.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

mánudagur, júlí 24, 2006

Djöfulgangurinn í Líbanon hefur ekki farið fram hjá neinum, jafnvel ekki svokölluðu "óupplýstu" fólki eins og Barry og fleirum innfæddum Jamaicabúum. Ekki ætla ég nú að fara að halda úti pólitískum umræðum á blogginu mínu, en get þó ekki orða bundist; er ekki með ólíkindum að einni þjóð leyfist að ganga berserksgang í landi annarrar, sprengja, brenna, myrða og nauðga saklausum landsmönnum - og allt í skjóli þriðju þjóðarinnar sem m.a. sér þeim fyrir morðvopnunum? Og það sem er öllu verra; margir sem telja sig tilheyra siðmenntuðum hluta heimsins, þeir styðja misyndismennina. Við tölum fjálglega um hnattvæðingu og að landamæri séu að heyra sögunni til. En hefur það ekki líka einhverja ábyrgð í för með sér? Er útþurrkun landamæra eingöngu til að við getum farið allra okkar ferða og náð okkur í það sem við viljum eiga? Er engin samhyggð innifalin í hnattvæðingunni? Greinilega ekki, það hefur eitthvað mikilvægt gleymst. Tengdafólk Odds, sonar Sigfúsar býr í Beirút. Marianne vinkona mín býr rétt norðan við Beirút. Við Sigfús vorum í Libanon fyrir tæpum 4 árum. Mágur Odds fór með okkur um Beirút og sýndi stoltur hvað búið var að byggja mikið upp eftir margra ára bombubrjálæði. Falleg og tíguleg minnismerki minntu á hörmungarnar, en fólkið leit fram á veginn og lagði mikið á sig til að gera borgina aftur að borg þar sem fólk lifði og bjó á eðlilegann máta. En það var mikið verk óunnið. Allt um kring voru hús og byggingar götuð af byssukúlum og sprengjum. Margt verður aldrei byggt upp, sérstaklega niðurbrotnar sálir sem lifa við eilífan ótta. Rina tengdadóttir Sigfúsar ber sprengjubrot í líkamanum alla æfi, eftir að hús foreldra hennar verð fyrir einni af sprengjunum og lennti á þeim hluta hússins sem hún svaf í. Sum brotin var hægt að fjarlægja, önnur ekki. Hún ber minninguna með sér bæði á sál og í líkama. Foreldrar hennar eru nú gamlar manneskjur sem geta ekki ferðast langt, þau geta ekki komist í öryggið til dóttur sinnar á Kirkjubæjarklaustri. Þau þurfa að láta nægja að fara rétt norður fyrir Beirút og vona að þar falli ekki margar sprengjur og að staðurinn vekji ekki athygli sjúkhugsandi óvinahermanna. Ég talaði við Marianne í síma í gær. Hún og börnin hennar 3 eru sem betur fer komin til Svíþjóðar. Þau eru í öryggi hjá Ingrid í friðsamlegu umhverfi skerjagarðsins. En það eru óskapleg margir eftir í Libanon, m.a. Ibrahim. Brjálæðið heldur áfram. Hvernig stendur á að þetta er látið viðgangast? Hvernig stendur á að við sem manneskjur sættum okkur við að svona nokkuð viðgangist? Fólk flykkist utan úr heimi til að verja íslenska hvali og íslenska náttúru. Ekki að það séu ekki miklivægur auður. En hvað með mannauðinn? Hvað um líf og heilsu lifandi fólks. Á hvaða skala siðmenningar er það metið? Er ekki verðmætamat heimsins orðið eitthvað brenglað? Er það þetta sem við meinum með þróun siðmenningarinnar? Það getur bara ekki verið.

Comments: Skrifa ummæli


This page is powered by Blogger. Isn't yours?