laugardagur, ágúst 26, 2006

Ernesto nálgast okkur nú óðfluga og virðist ekki hafa skipt um skoðun; hann ætlar sér beint yfir okkur. Byrjað smávegis að hvessa og við erum búin að taka allt lauslegt inn. Það er svolítið skrítin tilfinning að vita að þetta er á leiðinni, en vita samt ekki hvað "þetta" er. En frábært að hægt er að fylgjast svona með og sjá hvernig þetta náttúrufyrirbæri hagar sér. Sem Íslendingar erum við ekki óvön náttúruhamförum, en þetta er annað, við þekkjum ekki áhrifin. Við erum fegin að sá fyrsti sem við upplifum virðist ekki vera rosalega stór, hann vex til muna þegar hann er kominn framhjá. En við getum ekki betur séð, en að augað í honum Ernesto góni beint niður á Taylor Road á leið sinni yfir Jamaica og gott ef ekki hreinlega Taylor Road númer 1080! Jarðskjálftarnir á Íslandi koma "bara" rétt sisvona og svo er það "bara" það. Nú magnast spenningurinn með hverjum klukkutíma sem líður, hvessir meira og meira; hvín meira og meira; Hvernig ætli það sé að vera mitt í fellibyl? Við fáum svarið von bráðar!
Comments:
Skrifa ummæli