fimmtudagur, desember 14, 2006

Ég hitti nágrannakonurnar mínar, þær Monika og Evelin í dag. Var reyndar ekkert farin að skilja í að Miss Monika var ekkert farin að koma og líta eftir mér! En hún var þá bara svona tillitssöm; ég yrði að ná mér eftir ferðalegaið fannst henni áður en ég færi að fá heimsókn! Þær eru nú ósköp indælar báðar tvær og voru svo glaðar yfir að ég var komin heim!
Fólk hér um slóðir virðist ekki gera mikið mál útaf jólahátíðinni. Ég hef verið að spyrjast fyrir um hvernig jamaicanskir jólasiðir séu og það er fremur fátt um svör; enginn sérstakur jólamatur, stundum gefnar jólagjafir og stundum ekki, jólaskraut óþekkt hjá flestum og meira að segja jólasveinninn er hættur að láta sjá sig! En þess ber að gæta að ég hef mest verið að spyrja "venjulega" jamaicabúa, þ.e.a.s. það fólk sem ekki hefur alltof mikið á milli handanna. André gas og air-con sérfræðingur kom í gær til að hreinsa loftkælinguna og ég notaði tækifærið og spurði hann sprjörunum úr um jamaicönsk jól. André sagði þetta: Jólin eru hátíð ríka fólksins, við hin höfum ekki ráð á að halda jól eins og þau. Hann ólst upp (ásamt tveim systkinum) hjá einstæðri móður sinni og á þeim bæ voru aldrei aurar til að halda jól. Aldrei neinar jólagjafir því mamman notaði allt sitt til að mennta krakkana sína. Bara jerk-kjúklingur á jólunum eins og aðra daga. Ekkert jólaskraut, ekkert jólatré. Aftur á móti fer fjölskyldan niður í bæ á aðfangadagskvöld, því þar er alltaf mikið húllumhæ! Fullt af fólki í bænum, það er skotið upp rakettum og á hverju götuhorni er fjárhættuspil í gangi! "Meira að segja amma fer í bæinn og gamblar" sagði André og skellihló! Vivet fer í kirkju kl. 5 á jóladagsmorgun - og svo er ekki meira jólastand hjá henni. Ekkert jólatré og engar gjafir. Hún hafði ekki hugmynd um hvort, og þá hvar væri hægt að fá jólatré í MoBay. "Við höfum aldrei haft jólatré" sagði hún, "þau eru svo dýr". Hún hafði heyrt um að Santa hefði verið á ferðinni einhvern tímann í gamla daga, "en hann kemur ekki lengur svo ég viti til". Henni finnst líka voða fyndið þegar ég er að segja henni frá íslenskum jólahefðum og sveinum! Hún er sko aldeilis búin að fá eitthvað til að segja frá í götunni! Monika á gamalt jólatré, ca. 30 cm. hátt sem hún ætlar kannski að setja fram á borð. En hún fer í kirkju, oftar en einu sinni. Svo á ég eftir að heyra hvernig Barry ætlar að gera um jólin. Varla verður það mikið. En ef þetta er svona í öllu Karabíska hafinu, skil ég vel að Castro hafi komist upp með að fresta jólunum þarna um árið! Einhvernveginn finnst mér ekki við hæfi að segja þessu fátæka fólki hvernig fólk í mínum hluta heimsins lætur í sambandi við jólin. Það verður eitthvað svo gráðugt og yfirdrifið þegar þau hafa sagt manni sína hlið á málinu. Þau ættu bara að vita..........
Comments:
Hún er svo lítil þessi á myndinni!! Er hún miss Monica? Er það hún sem á litla jólatréið?
knus, Hafdís.
knus, Hafdís.
jibbý, svava er farin að blogga aftur :D er bara í vinnuni að raða nótum og bíð spennt eftir heimsókninni til Guðbjargar í janúar ;) ætla að reyna að kíkja í heimsókn til ykkar næsta sumar ;) knús :*
Skrifa ummæli