.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

föstudagur, janúar 05, 2007

Ósköp fannst mér sorgleg fréttin um gömlu konuna sem fannst dáin heima hjá sér í Reykjavík. Hafði líklega verið búin að liggja þarna dáin í meira en mánuð. Nágrannarnir höfðu eins og stóð í fréttinni "gert sér grein fyrir því að ekkert hafði sést til konunnar lengi og létu lögreglu vita". Ekki hafa nú verið mikil samskiptin í því húsinu. Og ég sem hélt að þetta væri ekki til á Íslandi! Eitt er að deyja einn, það getur átt fyrir okkur öllum að liggja; en að engin bregðist við fyrr en eftir mánuð! Þvílíkur einstæðingur.

Barry yrði allavega fljótur að taka eftir því ef ég hrykki óvænt upp af! Hann er búinn að sniglast í kringum mig í dag, voða alvarlegur eitthvað. Framan af hélt ég þetta hefði eitthvað með hana Nicole að gera; hún er ein af "maidunum" hérna í hverfinu og er alltaf eitthvað að nadskotast í Barry. Stendur stundum efst í garðinum og gargar af öllum lífs og sálarkröftum: "BARRY, BARRY, COME HERE!!!" Í dag var hún óvenju slæm, elti hann meira að segja að dyrunum hjá mér. Hún er líka óttaleg frekjudolla, ætlaði að fara að hirða "læmið mitt", þ.e. þetta eina lime sem er komið á limetréð sem ég aflúsaði í sumar og við Barry höfum fylgst spennt með vextinum hjá síðustu vikurnar! En það var greinilegt að Barry þurfti að segja eitthvað, og svo kom það loksins. Hann spurði hvað ég ætlaði að selja Jentuna á þegar við flyttum frá Jamaica! Hann er svo hrifinn af bílnum, en hefur ekki einu sinni bílpróf og að ég held, á enga peninga. Bíllinn er alveg nýr sagði ég og nýjir bílar eru svolítið dýrir. En þá ljóstrar Barry því upp að hann eigi eldri bróður í USA og bróðirinn sá arna á einhverja aura sem hann kannski myndi vilja gefa honum! Ég á nú eftir að spyrja nánar út í það! En allavega er hann alveg "húkt" á því að hann vilji eignast bíl, og skal vera Jentan!

Comments: Skrifa ummæli


This page is powered by Blogger. Isn't yours?