.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Þá er Barry mættur aftur í vinnuna eftir maraþon-jarðarfarar-undirbúning. Það er sko meira en að segja það að standa fyrir slíkri athöfn hér um slóðir. Sem betur fór, fyrir Barry, þá var blessuð konan "bara konan hans pabba" sem átti sjálf 2 börn sem komu Barry til aðstoðar. En þetta er búið að vera næstum þriggja vikna törn, sem lauk með jarðarförinni í fyrradag. Þegar loksins var búið að taka gröfina, þurfti (eins og ég held ég hafi sagt ykkur áður) að steypa fóðringu í hliðar og botn og þegar það loksins þornaði voru hin ýmsu tákn og setningar máluð á steypuna.´Á meðan karlmenn í þorpinu hjálpuði Barry við þetta, var líkvaka í húsi þeirrar gömlu (hún var sjálf á daggjöldum í leiguboxinu), þar var sólarhringsvakt og eftir því sem mér skildist stanslaust át og líkjördrykkja! Það þarf nú eitthvað til, hugsaði ég, þetta er a.m.k. 14 daga úthald fyrir mann og annan! Enda sagði Barry mér að allir jamaicabúar með sómatilfinningu söfnuðu (alla æfina!) fyrir jarðarförinni og þeir sem ekki ættu fyrir líkvöku og ættu ekki vini eða fjölskyldu sem gæti borgað, þeir væru sko í vondum málum! Kæmust ekki á "góða staðinn" og væru bara brenndir og þeim hreinlega hent! verulega vondir menn, sagði Barry, sem lögreglan þyrfti að skjóta ættu ekki von á góðu. Ef einhver fjölskylda var fyrir hendi, var henni boðið að taka líkið, en þá þurftu þau líka að borga löggunni fyrir kúluna sem drap "vonda manninn". Þannig að þeir sem eiga nóg með sig, láta lögguna um þetta og þá er náunganum hreinlega hent! Ja, þvílíkt.
En allavega tókst Barry og félögum að klára undirbúninginn í tíma og fólk flykktist að (enda frídagur og greinilega nóg að borða!) Þá vildi nú ekki betur til en svo að gáttir himinsins opnuðust og rigningin eins og hún gerist best hér á þessum tíma, helltist yfir syrgjendurnar.
Svæðið er ekki grasi vaxið eins og hérna sagði Barry og potaði í iðagrænt grasið yfir utan dyrnar hjá mér, það er bara mold. Hljómsveitin sem átti að spila við gröfina varð frá að hverfa með stóru trommurnar sínar, ekki viðlit að leggja þær frá sér. Þeir sem ætluðu að láta sig hafa það að fara að gröfinni sukku í leðjuna og sumir sátu fastir. En þetta fór allt vel, þeir komu þeirri gömlu í gröfina og komust í hús þar sem nóg var að bíta og brenna. Nú var búið að bæta bjór ofan í líkjörinn og allir voru sáttir. En eins og Barry sagði alvarlegur í bragði; "henni var nær, hún valdi að deyja á regntímanum". Orð að sönnu!

Comments:
En er Jamaca ekki þokkalega lítil eyja?? Verður öll eyjan tekin undir grafir á endanum? Eins gott að fuglaflensan stingi sér ekki niður þarna, þá þarf kannski að hætta við að leggja þennan veg. Nema grafirnar verði þá notaðar sem undirlag.........
Já eins gott að maður deyji ekki á regntíma. Hvenær er annars regntími á Íslandi? Er það ekki alltf he,he Ég bíð spent eftir frekari frásögnum

Knús og kossar
Systa
 
Skrifa ummæli


This page is powered by Blogger. Isn't yours?