laugardagur, ágúst 12, 2006

Flestir eru af indversku bergi brotnir, en eru jamaicabúar. Allt voða notalegt fólk og auðvelt að vera með. Beint á móti mér sat eiginkona eins gimsteinamannsins (og tengdadóttir annars!) og það lá nú við að ég þyrfti að setja upp sólgleraugun til að geta horft á hana. Þvílíkir demantar ssem konan bar! Ofboðslega fallegt hálsmen og þessir svaka eyrnalokkar, allt þakið demöntum sem glitruðu eins og Svarti Demanturinn í Kaupmannahöfn þegar hann er upp á sitt besta. Ég gat ekki orða bundist og hrósaði skartinu, hún sagði mér þá voða hreykin, að stóra demantinum sem hékk neðst á lokkunum gæti hún skipt út og sett aðra og öðruvísi demanta á. "Smart" sagði ég imponeruð! Sá sem stóð fyrir veislunni er þingmaður og stjórnarandstöðuráðherra ferðamála á Jamaica. Nú eru kosningar framundan á næstu mánuðum og þeir ætla sér náttúrulega að komast í alvöru stjórn. Forsætisráðherraefnið þeirra var þarna og hélt tölu. Með eindæmum lítil útgeislun frá manninum. Hann hefur ekki séns í hana Porcíu! Hann var svona blanda af Steingrími Hermannssyni og Kjartani Jóhannssyni, þó er/var Steingrímur mun huggulegri!!! Handtakið var slappt og það sem ég skildi af ræðunni hans var hálfleiðinlegt! Ég hitti ma. þarna konu sem er brúðkaupsskipuleggjandi og var afar áhugsöm þegar ég sagði henni að við hefðum mér vitanlega ekkert svoleiðis á Íslandi. "Eru mennirnir þar myndarlegir" spurði hún (er greinilega á útkíkki eftir mann handa sér!). Ég benti henni á Sigfús og sagði að það þyrfti nú ekki frekar vitnanna við og með það sama bað hún um símanúmerin okkar! Kannski á hún eftir að skipuleggja brúðkaup á Íslandi, þó ekki væri nema sitt eigið! En í gærkvöldi upplifði ég enn og hvað jamaicabúar eru þægilegt fólk, vingjarnlegt og óhemju kurteist. Sumsé, þetta var afar velheppnað kvöld og skemmtilegt þar að auki.
Comments:
Skrifa ummæli