miðvikudagur, júlí 12, 2006

Loksins, loksins! Eftir nærri þriggja mánaða gíslatöku í Kingston kom "bláa bjútýið" mitt heim í dag! Ég var farin að skilja hvernig fólki sem er að ættleiða barn líður; fyrir löngu búið að fá mynd af þessari elsku, en byrokratíið og mannleg hægvirkni tefur fyrir sameiningunni! En þetta tókst að lokum og Bobby bílstjóri var svo elskulegur að keyra bílinn til MoBay fyrir mig. Reyndar held ég að Bobby hafi ekkert leiðst þetta, fékk frí úr vinnunni og svo var spanderað á hann flugferð til baka til Kingston. Fer örugglega ekki oft í flugtúr!
En þetta er semsé nýji bíllinn minn, splunkunýr Nissan March, með númerinu 8724 EU. Lítill, en svolítið bústinn, rennilegur en þó með smá "kúrfur" hér og hvar. Mjúkur, snyrtilegur og bráðfallegur. Þannig að mér finnst ekki vera spurning; þessi bíll er kvenkyns! Svo nú er að finna nafn á gripinn. Sonarsonur minn hann Brynjar Örn þyrfti að vera hjá mér núna, hann yrði ekki lengi að finna viðeigandi nafn. Honum tókst ekki lítið vel upp með að nafngefa hann Brúsa minn þarna um árið! Ég er vissum að hann spreytir sig heima í Álasundi, en ég er opin fyrir góðum nöfnum ef einhver ykkar fær hugljómun!Búin að berja nokkrar síður frá Kitwood yfir á íslensku í dag, svo nú á ég skilið að skreppa út og lofa nýja fjölskyldumeðlimnum að skoða bæinn!! KNUS frá okkur báðum!
Comments:
Skrifa ummæli