miðvikudagur, maí 09, 2007
Mér dauðbrá þegar ég opnaði fyrir Vivet í gærmorgun, ætlaði ekki að þekkja hana hún var komin með splunkunýtt hár og svona ljómandi fín. Hafði hreinlega yngst um 10 ár!
Við nánari athugun kom í ljós að þetta var nú ekki hennar hár, heldur hárkolla sem vinan hafði slengt á kollinn. "En hvað með þitt eigið hár, ertu búin að klippa það allt af" spurði ég í forundran, því kollan var svo lítil og rennislétt, það gat varla rúmast mikið undir henni og Vivet var mér vitanlega með heilmikið hár, allavega var hún með flettinga niður á bak daginn áður. Vivet ætlaði að kafna úr hlátri, sagðist ekkert hafa klippt af heldur væri hennar hár vel geymt þarna undir. "Ja, hérna - hvernig kemst það fyrir" vildi ég vita. Eftir smástund var Vivet komin með sitt velþekkta look, hjólabuxur og einhverja blússuómynd og búin að taka niður kolluna. Og þá fyrst varð ég hissa. Hárið hennar Vivet er ekki neitt neitt. Nokkrar lufsur stóðu upp úr höfðinu á henni, ein og ein lítil flétta á stangli hér og þar, annars var hún næstum ekki með neitt hár! Ég hef örugglega verið óskaplega skrítin á svipin, því Vivet hló og hló, en gat þó á endanum stunið upp að allar fínu löngu flétturnar sem hún hefur skartað með í alls kyns mynstrum hingað til voru allar gervi - bara eitthvað aukahár sem var fléttað inn í hennar eigin lufsur. En þessi nýja hárgreiðsla fer henni voða vel og ég hrósaði henni í hástert henni til mikillar gleði. En það er greinilegt að Vitet er farin að gera meira fyrir sig upp á síðkastið, hún mætti meira að segja í hálfsíðum gallabuxum um daginn, annars er hún alltaf fremur konulega klædd, í hallærslegur pilsum og blússum. Kannski er hún farin að finna fyrir sjálfstæði sem gefur henni meira öryggi með sjálfa sig. Hún er nefnilega að þéna peninga í fyrsta skiptið á æfinni núna með vinnunni hjá okkur. Og við borgum henni ágætlega, ég held hún hafi hærri laun hjá okkur en maðurinn hennar sem er öryggisvörður á hóteli fær fyrir sína vinnu. Þetta er hið ágætasta mál, gott að sjá hana svona góða með sig og roggna!
Talandi um sjálfstæðar konur;
Við Sigfús vorum boðin út að borða í gærkvöldi, á Half Moon hótelinu sem hefur einn af betri veitingastöðum bæjarins. Tilefnið var að ein af Kaupmannahafnarstjörnunum (frá aðalskrifstofu fyrirtækisins) var í heimsókn. Reyndar var það einn af undirverktökunum sem bauð, allir farnir að biðja um gott veður! En hvað um það, ég hafði stjörnuna sem borðherra, ágætis kall virtist vera, skrafhreifinn og óskaplega ánægður með börnin sín (tvíburar!) svo ekki sé nú talað um uppeldið á þeim. Hann vissi nú ekkert hvað ég var að fást við, hefur eflaust haldið að ég væri hér bara til að sinna Sigfúsi og sóla mig. En ég leiddi hann (að því að ég hélt) í allan sannleikann og sló ekkert af! Hann fékk að heyra um Nordic Lights, námskeið, fyrirlestra, ráðgjöf og bókarþýðingu, og ég gaf honum meira að segja örlítið og ókeypis fræðsluerindi um heilabilun (sem hann var voða áhugasamur um).En hvað haldið þið að maðurinn hafi svo sagt? Jú, eftir að ég er búin að telja þetta allt upp fyrir honum segir hann: "Arbejder du noget ved siden af"????
"Ved siden af HVAD" varð mér nú að orði!
Hvað ætli margir karlkyns direktörar fái svona spurningu? En hann fattaði ekkert, hélt bara áfram að útlista fyrir mér hvað hann væri góður uppalandi og hvað öllum væri ljóst hver réði á hans heimili.
Ég held að ég verði að fara að hrista rykið af gömlu kvenréttindabaráttunni minni. Hvurslag er þetta eiginlega? Hefur ekki gerst meira en þetta? Ég spyr nú bara eins og Jónas spurði forðum: "Höfum við gengið til góðs..."?
Comments:
Það er alveg ljóst að við höfum gengið til góðs, en betur má ef duga skal og kvenréttindabarátta á ennþá fullan rétt á sér. Þó eitthvað hafi þokast er enn langt í land.Viðhorfsbreytingar taka langan tíma og sumir karlar eru dragbítar (þessi hefur nú verið alger afturhaldsgaur)en við verðum að passa uppá okkur sjálfar að gefa ekkert eftir. Áfram stelpur Love S
hmm, ég hlít að vera eitthvað skyld þér nafna, því að ég ríf bara kjaft þegar einhver kemur með svona á mig ;)
Skrifa ummæli