að fara inn aftur! Þetta er misslæmt, en í "grillbúðinni" var þetta rosalegt. Eftir tvo tíma og innblöndum óskplega margra starfsmanna, fór ég löðusveitt út; með grind! Það sýndi sig svo þegar heima kom að grindin passaði ekki, en ég læt mér ekki detta til hugar að reyna aftur! Að við höfum ekki enn fundið gaskút sem passar; það er önnur saga - og annað vandamál! Kannske verður við að fara "yfir hafið" til að fá hann! En þetta hlítur að enda með að við fáum grilmat á Taylor Road! Hafið góðan dag elskurnar.

þriðjudagur, júní 20, 2006

Dýralífið á Taylor Road er farið að vera hluti af lífinu mínu og þarf orðið töluvert til að koma mér á óvart í þeim efnum! Náttúran hefur breyst á síðustu vikum, þessir fáu regndropar sem hafa komið í Mobay hafa gert undraverk, allt blómstrar og græni liturinn er enn grænni og fallegri. Fugla og fiðrildalífið er afar fjölskrúðugt, en fuglarnir er varir um sig, eru líklega með unga í hreiðri, og fiðrildin eru á stanslausri ferð. Nú skil ég þetta með að "vera eins og fiðrildi" þau stoppa hreinlega ALDREI!! Vonlaust að ná af þeim mynd, eins og þau eru nú falleg!
Ég er alltaf að sjá nýjar plöntur og blóm, veit náttúrulega ekkert hvað þetta er, en hún Vivet mín er sko betri en enginn í þessum efnum sem öðrum. Verð alltaf ánægðari og ánægðari með Vivet!

Þessir "ávextir" voru farnir að vaxa á einu trénu í garðinum, ég varð voða ánægð og sá fyrir mér nýja blöndu af morgundjúsinu mínu. En nei, onei! Þetta er hið fræga "acci" innihaldið úr þessu borða jamaicabúar eins og allir vita með saltfiskinum sínum á morgnana. En ekki strax, því eins og þetta er núna er þetta baneitraður ávöxtur, fyrst þegar hann opnast má týna hann og taka kjarnann sem er heiðgulur á litinn. Núna er ávöxturinn fallega rauður og hellingur af þessu.

Þegar ég flutti inn vakti eitt af trjánum í garðinum athygli mína, ég hélt það væri steindautt því það var svo aumingjalegt, engin lauf og bara ferlega ljótt. En svo bráði af því, og nú kemur í ljós að þetta er plómutré sem farið er að bera ávexti. Júníplómur kallar Vivet þetta og æaður en langt um líður verða plómurnar fjólubláar og tilbúnar í djúsið!

það er gaman að fara um núna og sjá oll blómin sem eru í blóma, mörg tré sem voru bara græn áður eru nú rauð, blá, bleik og gul! Flott! KNUS


mánudagur, júní 19, 2006


Það er ótrúlegt hvað svona lítið apparat getur gert manni lífið þægilegrahérna í hitabeltinu! þessa litlu loftklæingu fékk ég setta upp á föstudaginn inni á kontórnum, og þvílíkur munur! Þegar hún var farin að blása fundum við greinilega hversu gömul og lasburða loftkælingin í stofunni er! En þessi nýja nær líka að kæla fram í eldhús/stofu, svo nú verðum við að passa að það verði ekki of kalt! Skammt stórra högga á milli eins og oft áður!





Einn af samstarfsaðilum Sigfúsar er forstjóri Half Moon sem er eitt af betri "hótelresortsunum" hérna í MoBay. Hann okkur, ásamt tveim örðum frá fyrirtækinu að nýta aðstöðu hótelsins á meðan við værum hérna í MoBay. Við Sigfús fórum og skoðuðum herlegheitin í gær, þetta er rosastórt svæði og einn af "portörunum" keyrði okkur um svæðið í golfvagni. Auk allra veitingahúsanna og baranna eru strandirnar margskiptar, þar sem sólin kemur upp, þar sem hún sest, þar sem þeir grilla, þar sem höfrungarnir eru, o.s.frv. Þarna er mynd af einni litlu ströndinni. Alls hafa þeir 51 sundlaug þarna, við sáum nú bara brot af þeim enda eru einhverjar af þeim prívat fyrir VIP húsin! Við fáum líka afnot af tennisvöllunum og fitnesscentrinu sem er voða vel útbúið og strákar; líka afnot af golfvellinum!!! Get ímyndað mér að einhver úr fjölskyldunni minni verði glaðir að heyra það, þetta er nefnilega flottur golfvöllur! Ætla að nýta mér fitnesscentrið!!! "Vegurinn til Helvítis er varðaður góðum fyrirheitum" sagði einhver mætur maður!!! Hafið góðan dag elskurnar!

sunnudagur, júní 18, 2006

Í gær, 17. júní var flaggað á Taylor Road 1080. Hafði stungið niður poka með litlum íslenskum fánum, og fann þá aftur! Mér fannst þetta voða gaman, en held ekki að neinn hafi tekið eftir þessu nema ég! Verð að fá mér stærri íslenskan fána!
Við Sigfús vorum formlega boðin út á veginn, þar sem eitt hollið var að halda upp á að þeir voru komnir í gegnum erfiðan hluta við vegbygginguna og í því tilefni var boðið upp á bjór og samlokur. Óli Íslendingur er verkstjóri þar og sýndi mikil tilþrif við veitingarnar! Óli kom svo um kvöldið í mat til okkar þar sem prófað var ástralska lambakjötið sem ég fann í einum supermarkaðinum. Það var bara ágætt, en við vorum öll sammála um að ekkert jafnaðist nú samt á við það íslenska!


Einn af verkamönnunum er ekta "rastamann", óskaplega brosmildur og vinalegur. Það var afar fyndið að sjá hann með hjálminn yfir öllu þessu hári! Hann hefur verið "Rasta" síðan 1988 og hefur þ.a.l. ekki skert hár á höfði sínu síðan. Bob Marley er átrúnaðargoð hans nr. 1 og dætur hans tvær sem hann sýndi mér myndir af eru líka með rastahár og lifa eftir rastatrúnni.

Kom mér á óvart að hann drakk bjór, hélt ekki að það mætti en kunni ekki við að spyrja!

Þarna var líka ungur strákur "litli rastamann" (eins og þeir kalla hann því hann hefur bara verið "rasta" í nokkur ár!) var óskaplega stoltur yfir frétt sem hafði komið í dagblaði, það var um fyrstu skóflustundu vegarins og hann var sá sem aðstoðaði ráðherran við skóflustunguna. Einhver hafði fært honum útskrift af netinu um þetta og brosið fór ekki af honum, því þótt ekkert sæist á myndinni hver þetta var, þá var nafnið hans nefnt og þvílík lukka! Hann ætlaði að ramma þetta inn og geyma vel svo hann gæti sýnt börnunum sínum seinna meir hvað hann hafði afrekað þegar hann var ungur!

föstudagur, júní 16, 2006



Má ég kynna: Þetta er nýja húshjálpin mín , miss Vivet Morrison!! Ég hef farið varlega í að hafa skoðun á henni þessa daga sem hún var til reynslu hjá mér, vildi gefa okkur báðum tíma til að sjá hvernig þetta gekk. Nú er Vivet búin að vera hjá mér þessa viku og í "evalueringsamtalinu" í dag vorum við sammála um að hún yrði áfram. Vivet er ekki kona margra orða (svolítið annað en bansett málæðið í henni Lue!), en hún brosir og hlær mikið, já nánast viðstöðulaust! Þó gat ég dregið upp úr henni að henni líkaði vel við að vera hjá mér og við störfin sín hérna. Ég hef látið hana eiga sig þessa daga og finna sjála út úr hvað þarf að gera. Og ég held að þetta sé bara OK! Vivet er 45 ára, fædd í nautsmerkinu og þykir matur voða góður! Maðurinn hennar er yfiröryggisvörður á einu af minni Restorshótelunum hérna og hún á tvö börn sem bæði búa heima; stelpa sem er 19 ára og er að vinna á hóteli og strákur sem er 13 ára og er enn í skóla. Og svo er hún náttúrulega voða trúuð! Það hefur verið mjög þægilegt að hafa hana í húsinu, maður veit varla af henni, hún raular annað slagið og stundum tautar hún eitthvað við sjálfa sig. En hún hefur gert allt voða vel, fer auðvitað hægt, annað getur maður ekki í þessum hita, en virðist geta séð hvað þarf að gera. Hún prófaði meira að segja ryksuguna í dag, mikil meðmæli með konunni!! Svo við ætlum að vera saman áfram,Vivet og ég! Eins og hinum, fannst henni ævintýralegt að sjá myndina af sér strax og ég tók hana, ég prentaði út eina handa henni til að fara með heim. Á að fara í ramma segir hún!


fimmtudagur, júní 15, 2006


Mér til mikillar ánægju komu ekki væntanlegir kaupendur til að skoða í gær. Vonandi eru þau bara hætt við! Það var líka ýmislegt annað að hugsa um í gær, fluttningsmennirnir mættu með hlaupahjólið sem á stuðla að bættu heilsufari okkar hjóna! Innfæddi rafvirkinn (sá sem sat sem lengst á stólnum hjá mér um daginn og hlustaði á Guitar Islancio!) var fleiri klukkutíma að koma því saman, Sigfús kom og aðstoðaði hann um tíma og eins og sjá má svitnuðu þeir vel við átökin!

En upp komst bandið og það virkar! Ég prófaði það seinnipartinn (en fyrst þegar ég var ein heima!) og mér fannst ég vera eins og auglýsing úr sjónvarpsmarkaðinum, var eins og þessar amerísku húsmæður (kannske ekki alveg eins "fit" og þær!!) þegar ég var að keyra bandinu um og stilla því upp fyrir framan sjónvarpið! Afar fyndið, en þetta er svolítið sniðugt, það verð ég að viðurkenna! Svo nú er engin afsökun, það verður gengið hér undir loftkælingunni tvisvar á dag!

Hitastigið hækkar með hverjum deginum og ég verð að sætta mig við að hafa allt lokað út, annars verður hreinlega ólíft hér inni. Það er reyndar nú þegar að verða ólíft inni á kontórnum, en á morgun kemur André gas- og loftræstimaður og setur upp loftkælingu fyrir mig. Í gær heyrðust þrumur í fjarska, það var líka heilmikill vindur. Það var víst rest af fellibylnum Alberto sem fór framhjá hér fyrir norðan Jamaica á leið sinni yfir Florída. Það er mikið talað um fellibyli núna, kom fólki á óvart hvað þessi kom snemma. Er víst reiknað með mörgum í ár og fólk hvatt til að vera á verði. Við kunnum náttúrulega ekkert að undirbúa okkur fyrir fellibyl, hvað gerir maður? Sigfús kom heim með bækling í gær sem fjallar um hvaða ráðstafanir maður á að gera. Á meðan Bandaríkjamenn tala um að hafa vatn og mat heima fyrir 2-3 daga, er hérna mælt með að hafa birgðir til 10-12 daga! Það gengur mun hægar að skaffa hluti hingað ef allt fer í vitlaysu. Svo það er líklega best að fara að hamstra! En hvað á að hamstra? Vatnið auðvitað, en hvað meira? Rauðvín? Niðursoðna skinku? Ég veit það ekki! Einhverjar tillögur? ;-)


þriðjudagur, júní 13, 2006

Mér urðu heldur betur á mistök þegar ég setti inn mynd af mér og ömmustrákunum mínum í Álasundi; ég setti inn eldgamla mynd!! SORRY! Þeir hafa sko heldur betur stækkað síðan sú mynd var tekin. (Sá líka að ég var með gömlu gleraugun!!) Bæti hér úr með myndum frá Álasundi sem teknar voru í maí 2006.

Brynjar rjóður og sællegur eftir fótboltaæfinguna, þar var sko ekki gefið eftir þar! Skoraði flest mörk!

Aðaltöffarinn hann Bjarki sem verður 4 ára 18.júlí nk. Þarna nýbúinn að greiða sér með geli og hvað eina!

Og svo sæta parið hann Ari og hún Katherine.

Þetta var miklu betra!


Það er sérstök tilfinning að vera eina hvíta manneskjan, hvert sem litið er er ekki hvítt andlit að sjá. Ekki það að ég sé að ferðast út um allt þessa dagana, hef lítið farið út fyrir "mitt svæði", en samt! Maður er voða öðruvísi svona næpulegur! En það er ekki að sjá eða finna að hvítleiki minn trufli einn eða neinn, maður er bara móttekin eins og maður er. Velti fyrir mér hvernig í ósköpunum stendur á að það er svona lítill tolerance er í heiminum gagnvart öðruvísi útlítandi fólki?
Þegar ég var að fara til Evrópu um daginn spurði ég Barry hvort ég ætti að færa honu eitthvað frá Íslandi eða Danmörku. Svo naív sem ég var, hélt ég kannske að hann hefði áhuga á að sjá eitthvað frá þessum löndum sem eru honum svo fjarlæg. En það var nú aldeilis ekki! Eftir miklar umræður skildi ég loksins að hann vildi fá skó! Svona einhverskonar íþróttaskó. Aðspurður um hvaða númer hann notaði, sagði Barry gallharður "ég nota númer 38". Mér þótti það nú fremur ósennilegt og bað hann að sýna mér skó sem hann notaði (hann vinnur oftast á tásunum!), hann sótti þessa fínu skó sem einhver hafði gefið honum, þeir hefðu verið of stórir á Sigfús sem notar skónúmer 46! þá rann upp fyrir mér ljós, Barry hafði aldrei keypt sér skó sjálfur! Við Sigfús urðum sammála um að hann notaði ca. 43 og skó í því númeri keypti ég svo handa honum í Kaupmannahöfn. Barry varð óskaplega glaður yfir skónum og bað mig að taka mynd af sér í þeim! Hann sgðist ætla að nota þá þegar hann færi í bæinn til að sjarmera stelpur! Ferlegur hann Barry!

Nýja húshjálpin mín byrjaði í morgun. Hún heitir Vivet og kemur frá atvinnumiðlun kirkjunnar. Svona má nú líka nota kirkjuna! Ég reyni að læra af reynslunni og sagði Vivet að ég réði hana til reynslu í eina viku! Ætla ekki að sitja uppi með hana og kannske fá bálreiðan prest í heimsókn ef mér líkar ekki við hana. Eins og Lue er hún mikil kirkjumanneskja, en virðist allavega svona við fyrstu kynni hafa svolítið meira á milli eyrnanna en greyið hún Lue. En það er sama sagan hérna með ryksuguna; Vivet hafði reyndar séð svona fyrirbæri en aldrei notað, og virtist ekki vera mikið fyrir að prófa. Kannske er þetta bara svona, ryksugur eru ekki vinsælar í Montego Bay?! Hún er voða róleg en þægileg, svo ég er bísna bjartsýn. Hún veit líka eitthvað um bæinn og ætti að geta sagt mér og sýnt eitthvað af lífinu hérna. Verður spennandi að sjá hvernig vikan verður!
Leigumiðlarinn var að hringja, hún er að reyna að selja húsið "okkar" fyrir eigandann og ætlar að senda einhvern áhugasaman kaupanda á morgun. Vona bara ða viðkomandi lítist ekkert á þetta, hef sko ekki áhuga á að fara að flytja héðan. Nóg um flutninga í bili! Ég ætla ekki að mæla með þessum stað við þau!! Er ég ferlega vond?


mánudagur, júní 12, 2006

Verð að skipta þessu niður, finnst ég hafa svo mikið að segja!!


Flugferðirnar urðu margar á þessum 6 vikum, auk þess að fara tvisvar á milli Kaupmannahafnar og Íslands, var ég nokkra daga í Álasundi. Það er svo skelfilega langt á milli Álasunds og Montego Bay! Ömmustrákarnir hafa það fínt, eru náttúrulega yndislegir hver á sinn hátt og vaxa og dafna bæði á sál og líkama. Brynjar er farinn að sitja eins og unglingur, útlimirnir þvælast fyrir honum, nema þegar hann er að spila fótbolta, þá veit hann sko alveg hvað hann á að gera með lappirnar!! Litli kroppurinn hans Bjarka getur stundum ekki alveg hamið þann stóra persónuleika sem inni býr, en gerir sitt besta til að túlka allt það sem hann vill koma á framfæri, og það er mikið! Stóri strákurinn minn hann Ari sinnir tveim framkvæmdastjórastöðum eins og er, er byrjaður í útgerðastjórastöðunni í Lofoten en sinnir enn verskmiðjunni í Álasundi. Sem betur fer er þessu tvöfalda hlutverki að ljúka, þau flytja í lok júní og þá er "bara" eitt starf að hugsa um. Katherine fékk góða vinnu þarna uppfrá, sem lögfræðingur hjá skattinum, nokkuð sem hún er mjög ánægð með. Bjarki búinn að fá pláss á dagheimili svo nú vantar bara húsnæðið. Það var auðvitað óskaplega gaman að vera hjá þeim og með þeim, við sjáumst bara svo sjaldan. Fjölskyldan ásamt Guðbjörgu stefnir að að halda jól í Montego Bay, þið getið nærri hvort ég hlakka ekki til!
Á meðan ég var í Álasundi hélt ég mitt fyrsta norska námskeið. Það gekk reglulega vel, lítil sem engin tungumálavandræði og allir voða ánægðir með námskeiðið. Þó var einu sinni krítiskt ástand, ég var að tala um hlátur og sagði eitthvað um mikilvægi þess að "grine" (danska=> hlægja). Skildi ekki hvað allir voru alvarlegir fyrr en hún Jenný benti mér á að á norsku þýddi "grine" að gráta! En Jenný var leynitúlkurinn minn á námskeiðinu, hún er Dalvíkingur sem býr í Álasundi og er í hjúkrunarnámi þar. Jenný gerði mér þann heiður að sitja námskeiðið.
Ég var mátulega búin að "etablera" mig og Nordic Lights í Álasundi þegar Ari og co eru að flytja! En þá er bara að satsa á Lofoten næst!

Eins og ég sagði fór ég tvær ferðir til Íslands, þá fyrri til að halda námskeið og fyrirlestra, en þá seinni til að vera með Sigfúsi að halda uppá 50 ára stúdentsafmæli hans. Þarna stendur hann fyrir utan æskuheimili sitt í Norðurmýrinni, það er ekki að sjá að þarna sé á ferðinni náungi sem varð stúdent fyrir 50 árum! Flottur kall hann Sigfús minn! Við vorum viðstödd útskrift nýstúdenta frá MR, þar hélt m.a. hr. Sigurbjörn Einarsson biskup ræðu, en hann átti 75 ára stúdentsafmæli. Hann var svolítið fótafúinn, en það var sko ekki mikill fúi í kollinum á þeim gamla. Ótrúlega ern og skemmtilegur.

Auk þass að vera með í Demensdögunum í Kaupmannahöfn náði ég líka að sitja 18. norrænu ráðstefnuna í gerontologi, en hún var haldin í Jyväskylä í Finnlandi. Áhugaverð ráðstefna eins og venjulega, þótt ekki sé neitt ákveðið "gegnumbrot" á sviðinu. Hef mikið lesefni með eftir túrinn.
Þrátt fyrir miklar annir, var smá tími til að hitta vini og ættingja, hefði þó gjarna viljað hafa meiri tíma til þess arna. Þetta plan mitt var náttúrulega brjálað, á þessum 6 vikum urðu flugferðirnar 14 og tímasónarnir sem ég fór á milli voru 5 talsins. En ég gat bara ekki gert þetta öðruvísi, var búin að skuldbinda mig á margan hátt áður en Jamaica varð að veruleika. En þetta geri ég ekki aftur!! Sálin mín var löngu búin að gefast upp við að hafa stjórn á hvar hún var stödd og lagðist í dvala síðustu vikurnar. Það er fyrst núna, eftir tvær nætur í MoBay sem hún er farin að gera vart við sig aftur, mikið sem ég er fegin!

Í það heila gekk allt vel og var gaman. Þó bar skugga á, minn góði vinur Stefán Karlsson dó í Kaupmannahöfn 3. maí. Því miður gat ég hvorki verið við jarðaförina hans á Íslandi, né við minningarathöfnina sem haldin var í Kaupmannahöfn. En ég náði að vera með honum eina kvöldstund í íbúðinni sem hann hafði í Nyhavn, var reyndar sú síðasta sem naut samvista við hann í þessu lífi. Stefáns er sárt saknað.

En líf okkar hinna heldur áfram, mitt hér í Montego Bay þar sem m.a. kolibrifuglar og eðlur gera daginn minn öðruvísi en ef ég í Kaupmannahöfn eða Reykjavík. Læt ykkur fylgjast með hvað á daga mína drífur. KNUS

Heil og sæl, þá er rastabloggarinn "på banen igen"!! Einkennilegt með þessa bloggaraþörf, mér datt ekki blogg í hug þessar vikur sem ég var í Evrópu, en var vart komin inn á Taylor Road fyrr en ég fór að hugsa um hvað væri langt síðan ég skrifaði fréttir. Það er ekki eins og ekkert hafi gerst þessar 6 vikur!! En ég er sumsé komin heim til MoBay, allt var í besta lagi, enda hafði Barry litið til með íbúð og blómum. Hann var voða glaður að sjá okkur, kom hlaupandi á tásunum, kallandi eitthvað óskiljanlegt og brosti öll ósköp. Innandyra var heilmikið líf, eðlubarn var flutt inn í stofuna og heilt maurasamfélag var á góðri leið með að byggja upp stórveldi í öllum herbergjum hússins. Þeir fengu nú fljótlega að finna hver hér réði húsum og með aðstoð frá eiturbauknum ógurlega urðu hústökudraumar þeirra að engu. Daman sem passaði uppá hann Sigfús minn eftir ég fór hafði greinilega ekki verið mjög teygjanleg, því allt sem var hærra en 1 meter frá gólfi hafði hún ekki snert og finnst mér nú að ég þurfi að byrja frá byrjun, sápa, skrúbbar og bekkjarýjur aftur út um allt!! PÚFF!! En nóg um þetta í bili, smá rapport frá síðustu vikum;

Fyrst ber að telja stóra áfangann hjá henni Guðbjörgu, en 27. apríl sl. opnaði hún ásamt stöllum sínum frá skólanum verslunina Møjtøj.Verkstæðið sem er í sama húsnæði var tilbúið nokkrum vikum áður og þarna hanna þær og sauma designföt og fylgihluti. Glæsilegt framtak hjá þessum ungu konum og flottir hlutir sem eru framleiddir þarna. Kikkið endilega framhjá þegar þið eruð í Kaupmannahöfn, þetta er rétt hjá Nørreport (pínlegt, en ég man ekki adressuna, kemur seinna! (Guðbjörg, viltu setja adressuna inn!) Það var gaman að geta verið með við opnunina.
Þarf að fara núna, meira seinna!KNUS

This page is powered by Blogger. Isn't yours?