fimmtudagur, júlí 26, 2007
Easy going Rastaman á ströndinni í Negril. Hann býr upp í fjöllunum ofan við bæinn, tekur lífinu með ró, fær sér göngutúr á ströndinni annað slagið og hefur ekki klippt sig í 22 ár. Ekki mikill klipparakostnaður þar!
Ég fór í tveggja daga ferð til Negril með gestina sem eru hjá okkur núna; Palli frændi minn og fjölskylda frá Roskilde.
Við Silja drifum okkur á fætur fyrir allar aldir til að geta upplifað sólarupprásina. Og ekki frekar en fyrri daginn var maður svikin af því. Það er bara svo ótrúlega fallegt þarna, sérstaklega þegar sólin er að koma upp og setjast. Það er svo stórkostlegt að fylgjast með litabreytingunum á sjónum; fyrst er hann dökkur og dimmur, síðan verður hann ljósrauður smástund áður en þessi þessi magnaði fjólublái litur nær yfirhöndinni. Þetta gerist allt á ca. 10 mínútum og svo er sólin komin upp og hafið fær sína alþekktu bláu og grænu áferð. Mér finnst alltaf þegar ég fylgist með þessu að hafið sé að vakna, nudda stírurnar og teygja sig áður en traffíkin ofan í því byrjar! Og að vera fyrsta manneskjan útí - það er engu líkt!
Það er búið að vera stíft prógram þessa rúmu viku síðan þau komu, auðvitað búið að fara í Dunns River Falls, klifra og leika sér þar við mikla ánægju Viktors sem sagði að þetta væri það skemmtilegasta sem hann hefði gert "á ævinni"!!
Það er búið að skoða Great House og mata fuglana upp í fjöllunum, fara í Columbus garðinn (því miður var Donald ekki viðlátinn!), smakka mat á lokalstað, fara í klúbbinn og á lokalkrá, heilsa upp á Angelique keramíkkonu, fara með mér í fitnesscentrið og þar á eftir á beutysalong og fá lagaðar neglur (það voru þó bara stelpurnar sem gerðu það!), fara á markað og auðvitað á ströndina þar sem litríku fiskarnir voru skoðaðir í krók og kring í gegnum snorkel-grímurnar.
Í dag fékk ég svo Richard til að keyra með þau í pílagrímsferð til Nine Mile sem er fæðingar- og greftrunarstaður Bob Marley. Silja er mikill aðdáandi hans.
Nýji blendarinn er búinn að vera í stanslausri notkun og eftir því sem Silja og Viktor segja, fer mér stöðugt fram í punch gerðinni!
Þarna er Silja í rétta "átfittinu" fyrir frugtpunch og karabísku veðráttuna, glöð og indæl eins og hún nú er.
Æi, mig fer nú bara að langa í punch þegar ég skrifa þetta og þá á ég ekki við frugtpunch!!
Hafið góðan dag elskurnar, KNUS í öll hús.
Comments:
Skrifa ummæli