miðvikudagur, apríl 12, 2006

Þessi litla hnáta býr hérna á móti okkur, algjört "bjútý" eins og flest af börnunum sem ég hef séð. En það er eitthvað að henni litla skinninu, hún er svona 3-4 ára, en talar ekkert, skríkir bara og brosir mikið. Göngulagið hennar er eins og að hún sé nýfarin að labba, er rosalega hjólbeinótt og dettur oft. Hún kemur stundum inn í garðinn með barnfóstrunni sinni og finnst við Sigfús voða áhugaverð! Stundum er stóri bróðir með, hann passar vel upp á litlu systur! Ég er ekki búin að ná nafninu hennar, en hún er farin að þekkja mig og kemur gjarna til mín þegar hún sér mig, og ég hef meira að segja fengið að halda á henni! Þrátt fyrir að hún sé greinilega ekki alveg heilbrigð, er hún svo óskaplega glöð og falleg, og það er augljóslega hugsað mjög vel um hana. Það eru fleiri börn hérna í húsunum í kring, en þau koma aldrei út. Einn lítill gutti er í næsta húsi, hann er ekki eins lukkulegur og þessi stúlka, hann hangir vælandi klukkutímunum saman við gluggarimlana og ég hef aldrei séð hann úti. Mundi maður ekki fara með krakkana í laugina og leika við þau þar? Þeim er auðvitað líka heitt, og svo þurfa þau að hreyfa sig. Ég sæi hann Bjarka Örn Arason í anda ef ætti að loka hann inni í íbúð allan daginn! Og reyndar hvaða barn sem er, þetta er náttúrulega ekki sniðugt. En þau eru svo hrædd um börnin sín, fékk ég að vita um daginn. Kannse þora mömmurnar ekki út með þau?
Uppgötvaði í gær að ég er búin að missa neglurnar á mér í þvílíka lengd, er orðin eins og norn til handanna! Þegar svona er komið ræð ég ekkert við þetta sjálf og ætla að prófa að fara í handsnyrtingu hérna. Veit ekkert hvort þær kunna á neglur ein og mínar, konurnar hérna sem á annað borð eru með einhverjar neglur, eru með þessar svaka gerfineglur í öllum regnbogans litum. Kannske get ég fengið eitthvað skraut á mínar!! Verður spennandi að prófa!
Comments:
Skrifa ummæli