.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

miðvikudagur, desember 13, 2006

Ellefu dagar til jóla, Þrjú á palli syngja um að "gamla Gríla sé dauð", klukkan er að verða hálf sjö að morgni, hitamælirinn sýnir + 27 gráður og ég er nýbúin að veiða 5 cm. orm sem hafði tekið sér bólfestu á jólarósinni okkar. Það er svolítið erfitt að koma sér í hefðbundinn jólagír núna!
Þrátt fyrir tveggja mánaða ferðalag um norðlæga tímasóna, féll ég á augabragði inn í jamaicanskann rytma; sofna snemma og er uppi fyrir allar aldir. Ég varð ekki lítið undrandi í gærmorgun þegar ég uppgötvaði að það er líka skammdegi hérna. Ég ætlaði samkvæmt venju að heilsa morgni milli hálf sex og sex, en viti menn: það var kolsvarta myrkur! Sólin kom ekki upp fyrr en hálfsjö. En þá var allt eins og áður; fuglar og fiðrildi hófu flug sitt, söng og tíst; hundar geltu og hanar göluðu. Mér létti stórum, þetta var allt þarna, bara svolítið seinna á ferðinni!
Mér var vel fagnað við "heimkomuna", glaður Sigfús beið mín á vellinum, Barrý bisaði skælbrosandi risastórum og níðþungum töskunum mínum inn, "later, later Svaba" sagði hann og gaf mér hnefann og Vivet flaug upp um hálsinn á mér! Þeim fannst öllum ég vera búin að vera alltof lengi í burtu! Það var ósköp gott að koma heim á Taylor Road.

En það er líka búið að vera ósköp gott að vera heima á Íslandi og heima í Kaupmannahöfn! Ég var nú svo bjartsýn (eða öllu heldur naiv!) að ég hélt ég hefði svo lítið að gera þennan tíma sem ég var á ferðalaginu, ætlað mér að ná að gera svo mikið og hitta svo marga svo oft! En eins og oft áður misreiknaði ég fjölda klukkustunda í sólarhringnum og tókst ekki að gera allt sem ég vildi. En miklu náði ég þó og mikið sem var gott að hitta ykkur öll.


Ég fór auðvitað við fyrsta tækifæri til Noregs til strákanna minna sem hafa heldur betur stækkað síðan í vor. Nú eiga þau heima í Stamsund í Lofoten og hafa það gott þar. Það er afskaplega fallegt þarna, meira að segja núna í kulda og snjó! Hlakka til að sjá staðinn að sumri til. Þegar ég var hjá þeim bjuggu þau í bráðabirgðahúsnæði, verbúð alveg niður við sjóinn (amma hafði nú smááhyggjur þegar þeir komu inn og báðu um flotvestin sín því þeir voru að fara niður á bryggju og veiða!!). En nú eru þau flutt lengra frá bryggjunni og nær skóla og barnaheimili. Mér finnst svo sorglegt hvað ég sé þá sjaldan þessar elskur.
Dvöl mín á Íslandi varð ögn lengri en áætlað var, það tekur sinn tíma að undirbúa bók til útgáfu! Sem algjör byrjandi í þeim "bransa" gerði ég mér ekki grein fyrir umfangi verkefnisins og varð þetta meira en ég hafði átt von á. En ég afhenti handritið og nú á Jóhann Páll og hans starfsfólk næsta leik. Ef allt fer samkvæmt áætlun, kemur bókin út í mars 2007. Það verður spennandi!

Frestun ferðar til Jamaica gerði það að verkum að ég gat tekið þátt í útskriftinni hans Sturlu Jónssonar og Hafdísar, en hann kláraði með stæl flugvirkjanámið í Kaupmannahöfn 1. desember.
Það voru stoltir foreldrar og móðursystkini sem fögnuðu með honum. Flottur hann Sturla!

Í Kaupmannahöfn bjó ég á Kæjanum hjá Guðbjörgu þar sem ég hef "mitt" herbergi. Gott að vera hjá henni. Hún er á fullu í sínu, hannar og saumar flotta hluti.

Jæja, nú er Vivet komin á fulla ferð, hvað skyldi hún nú vera að stússast? Hún leggur metnað sinn í að gera allt voða vel, m.a. tók hún sig til einn daginn og skóf alla teflonhúðina af pönnunni, hélt að þetta væri eitthvað sem hafði brunnið við! það er ekki tutla eftir af teflóni á pönnunni, þetta hefur tekið hana heilan dag! Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt; innfæddir nota greinilega ekki teflonhúðaðar pönnur!! KNUS

Comments:
Það var gott þú koms heilu höldnu til Jamaica aftur. Ósköp er nú annars gaman að vera farin að heyra af ykkur aftur. Við biðjum kærlega að heilsa pabba.

Knús og kossar,
Systa og fjölskylda
 
Takk Systa mín og takk fyrir móttökurnar um daginn. KNUS til ykkar allra.
 
Við tökum okkur vel út þarna hjá flugvélinni! þetta var rosalega gaman og góður dagur. Knus. Hafdís.
 
Skrifa ummæli


This page is powered by Blogger. Isn't yours?