.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

mánudagur, júní 12, 2006

Verð að skipta þessu niður, finnst ég hafa svo mikið að segja!!


Flugferðirnar urðu margar á þessum 6 vikum, auk þess að fara tvisvar á milli Kaupmannahafnar og Íslands, var ég nokkra daga í Álasundi. Það er svo skelfilega langt á milli Álasunds og Montego Bay! Ömmustrákarnir hafa það fínt, eru náttúrulega yndislegir hver á sinn hátt og vaxa og dafna bæði á sál og líkama. Brynjar er farinn að sitja eins og unglingur, útlimirnir þvælast fyrir honum, nema þegar hann er að spila fótbolta, þá veit hann sko alveg hvað hann á að gera með lappirnar!! Litli kroppurinn hans Bjarka getur stundum ekki alveg hamið þann stóra persónuleika sem inni býr, en gerir sitt besta til að túlka allt það sem hann vill koma á framfæri, og það er mikið! Stóri strákurinn minn hann Ari sinnir tveim framkvæmdastjórastöðum eins og er, er byrjaður í útgerðastjórastöðunni í Lofoten en sinnir enn verskmiðjunni í Álasundi. Sem betur fer er þessu tvöfalda hlutverki að ljúka, þau flytja í lok júní og þá er "bara" eitt starf að hugsa um. Katherine fékk góða vinnu þarna uppfrá, sem lögfræðingur hjá skattinum, nokkuð sem hún er mjög ánægð með. Bjarki búinn að fá pláss á dagheimili svo nú vantar bara húsnæðið. Það var auðvitað óskaplega gaman að vera hjá þeim og með þeim, við sjáumst bara svo sjaldan. Fjölskyldan ásamt Guðbjörgu stefnir að að halda jól í Montego Bay, þið getið nærri hvort ég hlakka ekki til!
Á meðan ég var í Álasundi hélt ég mitt fyrsta norska námskeið. Það gekk reglulega vel, lítil sem engin tungumálavandræði og allir voða ánægðir með námskeiðið. Þó var einu sinni krítiskt ástand, ég var að tala um hlátur og sagði eitthvað um mikilvægi þess að "grine" (danska=> hlægja). Skildi ekki hvað allir voru alvarlegir fyrr en hún Jenný benti mér á að á norsku þýddi "grine" að gráta! En Jenný var leynitúlkurinn minn á námskeiðinu, hún er Dalvíkingur sem býr í Álasundi og er í hjúkrunarnámi þar. Jenný gerði mér þann heiður að sitja námskeiðið.
Ég var mátulega búin að "etablera" mig og Nordic Lights í Álasundi þegar Ari og co eru að flytja! En þá er bara að satsa á Lofoten næst!

Eins og ég sagði fór ég tvær ferðir til Íslands, þá fyrri til að halda námskeið og fyrirlestra, en þá seinni til að vera með Sigfúsi að halda uppá 50 ára stúdentsafmæli hans. Þarna stendur hann fyrir utan æskuheimili sitt í Norðurmýrinni, það er ekki að sjá að þarna sé á ferðinni náungi sem varð stúdent fyrir 50 árum! Flottur kall hann Sigfús minn! Við vorum viðstödd útskrift nýstúdenta frá MR, þar hélt m.a. hr. Sigurbjörn Einarsson biskup ræðu, en hann átti 75 ára stúdentsafmæli. Hann var svolítið fótafúinn, en það var sko ekki mikill fúi í kollinum á þeim gamla. Ótrúlega ern og skemmtilegur.

Auk þass að vera með í Demensdögunum í Kaupmannahöfn náði ég líka að sitja 18. norrænu ráðstefnuna í gerontologi, en hún var haldin í Jyväskylä í Finnlandi. Áhugaverð ráðstefna eins og venjulega, þótt ekki sé neitt ákveðið "gegnumbrot" á sviðinu. Hef mikið lesefni með eftir túrinn.
Þrátt fyrir miklar annir, var smá tími til að hitta vini og ættingja, hefði þó gjarna viljað hafa meiri tíma til þess arna. Þetta plan mitt var náttúrulega brjálað, á þessum 6 vikum urðu flugferðirnar 14 og tímasónarnir sem ég fór á milli voru 5 talsins. En ég gat bara ekki gert þetta öðruvísi, var búin að skuldbinda mig á margan hátt áður en Jamaica varð að veruleika. En þetta geri ég ekki aftur!! Sálin mín var löngu búin að gefast upp við að hafa stjórn á hvar hún var stödd og lagðist í dvala síðustu vikurnar. Það er fyrst núna, eftir tvær nætur í MoBay sem hún er farin að gera vart við sig aftur, mikið sem ég er fegin!

Í það heila gekk allt vel og var gaman. Þó bar skugga á, minn góði vinur Stefán Karlsson dó í Kaupmannahöfn 3. maí. Því miður gat ég hvorki verið við jarðaförina hans á Íslandi, né við minningarathöfnina sem haldin var í Kaupmannahöfn. En ég náði að vera með honum eina kvöldstund í íbúðinni sem hann hafði í Nyhavn, var reyndar sú síðasta sem naut samvista við hann í þessu lífi. Stefáns er sárt saknað.

En líf okkar hinna heldur áfram, mitt hér í Montego Bay þar sem m.a. kolibrifuglar og eðlur gera daginn minn öðruvísi en ef ég í Kaupmannahöfn eða Reykjavík. Læt ykkur fylgjast með hvað á daga mína drífur. KNUS

Comments: Skrifa ummæli


This page is powered by Blogger. Isn't yours?