miðvikudagur, september 20, 2006

Svo hef ég nú þurft að sinna garðræktinni minni sem gengur nú allavega. Það er slíkur vöxturinn í sumu, en annað potast varla upp úr moldinni. Ég hef ekki við að stækka pottana fyrir paprikuplöntuna (þá sem lifði af froskapissið) og brokkolíið, basilikumið er farið að blómstra (hef alltaf átt svo erfitt með að halda lífi í basilikum), chili plantan vex og vex, en svo gengur ekkert með graslaukinn og persilliuna. Skrítið? Eitthvað sem ég veit ekkert hvað er tætist upp, ég skrifaði samviskusamlega nöfnin á fræunum á pappaspjöld og potaði niður í moldina þegar ég sáði, en athugaði ekkert að vökvunun leysti auðvitað upp alla skrift og reyndar pappann með! Svo nú eru einhverjar nafnlausar kryddjurtir í góðum vexti á veröndinni. Ég held áfram við að fínpússa Kitwood og reyni að betrumbæta þýðinguna. Er ekki búin að fá "feed-back" frá öllum sérfræðingunum ennþá og sum orð velkjast rosalega fyrir mér og öðrum. T.d. hugtakið "reminicence" sem hjá Kitwood (og reyndar fleirum) þýðir skamvinna endurheimtingu eða afturköllun á færni sem var glötuð. Á íslensku hefur þetta oftast verið kallað "endurminning" eða "minningarvinna", en það er bara ekki alveg það sama. Ég er voða upptekin af þessu núna og við líkamlega strengi mína bætist við "hugarstrengir", því ég hugsa svo mikið um þetta! Og til að kóróna álagið þá er ég í slíku histaminrússinu þessa dagana, moskítóið er blóðþyrst sem aldrei fyrr og situr um mig hvar sem ég er. Ég er komin í heilagt stríð við kvikindin, búin að koma eiturbaukum fyrir í öllum herbergjum (held líka gjarna á einum í hendinni!), geng um með rannsakandi augum og spara ekki úðann þegar ég kem auga á eitthvað kvikt. En allt kemur fyrir ekki, að kvöldi eru alltaf nokkur ný bit sem blása upp og gera mig líkasta Fílamanninum fræga. Það er sko eins gott að malaría er óþekkt á Jamaica, ég væri löngu dauð! En veðráttan er yndisleg!! KNUS í öll hús.