miðvikudagur, apríl 25, 2007
Ég hef verið lengi að komast inn í rútínuna mína aftur að þessu sinni (inkl. að blogga!). Venjulega þegar ég kem út "tætingsferðum" mínum til Evrópu þarf ég bara einn góðan nætursvefn og svo er eins og ég hafi aldrei farið. En það er öðruvísi núna, kannski af því að ég fór strax til Kúbu - eða kannski er það bara aldurinn?!! Nei auðvitað ekki, er lítið eldri en síðast! En það var ýmislegt sem þurfti að "falde på plads" hérna heima áður en ró féll yfir.
Það þurfti t.d. að hreinsa öll loftkælingaapparötin (þetta þarf að gera tvisvar á ári svo þau fyllist ekki af skít, flugum og bakteríum!) og André "gas-og airconmeistari" dundaði sér við það heilan dag. Fólkið hér vinnur svo rosalega hægt og allt tekur svo langan tíma. Sjálfsagt vegna þess að það er erfitt að hreyfa sig hratt í hitanum!
Vivet er gott dæmi um þetta, hún duddar allan daginn við að sópa og þurrka af - stundum þegar ég horfi á hana finnst mér eins og ég sé að horfa á mynd sem er sýnd i "slow motion"!!
Svo var heimilið að verða gaslaust og við svo búið mátti auðvitað ekki standa. Nú standa aftur tveir myndarlegir gaskútar á þvottaverandanum, fullir af gasi. Góð tilfinning!
Það tók mig 3 daga að ná á gasflutningamanninum, og fá hann til að koma með kútinn. "Soon come" var svarið og það getur bæði þýtt eftir hálftíma og eftir (greinilega) 3 daga!
Það þýðir sko ekki að vera með óþolinmæði þegar verið er að eiga samskipti við jamaicabúa!
Og svo voru það kryddjurtirnar mína! Þvílíkt að sjá þær þegar ég kom heim! Vivet hafði samviskusamlega vökvað þær, en auðvitað ekkert verið að spá í hvað var ætt af þessu og hvað var illgresi. Þannig að kryddin voru öll að kafna í velvökvuðu illgresinu, froskarnir undu sér náttúrulega vel í blómapottunum sem líktust orðið míni-regnskógi og býflugurnar voru byrjaðar að byggja sér bústað í basilikumplöntunni sem var orðin að blómstrandi tréi. Já, það er mörg búmannsraunin! Þannig að allt var klippt niður (Barry til mikillar undrunar, honum fannst þetta svo ræktarlegt!) og enn og aftur reyni ég að rækta kryddjurtir á verandanum á Taylor Road!
Í eldhússkápunum var allt á rúi og stúi - en engir maurar sjáanlegir! Vivet er búin að læra að það verður að taka allt út úr skápunum annað slagið til að fyrirbyggja góð mauravaxtarskilyrði. En hún getur hreinlega ekki lært að raða, bara hrúgar öllu einhvernveginn inn aftur. Ég held ég gefist upp við að kenna henni röðunartækni og geri þetta bara sjálf. Sjálfsagt hefur hún enga skápa heima hjá sér og henni finnst þetta ekki skipta máli, sem það kannski ekki gerir!
Bókin mín er í lokafasa (er ég ekki búin að segja þetta lengi?!!) hef verið að lesa handritið á síðum og yfirfara myndir og myndtexta. Það hefur reynst flókið að koma þessum fáu myndum vel inn - þetta er mikil handavinna sem tekur tíma. En mér sýnist á öllu að tímamörk standist; þ.e. að bókin komi út í byrjun júní. Núna er ég að yfirfara heimildir höfundarins, og þær eru sko ekki fáar; 15 þéttskrifaðar A4 síður! Hafið það gott elskurnar, KNUS í öll hús.
Comments:
vá, var að lesa færsluna fyrir neðan, þvílíkt krútt hún guðdóttir ykkar ;) annars get ég ekki beðið eftir að geta komið og kíkt á þennan garð, það verður eitthvað sérstakt ;) knús
Þetta kemur allt. Bæði bók og krydd sjáðu til.
Tíminn líður svo hratt núna að ég held að eitthvað sé að snúningnum á jörðinni. Maður þarf orðið að halda í mínúturnar, fast! Finnst þér það ekki?
Knus, Hafdís.
Skrifa ummæli
Tíminn líður svo hratt núna að ég held að eitthvað sé að snúningnum á jörðinni. Maður þarf orðið að halda í mínúturnar, fast! Finnst þér það ekki?
Knus, Hafdís.