.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

fimmtudagur, maí 17, 2007

Ég sé á almanakinu að í dag er Uppstigningardagur, frídagur samkvæmt okkar venju. Rauðu dagarnir hjá jamaicabúum er ekki í neinu samræmi við okkar, það eru ósköpin öll af frídögum; hetju þetta og hitt, freslis hitt og þetta, en svona dagur eins og í dag skiptir þá engu. Sama var um Skírdag, á eftir að finna út úr þessu með Hvítasunnuna! En svo hafa þeir nokkurs konar 1. maí í næstu viku, "Labour Day". Vivet sagði að þá ættu allir að vinna eitthvað sjálfboðastarf, ég bauð henni að koma bara og vinna hjá mér í sjálfboðavinnu! Henni fannst ég ekkert fyndin!


Það hefur mígrignt hérna síðustu dagana og einn daginn var eins og allar gáttir himinsins hefðu opnast ofan við húsið okkar. Á augabragði var garðurinn á floti, lækir runnu út um allt og þessi væna tjörn myndaðist rétt fyrir utan hjá mér. Allt á floti í andyrinu, en þakið þar er hriplegt og rignir þar inni löngu eftir að hætt er að rigna úti. Við þurfum þá að nota regnhlíf til að komast út!


Innfæddir eru farnir að hafa áhyggjur, segja að ef hann rigni svona á þessum tíma, þýði það marga og stóra fellibyli í sumar. Sjáum nú hvað setur og "spyrjum að leikslokum" eins og íslensku pólitíkusarnir segja, en það væri nú ferlegt ef rigndi allan tímann sem krakkarnir verða hér. Ari og co eru á leiðinni, eiga að lenda í New York eftir ca. 4 tíma og svo verða þau hérna seinnipartinn í dag. Rigning eða ekki; mikið svakalega verður gaman að fá þau. Og svo kemur Guðbjörg á morgun! Jibbý!

Ég var rétt komin upp í gærkvöldi , stóð gleraugnalaus og allsber við að græja mig fyrir nóttina þegar þessi svakalegi hávaði upphófst - þjófavarnarkerfið fór í gang! Og það mætti sko vera taugasterkur innbrotsþjófur sem ekki tæki til fótanna þegar það fer í gang! Það lá við að ég gleypti tannburstann, mér brá svo rosalega. Sigfús tvístraðist upp úr rúminu og augnablik stóðum við í forundran og góndum hvert á annað, en á næsta augnabliki var ég hlaupin af stað, komin í sloppinn og með gleraugun á nefinu. Ætlaði sko ekki að mæta óboðnum gesti alsber og staurblind! Hugsaði náttúrulega ekkert út í að kannski ætti ég að fara varlega niður - vildi bara stoppa þessi agalegu læti. En allt var með kyrrum kjörum, þ.e. þegar ég var búin að slökkva á lúðrinum, ekkert að sjá eða heyra óvenjulegt. Líklega hefur bara fugl eða eitthvað skordýr flogið nálægt skynjaranum á veröndinni.
Eftir 5 mínútur voru mættir tveir vopnaðir verðir, annar með hjálm og í skotheldu vesti (sá hinn sami hljóp út þegar ég mundaði myndavélina!) hinn meira afslappaður en tók þetta samt voða alvarlega og skoðaði allt í krók og kring og fannst bara gaman að stilla sér upp fyrir mig! En það vantar sko ekkert upp á þjónustuna verð ég nú að segja, nú vitum við þó að þetta virkar allt hjá þeim. Og það er nú gott að vita!

Comments:
Gott að enginn var að brjótast inn. Og nú ættu Ari og co.að vera mætt. Gaman, knus til þeirra.
Hafdís
 
Skrifa ummæli


This page is powered by Blogger. Isn't yours?