.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

fimmtudagur, september 28, 2006

þegar ég fór til Evrópu í vor notaði ég tækifærið til að segja greyinu henni Lue upp. Sigfús gat ekki hugsað sér að hafa hana nálægt sér, það voru svo svakaleg lætin í henni og svo varð alltaf einhver að vera yfir henni annars varð allt vitlaust! Eins og þið kannske munið, lánaði Miss Monika okkur "sína" 2 daga í viku til að halda í horfinu hérna heima. Moniku húshjálp er eldgömul lítil kona sem getur varla hreyft sig fyrir gigt og árangurinn af þrifunum var í samræmi við það. Allt ofar en 70 centimetrar var haugdrullugt þegar ég kom heim, hún gat hreinlega ekki teygt sig! Nú líður að næstu ferð minni og ég ætla sko ekki að láta allt falla í svað á meðan og Sigfús hefur nóg annað að hugsa um. Svo nú er ég að undirbúa Vivet til að verða ekta "housekeeper" sem ma. felur í sér að hún þarf að þvo þvott. Vandamálið er bara að hún hefur aldrei sett þvottvél í gang. Það er ferlega skrítið að kenna á þvottavél, hef ekki velt þessu fyrir mér lengi. Maður bara "skellir í vél" án þess að hugsa svo mikið um hvernig maður gerir þetta. Að vísu kenndi ég Ara á þvottavélarnar á stúdentagörðunum í Gautaborg þarna um árið. Hann var þá að verða 9 ára og rosalegur buxnaböðull, það var ekki óalgengt að hann færi með 3 pör á dag! Mér fannst upplagt að láta hann sjálfann þvo, þá hætti hann kannski að sóða sig svona rosalega út- hélt ég! Ari sýndi sig verða fyrirtaks þvottamaður, hafði bara gaman af, en hélt uppteknum hætti með buxnaböðlið! Hinar konurnar í þvottahúsinu horfðu á mig eins og ég væri algjör barnaníðingur! En aftur til Vivet; hún horfði alvarleg á mig á meðan ég útskýrði þetta tækniundur sem þvottvél hlýtur að vera fyrir hana og kinkaði kolli eins og hún skildi þetta allt. Sem hún kannski gerir, það á eftir að koma í ljós. En svo spurði hún: "hvar á ég að setja klórið"? Klórið... hugsaði ég og gaut autunum á skellóttu húfuna hans Sigfúsar sem hún var nýbúin að þvo í höndunum; fjandinn sjálfur, hér nota þau klór í allt og fína blágráa Nike-töffarahúfan hangir núna út á snúru, ljósblá með hvítum skellum. Ég held það verði þörf á framhaldstíma í þvottafræðum hérna á Taylor Road. En Vivet finnst nú ekki merkileg þessi stykki okkar sem ekki þola smáklórblöndu! Ég er farin að skilja allann þennan drifhvíta þvott sem hangir á öllum snúrum hérna. Og allar hyllurnar í búðinni sem eru fullar af klór í misstórum brúsum!

Comments:
He, he, já spáðu bara í það. Kannski hefur allur þessi hvíti þvottur á snúrunum eitt sinn verið marglitur, en ekki lifað af Jamaiskar þvotta aðferðir.
Kv,
Systa
 
Einmitt það sem mér datt í hug! Takk fyrir afmæliskveðjuna Systa mín, KNUS
 
Skrifa ummæli


This page is powered by Blogger. Isn't yours?