.comment-link {margin-left:.6em;} <$BlogRSDURL$>

þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Það var voða erfitt að átta sig á veðurspánni á föstudaginn; einhver óljós hótun var um að angi af storminum sem var að fara framhjá myndi freta eitthvað á okkur, en það sem þetta var ekkert staðfest og bongóblíða í MoBay ákváðum við að keyra af stað uppí fjöllin. Þetta byrjaði líka allt voða vel, fínt veður og þurrt, en fljótlega fórum við að sjá dökk og þykk ský framundan. Við fikruðum okkur upp, upp og upp, smávegis niður aftur og svo upp, upp og upp! það var með ólíkindum hvað maður fór hátt upp! Vegirnir eru ekki góðir hérna - svo maður taki nú ekki dýpra í árinni - og sumstaðar alveg ferlegir! Og svo er afskaplega illa merkt, fullt af einhverjum troðningum og engin skilti voru sjáanleg.
Og það var ekki að spyrja að því; einhverstaðar tókst okkur að fara út af "þokkalega" veginum og inn á þvílíka troðninginn, örmjóan og hlykkjóttan, allt uppímóti og ekki bíl eða hús að sjá! Það var ekki viðlit að snúa við og allt í einu vorum við komin inn í þessi dökku og þykku ský sem við höfðum séð í fjarska.

ÞAÐ VARÐ BARA SNÖGGLEGA KOLVITLAUST VEÐUR!

Ofboðslega hvasst og rigning eins og hún getur orðið verst hér um slóðir. Það var sko gott að vera á kraftmiklum jeppa, þegar við læddumst á móti beljandanum og allt i einu lá tré þvert yfir veginn framundan. Mér leist nú ekki meira en svo á, en Sigfús sagði sallarólegur: "Þú keyrir bara yfir þetta" - sem ég og gerði og áfram héldum við. En þegar við komum að 15-20 metra bambustré sem hafði fallið þvert yfir veginn varð að grípa til annara ráða, það var sénslaust að keyra yfir það! Svo Sigfús vatt sér út og eftir smávegis átök tókst honum að beygja það þannig að ég gat keyrt framhjá. Það var náttúrulega ekki þurr þráður á honum eftir hetjuskapinn og ég var svo upptekin af að stíga bremsuna í botn á meðan á þessu stóð að ég steingleymdi að taka mynd! En eftir þetta var tiltölulega frí leið og ég var svosum voða fegin að þurfa ekki að mæta neinum bíl á þessari leið. Það hefði hreinlega ekki verið hægt.

Veðrið fór batnandi og eftir tæpa 5 tíma vorum við komin til Mandeville sem er í rúmlega 800 metra hæð. það tekur víst bara 2,5 tíma svona að öllu jöfnu eftir "hefðbundinni" leið, en við fengum líka ekstra upplifun og svakalega flott útsýni þegar rofaði til!
Í Mandeville vorum við búin að panta á bæjarins besta hóteli (samkvæmt upplýsingum af internetinu !) en komum inn á þvílíka ógeðslega staðinn. Þetta var verra en "austantjalds" hótelið sem ég gisti einu sinni á í Prag, skítugt og niðurnítt og við gátum ekki hugsað okkur að vera þarna. Fengum fyrir rest upplýsingar um annað hótel sem sýndi sig vera hinn ágætasti staður með tandurhreinni sundlaug, fitnesssal og þessum fína bar, þar sem brosandi kolsvört stúlka blandaði handa okkur þann sterkasta rompunch sem ég hef smakkað! En við vorum í þörf fyrir hann eftir daginn og nutum vel ;-)

Meiningin var að vera í Mandeville í tvær nætur en þarna var bara laust eina nótt. Einn dagur nægði líka alveg til að skoða Mandeville og nágrenni. Þarna er allt öðruvísi náttúra og mannlíf en við höfum séð áður hérna á Jamaica, afskaplega fallegt og vinalegt.

Ferlega ergilegt að mér tekst ekki að setja myndir inn á bloggið, er einhver sem getur sagt mér afhverju?

Við borðuðum "lunch" í Bloomfield Great House, fallegt og velviðhaldið hús sem stendur hátt í bænum. Þar var að hefjast brúðkauspsveisla og fólk streymdi í sínu fínasta pússi í veisluna þegar við komum. Þegar við fórum tveim tímum seinna, voru brúðhjónin enn ekki komin. Gestirnir virtust ekkert kippa sér upp við það, sátu bara rólegir í yfirskreyttum stólum og spjölluðu saman! Það er ekki svo naugið með tímasetningarnar hér um slóðir!

Eftir ferðina yfir fjöllin töldum við okkur fær í flestan sjó og ákváðum að keyra áleiðis að suðurströndinni, það yrði mest niður á móti núna! Það var nú ekki alveg rétt því landið er svo óskapelga hæðótt. Svo það var svolítið upp og niður áður en við komumst til Treasure Beach þar sem við vorum búin að redda okkur gistingu. "Treasure" þýðir víst fjársjóður eða dýrgripur, en í fljótu bragði var erfitt að sjá ástæðu nafnbótarinnar! Þetta var allt fremur primitívt og einhvernveginn voða afskekkt. En við höfðum rambað á bestu mögulegu gistinguna og það var alveg yndislegt þarna. Sunset Resort er lítið fjölskylduhótel sem liggur alveg niður við ströndina. Ströndin þarna er ólík öllum öðrum ströndum sem ég hef séð hérna, blanda af klettum og svörtum sandi og varla aðra að sjá en fiskimennina og fjölskyldur þeirra sem eru að hjálpa til við veiðina. Og veiðin maður; það sem við sáum þá koma í land með voru hálfgerðir gullfiskar, pínulitil allavega á litin kríli sem verið var að gera að. Varla einn munnbiti í hverjum. Það hefði ekki þótt merkileg máltíð í minni sveit! En þau voru alsæl með þetta virtist vera. Maður datt inn í svo mikil rólegheit þarna að við frestuðum heimför um einn dag og dúlluð okkur í þessu hæga tempói fram á mánudag þegar við svo keyrðum heim. Þá var komin Independence Day, þjóðhátíðardagur Jamaica og hvarvetna á leiðinni ríkti sannkölluð 17. júní stemming, söngur dans og strandpartý alla leiðina heim!

Við komum rétt við í Negril og skoðuðum Pirat´s Cave þar sem ofurhugarnir hoppa af klettunum 15 metra niður í sjó. Ekkert fyrir mig að prófa, en gaman að skoða. Verulega skemmtileg ferð, margt nýtt að skoða og bara ferlega ergilegt að geta ekki sýnt ykkur eitthvað af þessu á mynd! Það er svo margt fallegt og spennandi hérna á þessari eyju.
Hafið það sem best öllsömul, KNUS í öll hús.

Comments:
Urð og grjót uppí mót.Þetta hefur verið ævintýranlegt ferðalag. Mér fannst reyndar að þið ættuð að fresta þessu, en hvað um það. Gott að þið komust heil heim. Leitt með myndirnar en ekki get ég hjálpað í þeim efnum.Kveðja góð til Sigfúsar. Love S
 
úff, vildi að ég gæti hjálpað þér með myndirnar :/ en ég hef aldrei verið sérlega flink á blogspot... þú verður bara að senda myndirnar ;)
 
Tek mig saman á morgun og sendi ykkur, mínir tryggu "commentarar" nokkrar myndir á morgun. Sendi það á mailinn ykkar. KNUS
 
Skrifa ummæli


This page is powered by Blogger. Isn't yours?