mánudagur, janúar 08, 2007

Það lá rosalega vel á grænmetissölunum mínum í dag. Sú gamla, skræka hló og lék við hvern sinn fingur og gaf mér meira að segja 3/4 hluta úr avokado. Þetta var síðasta avokadoið og hún var eitthvað búin að narta í það, en "pýt" ég sker bara úr því og samt verður eftir magn eins og úr 3-4 avokado sem maður kaupir á Íslandi. Þau eru svo svakalega stór hér. Aðstoðarmaðurinn tannlausi sló mér gullhamra og bað mig að vera lengi að versla, það væri svo góð lykt af ilmvatninu mínu! Þú verður að gefa kærustunni þinni svona ilm, sagði ég. "Á enga" svaraði hann. Nú ertu þá giftur? "Var það, hún hvarf", svarar hann og horfir til himins og fórnar höndum. Æi, greyið, hefur misst konuna, hugsa ég og ætlaði að fara að votta samúð mína þegar hann bætir við: "Fór, stakk af, yfirgaf mig"! OK, og hversvegna fór hún frá þér? spyr ég (eins og mér kæmi það eitthvað við!). Þá brestur sú gamla út í þennan þá svaka hlátur, slær sér á lær og tekur bakföll. "Já spurðu hann, spurðu hann" stundi hún milli rokanna. Sá tannlausi sem greinilega var líka skemmt, segir: "Það er löng, löng saga, viltu heyra hana núna?" Þar sem ég var ekki alveg viss um hvort þeim fannst svona fyndið að ég skyldi spyrja, eða hvort sagan var virkilega skemmtileg, ákvað ég að grípa til næst-algengasta frasa jamaicabúa: "Later my friend, later" og keyrði burtu með hálfétið avokado, eitt pund af grænni papriku og hlátrasköllin í þeim glymjandi í eyrunum!
Comments:
Skrifa ummæli