mánudagur, júlí 03, 2006

Svo fór ég í kirkju með Miss Moniku! Það var nú meira maraþonið, fjóra tíma tók þetta og kirkjan án loftkælingar!! Monika fór á undan, hún vinnur eitthvað í kirkjunni. Ég ætlaði nú ekki að vera eins og Unnur og Guddi, og var komin tímanlega, rétt upp úr hálf fjögur en athöfnin átti að byrja kl. 4. Ég hefði ekki þurft að flýta mér svona, því jamaicatíminn gildir greinilega líka í kirkjunni. Fyrsta klukkutímann notaði fólkið til að ganga á milli og ræða málin, bara í rólegheitunum! Presturinn líka! Að fara í kirkju þýðir augljóslega líka að sýna sig og sjá aðra, fá fréttir og spjalla. "Alveg eins og á Íslandi í gamla daga", hugsaði ég og fylgdist grannt með!

En um fimmleitið kom fylkingin inn, prestar og tónlistarmenn sem voru sérstakir gestir dagsins. Það var hópur karabíufólks sem býr í Kaliforníu og sérsvið þeirra er að "Making God real through sounds of steel". Legg ekki meira á ykkur! Með trommum úr stáltunnum (55 gallóna tunnum!) frömdu þeir slíka músíkina að maður sat bara agndofa. Þessar trommur eru upphaflega búnar til í seinni heimstyrjöldinni á Trinidad og eru víst eina hljóðfærið sem fundið var upp á tuttugustu öldinni. Listamennirnir hafa allir "gengið til liðs við Guð" og fara um og predika og spila rosalega flotta músík, bæði sálma og gospel.
þeir tóku meira að segja líka lög eftir Harry Belafonte og Bob Marley!!

Með í för var prestur, hann er víst einhverskonar formaður hópsins. Og þvílíkur ræðumaður! Hvað voru þeir nú aftur kallaðir stóru predikararnir? kraftaprestar? eldprestar? æi. ég man það ekki, en þessi var rosalegur! Leikrænu tilburðirnir voru miklir og orðaflaumurinn ofboðslegur. M.a. "demostreraði" hann líf Jesús og þarna var hann kominn að krossfestingunni, með fjólublátt sjal og bastkórónu, stynjandi og ranghvolfandi augunum
fór hann með öll þau orðaskipti sem talið er að hafi farið fram á Golgata þarna um árið. Ég sat beint fyrir framan manninn, og fékk sterkt á tilfinninguna að hann væri að tala beint til mín, ég væri aðalsyndarinn í kirkjunni að þessu sinni, og skildi hverju sem tautaði og raulaði fá frelsun!! Kirkjugestir hlógu mikið og kölluðu "hallelúja, amen og já, já" og við hvert frammíkallið elfdist prestur til muna og fór að lokum á þvílíkt flugið!! Verð að viðurkenna að þótt mér findist þetta hálf óhugnarlegt, átti ég afar erfitt með að halda niðri í mér hlátrinum, þetta var reyndar óskaplega fyndið! En allir voru voða góðir við hvern annan, margir komu og töluðu við mig og sýndu áhuga á hver ég væri og hvaða kirkju ég tilheyrði! Ég fór heim með góða tilfinningu, CD með stálmúsík og símanúmer konu sem sat aftan við mig, lofaði að hringja í hana við fyrsta tækifæri! Hvenær fóruð þið síðast í kirkju?!!! KNUS
Comments:
Nú er ég að gera tilraunir með að gefa þeim hérna heima, á bara enga míníatúr vodkaflösku!!Þú kemur bara með eina!!KNUS
Skrifa ummæli